— GESTAPÓ —
Limbri
Fastagestur.
Pistlingur - 4/12/06
Vondikallinn hann læknirinn... þinn.

Já, þetta eru ljótar sögur sem ganga af læknastéttinni. Þeir eru næstum því jafn grimmir og illa innrættir og lögregluþjónar og starfsmenn tryggingarstofnunar. Væntanlega veljast bara illmenni í þessa stétt, því engum virðast þeir vilja hjálpa og öllum illt gera.

Ótrúlegt en satt þá hef ég ekki eina einustu sögu að segja af illum læknum eða vondum hjúkkum. Mér er það fyrirmunað að rifja upp svo mikið sem eitt einasta skipti sem ég hef ekki fengið alúðlega framkomu og fagmannlega þjónustu hjá læknastéttinni.

Ég er frekar gallaður á margan hátt og aðallega þann að ég er yfirleitt mjög heilsuhraustur en þegar ég veikist þá er það yfirleitt frekar höstuglegt. Sem dæmi þá fæ ég ekki ''nokkrar kommur'' í hita, ég fæ undantekningarlaust nokkrar gráður. Versta tilvikið var þegar ég fékk eðlilega flensu sem 2 ára barn og hitinn fór upp í rúmar 42 gráður. Læknirinn í plássinu sat yfir mér í 3 daga og fylgdist með því að mér hrakaði ekki.

Þegar ég var að ganga þriggja ára var ég svo óheppinn að verða fyrir því að fá bólgur í þvagblöðruna. Ég man ekkert eftir því og telja foreldrar mínir það stafa af því hve duglegir læknarnir voru að róa mig niður og halda mér uppteknum, frá sársaukanum. Segja foreldrar mínir mér að það hafi verið kraftaverk hve alúðlegir þeir voru við mig, hágrátandi barnið.

11 ára gamall lendi ég í því að fljúga fram af klett og lenda á viðbeini. Það brotnaði. Læknirinn sem sá um mig batt svaðalegan svamp-kaðal um mig sem endaði í risavöxnum hnút á milli herðablaðanna. Læknirinn sá strax að ég var ekki sáttur við að vera með svona kryppu og tók þann pólinn í hæðina að taka mig í fyrirlestur um ágæti þess að vera öðruvísi og að maður gæti svo sannarlega gert gott úr svona kryppu. Það hjálpaði mér mikið.

Nú líða nokkur ár þarsem ég þarf ekki á læknum að halda nema við smávægilegar skoðanir og minniháttar atvik en þegar ég er kominn á 19. aldursárið þá byrja ég að fá verki fyrir brjóstið. Þar sem ég hafði haft aukaslög í hjartanu við fæðingu þótti móður minni rétt að ég hringdi í lækni yfir þessu. Ég varð að ósk hennar og hringdi í Hjartavernd, mér var gefinn tími næsta dag. Þangað fer ég og er settur í allar mögulegar og ómögulegar greiningar og tilraunir, allt undir stöngu eftirliti hjúkrunarfræðinga og lækna. Niðurstaðan var að ég væri með afar sterkt hjarta og kröftug lungu. Í raun svo kröftug að lítill vöðvi á milli hjartans og lungnanna sem á að virka sem smá dempari þeirra á milli réð ekki við álagið á stundum og herptist upp. Öll þessi greining sem tók bróðurpartinn úr deginum kostaði mig ekki svo mikið sem eina einustu krónu. Allir voru afar alúðlegir og sýndu mikinn skilning í því að ég væri hræddur við stingandi sársauka fyrir hjartanu, þó svo að í ljós kæmi að ég var með sterkasta hjartað í byggingunni.

Örfáum árum seinna er ég morgun einn á leið til vinnu og fæ óþægindi í magann. Frekar kröftug eru þessi óþægindi og þau leiða fljótt niður í nára. Ég ákveð að hringja í heimilislækni minn og spyrja hann hvort ég ætti ekki að koma til hans. Hann er upptekinn með sjúkling svo ég lýsi verkjunum fyrir símadömunni sem svo kemur upplýsingunum áfram til læknisins. Hann þarf ekki að huxa sig mikið um og segir henni að senda mig á Domus Medica í ómskoðun, ég sé með nýrnasteina. Þegar ég kem þangað kemst ég að því að læknirinn minn hafði hringt á undan mér og heimtað að ég fengi algjöran forgang og myndi labba næstur í tækin sama hvað tautaði og raulaði. Það gekk eftir og nokkrum mínútum síðar lá staðfesting fyrir, nýrnasteinar voru það heillin. Öll meðferð og þjónusta, framkoma og viðbúnaður voru til fyrirmyndar í þessu máli sem og öllum öðrum sem ég hef þurft að eiga við heilbrigðisgeirann.

