— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Rattati
Heiðursgestur.
Dagbók - 2/12/06
Um verðmætamat Bandarískra hernaðaryfarvalda.

Eins og glöggir lesendur hafa kannski áttað sig á þá ferðast ég talsvert til Bandaríkjanna, nánar tiltekið Alaska vinnu minnar vegna. Þar rekst ég á ýmislegt sem að kemur mér spánskt fyrir sjónir, svo að segja.<br />

Adak er eyja sunnarlega í Aleuta eyjaklasanum. Búa þar um 37 alkohólistar (enginn þeirra leigubílstjóri - sjá fyrra félagsrit), auk nokkur hundruð farandverkamanna, enda er þar gríðarlega stór fiskverksmiðja, reyndar ein stærsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum. En Adak var eitt sinn töluvert stærra bæjarfélag. Er þar húsakostur fyrir yfir 6000 manns, enda var Adak herstöð á stærð við “varnar” stöðina á Miðnesheiði. En líkt og á Miðnesheiði, þá er nú hún Snorrabúð stekkur, eins og sumir segja. Herinn ákvað í sparnaðarskyni að leggja þessa einangruðu stöð niður. Og það var nákvæmlega, eða þannig, sem hann gerði árið 1997. Hurðunum var bara lokað, hermennirnir settust upp í flugvél og héldu til annara starfa. Allt var skilið eftir. Undir hluta af varnarsvæðinu er gríðarstór neðanjarðarbyrgi. Þar inni er allt til alls. Bar, sundlaug, sjónvarps- og útvarpsstöð, íþróttasalur (með öllum tækjum ennþá í) allrahanda skrifstofur, bíó, keilusalur, bókasafn og svo náttúrulega fjarskiptastöð. Fjarskiptatækin voru þau einu sem að voru fjarlægð. Allt annað var hreinlega skilið eftir. Þegar ég labbaði þarna um bókasafnið þá var náttúrulega búið að ganga berserksgang um allt, brjóta og bramla og velta bókahillunum um koll. En bækurnar voru þarna ennþá. Ég rakst á Encyclopedia Britannica, 12 binda safn en gallinn var bara sá að ég gat ómögulega fundið fimmta bindið, annars hefði ég fjarlægt stóran hluta af fötunum mínum og tekið það með mér.

Þetta var bara sorglegt.

En þarna átti sér stað furðulegt ferli. Allt var skilið eftir. Bílar, snjóruðningstæki, lampar, rúm, ísskápar, það var bara labbað í burtu. Og nú, tíu árum seinna er allt að hruni komið. Sama ár og ákvörðun var tekin um að yfirgefa þessa herstöð, þá voru kláraðar framkvæmdir við sjúkrahús og tvo skóla. Samanlagður kostnaður? Með þriðja skólanum, sem hafði verið smíðaður tveimur árum áður, yfir eitt hundrað milljónir dollara.

Þetta kemur manni til að hugsa. Ástæðan fyrir því að þetta var allt skilið eftir er sú, að hernaðaryfirvöld ákváðu að það væri dýrara að fjarlægja dótið heldur en kaupa nýtt. Ég er nú reyndar svo mikill sveitamaður í mér að ég skil ekki þessa hagfræði. Fyrir mér þá eru verðmæti verðmæti, ekki óþarfi sem má henda. Ég veit að það kostar að flytja hluti, en kommon!

Ef þið viljið sjá myndir þá eru þær á http://www.123.is/album/display.aspx?fn=rattati&aid=931123964
Reyndar eru þær í dálítið flókinni röð, en ég reyndi að setja skýringartexta við flestar.

Ég er ennþá dálítið hugsi yfir þessari ferð. Guði sé lof að Íslenskir stjórnmálamenn hafi ekki yfir þessum fjármunum að ráða. Þeim gengur ekki of vel með þessar fáu krónur sem þeir hafa til ráðstöfunar.

