— GESTAPÓ —
Bangsímon
Fastagestur.
Dagbók - 2/12/06
Soldið löng saga um stutta ferð.

Fór til Vilnius um helgina og stoppaði frekar stutt. Þó var aðdragandinn mjög langur.

Aðfaranótt laugardags vaknaði ég, eftir 3 tíma svefn, um 4.30 til að ná flugvél til Kaupmannahafnar snemma morguns. Ég hafði með mér bakpoka með tölvunni minni og lámarks ferðadóti. Pabbi skutlaði mér til Keflavíkur þar sem flugmiðinn beið. Ég skil ekki alveg hversvegna vökvar þurfa að fara í plastpoka og mega ekki vera meir en 100 ml. Rakspírinn, tannkremið og hárslímið fékk að vera saman í poka. En frábært. Dottaði í flugvélinni og horfði á Ground Hog Day til skiptis. Það er sniðug mynd.

Lenti á Kastrup og flúði beint út. Úbs! Ég gleymdi að ég átti tengiflug. Æi já! Þurfti að bíða í margra metra röð til að stimpla mig inn, en svo dreif ég mig inn í hjarta Kaupmannahafnar og snæddi crepes og drakk bjór með vini mínum á stað sem nefndur er eftir Viggo Viðutan og hét Viggo. Mmm, það var ægilega ljúffengt. Kjamms smjatt, glúgg glúgg. Þræddum strikið og versluðum Xbox360 fyrir vin. Meiri bjór. Glúgg. og einn í viðbót, en hann var japanskur í 650ml stáldós. Sapporo hét hann. Soldið spez.

Var orðinn örlítið þunnur þegar ég mætti loks aftur út á flugvöll og fékk mér því nammi í kvöldmat. Flaug til Vilnius og gat varla haldið mér vakandi á leiðinni. ZZzz. Mætti til Vilnius kl. 22.30 að staðartíma og dreif mig út. Þar kom ég ekki auga á strákinn sem ætlaði að sækja mig og hringdi í hann, en þá svaraði einmitt gaur í símann fyrir framan mig. Ég heilsaði honum með handabandi og sagði: "Nice to meet you."

Við fórum beint á klúbbinn sem var gamalt neðanjarðarbirgi frá kaldastríðinu, byggt af rússum. Það var mjög langur gangur inn í salinn. Þar var kvöldið þegar byrjað, fólk farið að dansa og ég setti upp tölvuna mína og tengdi það sem ég gat tengt. Eftir að ég hafði sturtað í mig tveimur Red Bull og einum bjór, varð ég mun hressari.

Þvældist um staðinn og beið eftir að ég átti að byrja að spila. Talaði við einhverja gaura og horfði á stelpurnar. Soldið sætar stelpur í Litháen. Allar svo fitt og fallegar. Það kom að því að ég átti að byrja að spila. Ég byrjaði á fyrsta laginu en þá var tölvan að skemmleggja hljóðið feitt! ó nei! ég varð geðveikt stressaður. Fattaði að ég hafði ekki haft neinn tíma til að gera sound check. Það er ekki sniðugt. Mjög heimskulegt bara. En mér tókst að laga það og þá varð allt alltílagi, en ég þurfti samt soldið að giska á hvernig þetta hljómaði út í sal. Það vantaði nokkur hljóð, en það vissi það engin nema ég. Ekki segja neinum, ok? ég sat einbeittur og spilaði tónlistina mína fyrir fólkið.

Eftir mjög stuttan klukkutíma var ég búinn og fólkið klappaði. Jei! Þá var borin fram bangsakaka (!!) sem einhver stelpa hafði bakað fyrir tónleikana og við smjöttuðum á henni. Ég fékk eyrun. "Bear's ears!" sagði ég og hló. Ég var feginn að vera búinn.

Heimamenn spiluðu DubStep tónlist og ég fékk mér bjór og talaði við fólkið. Fékk borgað í lítum inn á skrifstofu og svo fórum við í eftirpartý. Þar var eitthvað fólk sem ég þekkti varla í sundur. Þessir útlendingar líta allir eins út. Nokkrir bjórar, cherry vodka og snakk fengu að vera með í partýinu. Ég skeggræddi um tónlist og annað.