Ég gæti talið upp nokkrar sögur í viðbót en þess gerist vart þörf, þið sjáið hver niðurstaðan er: læknar eru gott fólk sem reynir að hjálpa manni.

Það er allavegana mín reynsla.

-

   (1 af 10)  
4/12/06 09:01

Vímus

Að sjálfsögðu eru læknar almennt ágætis fólk og ég væri eflaust löngu dauður ef svo væri ekki. Það hefur verið komið að mér helköldum í 8 stiga frosti þar sem ég hafði legið rænulaus í sex tíma. Ég var úrskurðaður steindauður á staðnum en strákarnir á sjúkrabílnum töldu sig finna smá lífsmark og brunuðu með mig upp á Slysó. Tveimur tímum síðar var ég farinn að rífa kjaft.
þarna bjargaði læknir ásamt strákunum lífi mínu.

4/12/06 09:01

krumpa

Ja hérna, þetta er nú aldeilis hugljúft og fallegt. Vil samt bara minna á að skv rannsóknum fá konur verri þjónustu hjá læknum - enda eru þær lítið annað en móðursjúkra hænur.

Versta sem ég hef lent í var þegar ég fór með 11 mánaða dóttur mína til barnalæknis vegna exems. Hann hlustaði hana og meðan hann var að skrifa reikninginn sagði hann mér - án þess svo mikið að horfa á mig - að hún væri líklega með hjartagalla og sennilega þyrfti að skera! Aldeilis hlýlegar fréttir og bornar fram af alúð!
Raunar fór hún seinna til hjartalæknis og það er ekki nokkur skapaður hlutur að - nema aukaslög sem eru víst mjög eðlileg hjá börnum. En vikan sem ég beið eftir tíma hjá hjartalækninum var sérdeilis indæl og allt þessum alúðlega manni að þakka!!

Það næstversta er svo húsðsjúkdómur sem ég er með - hann er mjög undarlegur og lýsir sér í vessandi blöðrum sem klæjar í (ekki herpes...) og kemur og fer... ég hef farið til margra lækna vegna þessa - sumir greina mig með hitt og þetta (alltaf ranglega) og aðrir líta varla á mig og hlusta sko alls ekki á sjúkdómslýsingarnar heldur skrifa bara út rótsterka stera sem gera illt verra. Svo veit enginn, þrátt fyrir tugþúsunda útlát, og sársaukafullar húðsýnatökur, hver andskotinn þetta er....

Ég fór líka einu sinni á slysó vegna gruns um nýrnasteina - þar fékk ég að liggja í fjóra tíma - horfa út í loftið - og var svo send heim með þær upplýsingar að þetta væri nú sennilega ekki neitt...

En ég óska þér til hamingju minn kæri, þú ert greinilega með endemum heppinn í viðskiptum þínum við læknastéttina!

4/12/06 09:01

Billi bilaði

Í öllum stéttum og öllu fólki eru jákvæðar og neikvæðar hliðar.
Ég geri ekki ráð fyrir að það sé til ein einasta stétt manna sem er fullkomin.

Verst er það þegar menn geta ekki viðurkennt mistök sín, eða mistök kollega sinna - eru ekki nógu miklir bógar til þess að þola hornaugu stéttarbræðra.

Að maður svo ekki tali um það að halda læknum, eða læknanemum, vakandi sólarhringum saman. Fyrir hvern er það? Það er ekki hollt fyrir neinn að vaka of lengi - og vilt þú vera sjúklingur hjá örþreyttum lækni?

4/12/06 09:01

krossgata

Ég held að krumpa hafi nokkuð til síns máls varðandi það að konur fái svona heilt yfir lélegri þjónustu heilbrigðisstéttanna. Þó ég geti sagt hörmungarsögur af viðskiptum við þær stéttir þá get ég líka upplýst að það eru auðvitað ekki allir svona slæmir, kannski bara 90%.
[Glottir]
Heimilislæknirinn minn er einn af þessum ágætu, sem koma fram við mann eins og manneskju. Allar hörmungarsögurnar tengjast öðrum læknum.