Frekari upplýsingar er hægt að fá á http://en.wikipedia.org/wiki/Adak,_Alaska gallinn er bara sá að það eru villur þar, en ekki mjög mikilvægar.

   (18 af 25)  
2/12/06 06:00

Heiðglyrnir

Þetta er alveg mögnuð og upplýsandi dagbók/myndasafn um ástandið á Adak. Ótrúlegt hvað margt þarna minnir á Ísland, veðurfar o.fl. Sóunin sem felst í þessum sögulegu endalokum staðarins er svo gríðarleg að maður veit bara ekki hvernig á að taka því. Væri ekki ráð að leggja heilan í bleyti og koma upp með e-ð sem kemur þessu í byggð aftur. Þakka þér fyrir þennan fróðleik Rattati.....Skál.

2/12/06 06:00

Salka

Þarna eru góðar myndir frá fallegu landslagi í Adak Alaska.
Þú minnist á talsvert fuglalíf en ég sá bara skallaörninn.
Já það er ótrúlegur hugsanagangur kananna að ganga svo burt frá verðmætum.
Eru einhverjarar hugmyndir uppi um hvernig mætti nýta allt þetta húsnæði og byggingar?
Ætli ástandið verði svipað á yfirgefnu herstöðinni hér eftir 10 ár eða svo?
Flottar myndir og fróðlegur pistill Rattati.

2/12/06 06:00

Billi bilaði

Ekki hækka USA í áliti við þetta. [Dæsir mæðulega]

2/12/06 06:01

krossgata

Neyslusamfélagið í hnotskurn? Allt einnota, henda eftir notkun, bara einhvers staðar.
Úff.

2/12/06 06:01

Carrie

Takk fyrir þetta félagsrit og myndirnar.
Mér finnst verðmætamat bandaríska hersins ótrúlegt - eingöngu peningar sem ráða.
Sammála Heiðglyrni um að það væri flott að koma byggð á þarna aftur. Þetta er greinilega mjög fallegt svæði.

2/12/06 06:01

Hakuchi

Hafðu þakkir fyrir ómakið Rattati, ferðapistlar þínir eru ávallt áhugaverðir.

Eitthvað segir mér að eitthvað sé verulega bogið við kostnaðar/ábatamat Bandaríkjahers. Það kemur ekki á óvart í ljósi óheyrilegra fjármuna sem Bandaríkjaher hefur yfir að ráða. Ég er sannfærður um að það hefði verið hernum til hagsbóta að koma eignunum í verð. Hins vegar er ég alveg jafn sannfærður um að það hafi verið vissum aðilum innan hersins til hagsbóta að yfirgefa allt. Líkast til er það út af fjárveitingarreglum einhvers konar.

2/12/06 06:01

albin

Skemmtilegar myndir þar á ferð.

2/12/06 06:02

Kondensatorinn

Flottar myndir.
Yfirþyrmandi sóun hjá þessum herbjálfum er auðvitað góð fyrir stríðsmangara sem hvort eð er skilja ekkert eftir sig annað en sviðna jörð og eyðileggingu.

2/12/06 07:01

Þarfagreinir

Jæja, íbúar Adak geta þó huggað sig við það að þessar herbyggingar eru byggðar samkvæmt sömu stöðlum og aðrar á eyjunni.

Rattati:
  • Fæðing hér: 28/3/05 11:32
  • Síðast á ferli: 12/5/20 20:25
  • Innlegg: 8165
Eðli:
Fæddist á sínum tíma og er enn að. Bý um þessar mundir bakvið lyklaborð og í flugvélum. Ekki þó á sama tíma eftir þetta óheppilega atvik hér um árið. Fokking Fly-By-Wire.
Fræðasvið:
Er ágætur í Ólsen Ólsen.
Æviágrip:
Er eiginlega búinn að vera meira og minna fullur. Er þó að mestu leyti hættur því. Man samt ekki rassgat af því sem gerðist fyrir ca 2001.