Klukkan 7.30 fór ég svo uppá hótel frekar drukkinn og fann herbergið mitt eftir smá leit. Það var með tveimur baðherbergjum og stofu sem er tvisvar sinnum stærri en stofan mín. Tvö sjónvörp líka. Er ekki alltílagi? Kannski bjóst fólkið við að ég mundi taka eitthvað af þessum sætu skvísum með á hótelherbergið mitt, en svo var ekki; ég svaf bara einn.

Daginn eftir fór ég svo í túristaleiðangur um gamla bæinn og borðaði hefðbundinn mat að hætti innfæddra: kjúklingur fylltur smjöri og kartöflumús. Ég var þunnur, illa sofinn og það var kalt. úff! brrrr!

18.10 fór ég svo í loftið til dk aftur og settist hjá mjög hressum íslenskum stelpum. Okkur fannst mjög merkilegt að hitta íslendinga í Litháen og hvað þá að sitja á sama stað í flugvélinni. Þær höfðu verið að knúsa karlana sína sem voru að vinna í Vilnius og höfðu farið tvisvar í nudd á jafn mörgum dögum. Skemmtileg andstæða við ferðina mína, hugsaði ég á meðan ég boraði í nefið.

Ég var kominn heim til íslands um 0.30 á sunnudeginum og hafði verið fjarverandi í um 40 klst. Daginn eftir mætti ég svo í vinnuna um klukkan 11, ennþá dauðþreyttur, og gaf vinnufélögunum litáenskt nammi.

Þetta var skemmtileg ferð, þó hún hafi verið soldið krefjandi. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta heimboð af hálfu kunningja minna og væri alveg til í að fara aftur. Sérstaklega í sumar þegar það er hlýrra.

   (1 af 16)  
2/12/06 14:00

Anna Panna

Velkomin heim aftur bangsaskinn, vona að litháískt hunang hafi bragðast vel!

2/12/06 14:00

Bangsímon

Hey já ég keypti Litháenskt hunangsvín sem er 50%! ég á eftir að smakka það, mér skilst það sé mjög gott.

2/12/06 14:00

Jóakim Aðalönd

Gaman að heyra ferðasöguna kæri Bangsi. Skál!

2/12/06 14:01

Þarfagreinir

Ground Hog Day er góð
Ground Hog Day er góð
Ground Hog Day er góð

Og svo framvegis ...

2/12/06 14:01

B. Ewing

Skemmtieg saga. Við hvurslaga tóna dilla Litháarnir sér við annars? Frumsamið eða samansull?

2/12/06 15:01

krumpa

Skemmtileg saga - en hvar fær maður svona líterspoka með rennilás? Er að fara út eftir tvær vikur og ætla bara með handfarangur...

2/12/06 15:01

Bangsímon

B.: ég var með frumsamda tónlist, en þeir dilluðu sér við ýmislegt þarna.

krumpa: ég fékk bara pokann á flugvellinum. hinsvegar var hann ekki mjög stór og var ekki með rennilás. ég veit ekki alveg hvar maður fær slíkan poka.

Bangsímon:
  • Fæðing hér: 23/2/05 17:46
  • Síðast á ferli: 5/9/13 01:31
  • Innlegg: 455
Eðli:
Það er betra að vera tveir heldur en einn, því Skemmtilegt verður tvöfalt skemmtilegra þegar maður er tveir, og Leiðinlegt verður bara hálf leiðinlegt.
Fræðasvið:
Ég veit ekki mikið, en ég get spurt vini mína.
Æviágrip:
Ég varð augljóslega til í fortíðinni, þar sem ég er til núna. Veit samt ekki hvað ég var að gera áður en ég varð til. Líklega það sama og núna. Núna er ég að gera það sem ég mun gera á eftir. Ég veit ekki hvað það verður, en ég vona að það verði eitthvað mjög skemmtilegt.