4/12/06 09:01

krumpa

Jamms, það eru alla vega niðurstöðurnar úr skandinavískum rannsóknum. Læknar (og það mas kvenkyns læknar) virðast halda að við séum ekki eins harðar af okkur og kallarnir.
Tjháhá - reynið þið bara að troða keilukúlu út um óæðri endann.
Líka skrítið, því að þegar kallarnir í mínu nánasta umhverfi fá smávægilegan flensuskít liggja þeir banaleguna - amk að eigin áliti - úrillir og hálfgrátandi- en þegar ég er lasin er ég sko ekkert of góð til að elda oní þá matinn og þrífa af þeim leppana. Er ekki einu sinni kannað hvort hægt sé að gera eitthvað fyrir mig...

4/12/06 09:01

Limbri

Ástæðan fyrir þessu riti mínu var nú einna helst sú að benda á að þessar ógæfusögur sem fólk hér á gestapó hefur verið að kasta fram eiga við um vissa aðila, alls ekki alla lækna. Mér finnst það ansi lúalegt að væla yfir framkomu einhverra vissra aðila og setja þá bara undir hatt lækna sem slíkra. Eins og það að þeir séu læknar geri þá að illgjörnum manneskjum. Í guðana bænum nafngreinið þessi ómenni sem fara svona illa með ykkur í stað þess að tala bara um hvað læknar eru vondir við ykkur. Þetta er í raun bara eins og kynþáttarfordómar, nema stéttarfordómar í þessu tilviki.

-

4/12/06 09:01

Tina St.Sebastian

Þetta eru engir fordómar, en það er staðreynd að allir læknar, lögfræðingar og opinberir starfsmenn, sem og starfsmenn banka, LÍN og tryggingafélaga eru í raun holsepar á endaþarmi Satans.

4/12/06 09:01

krumpa

Ok - mundi nú ekki ganga jafnlangt og Tina (nema kannski með starfsmenn LÍN) en...

a) ritinu mitt var raunar beint að heilbrigðiskerfinu sem slíku en ekki einstaka læknum.

b) hins vegar er staðreyndin sú að yfirleitt kem ég út frá læknum litlu nær en talsvert blankari.

c) ég persónulega get ekki að því gert að ég geri meiri kröfur til lækna en annarra stétta - enda njóta þeir þannig virðingar og launa að þeir eiga að geta staðið undir þeim kröfum. Ég geri þær kröfur að lækni sé það annt um sjúklinga sína - eða meðbræður sína yfirleitt - að hann hlusti á lýsingar þeirra - skoði þá gaumgæfilega. En skrifi ekki bara út einhverja vitleysu, eða segi viðkomandi að barnið hans sé að deyja, eða segi manni með hjartaáfall að hann sé með í maganum. Það sem ég vil er smá samhugur, athugli og alúð - eins og Limbri virðist hafa fengið hjá sínum læknum.

Ef þetta er of hávær krafa þá vakna hjá mér grunsemdir um að læknar (a.m.k. sumir) séu meira í faginu af fégræðgi en vilja til að hjálpa öðrum og ættu betur heima hjá Vís eða LÍN.

Annars er ég með frábæran tannsa - ef það mildar hug Limbra í minn garð.

4/12/06 09:01

krumpa

ps. ætla ekki að nafngreina fólk hér en ef Limbri vill nöfn þá er bara að senda línu - er með nafn á barnalækni, þremur húðsjúkdómalæknum, tveimur ljósmæðrum, magalækni, heimilislækni og nokkrum bráðamóttöku- og læknavaktarlæknum....

4/12/06 09:01

krumpa

Pps. Tina - ég er raunar ákaflega ánægð með bankann minn - og marga ríkisstarfsmenn....

4/12/06 09:01

Vímus

Þetta er náttúrlega rangtúlkun hjá þér Limbri. Ég veit ekki hvar við værum án lækna. Þeir hafa bjargað mörgu lífinu og í það minnsta ég er ekki að dæma þessa stétt sem illmenni. Þeir geta líka gert mistök eins og aðrir. Hitt er svo annað mál að allt of margir hlusta hreinlega ekki og ég er farinn að hóta þeim sem ætla að afgreiða mig þannig Ég þvældist á milli lækna bæði hér og í Svíþjóð vegna verkja undir herðablaðinu sem leiddu út í öxl. Tognun, bólgur, sinafestingar var greining þeirra. Enginn sagði það sama. jú hjartalínurit bauð einn uppá. Allir létu mig fá voltaren (bólgueyðandi) Það var ekki fyrr en ég hótaði heimilislækninum að kæra hann þegar hann neitaði mér um myndatöku af hálsliðunum.
Ég fann það út sjálfur að þetta væri út frá slitnum hálsliðum. Ég hafði heldur betur rétt fyrir mér. Myndirnar sýndu mikið slit sem mér tókst að laga töluvert með eigin æfingum.
Svo er það samstaða þeirra varðandi mistök sem oft er að mínu mati glæpsamleg.
Ég er ófeiminn við að gefa upp nafnið á hálfvitanum sem afgreiddi mig sem magaveikan.
Hann heitir Björn Gunnlaugsson og var heimilislæknir á heilsugæslunni í Lágmúla.

4/12/06 09:02

Dula

Halelúja.

4/12/06 09:02

Tigra

Ég er búin að lesa yfir öll þessi læknarit og er mörgu sammála í flestum af þeim.
Ég fer ekki til lækna út af smáskít... Mér finnst það hallærislegt og það er þar að auki dýrt.
Það hefur hinsvegar stundum komið mér í koll, því ég hef stundum talið eitthvað vera smáskít þegar það var langt frá því að vera lítið og skitið.

Í eitt skiptið taldi ég mig vera með slæmt kvef, þegar upp úr krafsinu kom að ég var með lungnabólgu og álpaðist einmitt á Hróarskeldu þar sem ég tjaldaði í rigningu og drullu og fékk svo óráði einn morguninn í tjaldinu.

Í annað skiptið var ég drifin í uppskurð ekki seinna en strax.

Læknar eru öllum nauðsynlegir, en það er alveg óþarfi að fara til þeirra í hvert skipti sem þú færð vindverki.
Þó má ekki alfarið sleppa því að leita lækna eins og ég hef reynt að gera í gegnum tíðina, heldur líklega bara best að fara gullna meðalveginn.

Læknar þurfa líka að læra að hlusta stundum á sjúklinga sína... þeir eru ekki alltaf al vitlausir.

4/12/06 09:02

krossgata

Kannski eru þeir hættir að hlusta af því fólk með venjulegt kvef eins og félagsmálaráðherrann (í riti krumpu) er bankandi upp á í tíma og ótíma og þeir orðnir ónæmir þegar hvunndagshetjurnar skríða inn nær dauða en lífi.

4/12/06 09:02

Hakuchi

Falleg saga hjá þér Limbri minn.

4/12/06 09:02

Limbri

Já, svona sjáum við hlutina í mismunandi ljósi. Það sem einum finnst sjálfsagt finnst öðrum forréttindi. Það sem einum finnst áréttun finnst öðrum árásir.

Hakuchi: Já, takk fyrir það. Þetta er svona sett upp til að vera mótsvar við öllum hörmungarsögunum sem ganga eins og eldur í sinu á þurrum ágústmorgni.

-

4/12/06 09:02

Hakuchi

Það er fínt að fá örlítið jafnvægi á þessa umræðu.

Mín reynsla lendir þarna á milli, þó nær jákvæðu hliðinni. Ég hef í versta falli lent í greiningarvandræðum þar sem ég var sendur horna á milli en það er varla hægt að ætlast til að þetta fólk viti allt á fyrstu sekúndu.

4/12/06 13:00

Jóakim Aðalönd

Ég hef líka bæði slæma og góða reynzlu. Mér finnst þó oft eins og læknarnir huxi fyrst og fremst um eigin starfsframa fremur en velferð sjúklingsins. Það hlýtur samt að vera misjafnt, enda misjafn sauður í mörgu fé.

Minn tannsi er thailenzkur og heitir Dr. Bongkotrat. Indælasta stelpa.

Limbri:
  • Fæðing hér: 15/8/03 23:53
  • Síðast á ferli: 1/1/08 18:39
  • Innlegg: 664
Eðli:
Hress strákur, kannski soltið seinn stundum en ekki láta það bitna á honum.

Þykir ekki hæfur til manneldis.

Moðir Moðar
Fræðasvið:
Sunduraðgreiniræfilspróf frá Lágskóla KuluSuuk. Hálfsvetrar-skírteini á miðlungsstór míkrafónsett. Brennufræði og skógþynning.
Æviágrip:
Fæddur á elliheimili. Bjó á sínum fyrstu tveim árum bæði á austurlandi og vestfjörðum. Lenti í að vera eltur af einum. Sannkallað regnbogabarn. Lærði að vinna í fiskifýlu. Þykist vera námsmaður þessa dagana. Verður líklega aldrei að manni.