— GESTAPÓ —
Herbjörn Hafralóns
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/11/04
RJÚPNASTYTTUR

Ég var að fletta „Blaðinu“ í dag og á blaðsíðu 16 sá ég frétt með eftirfarandi fyrirsögn: „Lögreglan hefur lítil afskipti haft af rjúpnastyttum.“

Mig rak í rogastans þegar ég sá þessa fyrirsögn og hugsaði með mér að þarna hlyti að vera prentvilla. Þarna hlýtur að hafa verið átt við rjúpnaskyttur. Ég ákvað að lesa fréttina og sá þá að orðið rjúpnastyttur kom ekki aðeins fyrir í fyrirsögninni, heldur er það tvítekið í sjálfri fréttinni. Fyrsta setningin, sem raunar var heldur kauðslega orðuð, var á þessa leið:
„Það sem af er rjúpnatímabilinu hefur lögreglan aðeins þurft að hafa afskipti af rjúpnastyttum, í kringum Húsavík og í nágrenni Borgarness.“
Svo kom næsta setning og ekki batnar ritstíllinn: „Sem dæmi um afskipti var ein rjúpnastytta með útrunnið veiðikort og annar (rjúpnastytta væntanlega) með of mörg skot í byssunni.“
Síðar í fréttinni segir: „Erfitt er að segja hvað hefur verið skotið mikið af rjúpum það sem af er veiðitímabilinu.“ Hér hefði auðvitað farið betur á að segja: Erfitt er að segja hversu margar rjúpur hafa verið skotnar o.s.frv.

Ég er þó mest að furða mig á því hvaðan blaðamaðurinn hefur þetta orð, RJÚPNASTYTTUR. Það hvarflaði að mér að hér væri átt við einhvers konar gerfi-rjúpur, sem notaðar væru til að lokka lifandi rjúpur í skotfæri svona svipað og gert er með gerfi-gæsum þegar menn reyna að skjóta lifandi gæsir á haustin. Efni fréttarinnar bendir þó til þess að hér sé átt við veiðimenn.
Þá spyr ég eins og oft var spurt í þáttunum „Íslenskt mál“ á gömlu gufunni: Kannast hlustendur (hér lesendur) við að orðið rjúpnastytta sé notað um mann, sem veiðir rjúpur sér til matar?

Ég veit svei mér ekki hvort ég á að hlæja eða eða gráta yfir svona blaðamennsku en fyrst ég er á annað borð byrjaður að finna að rangri notkun íslenskunnar í fjölmiðlum, er aldrei að vita nema fleiri pistlar af sama tagi fylgi í kjölfarið. Af nógu er að taka.
Lifið heil.

   (20 af 32)  
1/11/04 19:00

Órækja

Ef við gefum okkur það að umræddar rjúpnastyttur séu í rauninni tálbeitur þá þykir mér þær orðnar ansi þróaðar ef þær þurfa bæði skotfæri og veiðikort!

1/11/04 19:00

Hundslappadrífa í neðra

Kannski er þarna verið að vísa til þess að rjúpnaveiðimenn stytta rjúpum aldur...

1/11/04 19:00

Litli Múi

Kannski rjúpur í myndastyttuleik? hver veit.

1/11/04 19:00

Ívar Sívertsen

almáttugur... hvert er fjölmiðlun landsins að fara?!?

1/11/04 19:00

Ísdrottningin

Ég fagna því ákaft að menn standi vörð um íslenska tungu og láti óvandaða blaðamenn heyra það. [steytir hnefa í átt að ímynduðum blaðamönnum]
Gott mál Herbjörn.

1/11/04 19:00

feministi

Sumir sleppa betur en aðrir, ég er svo heppin að búa utan seilingar og verð því ekki fyrir svona ónæði. Ég óska hér með blaðamönnum nær og fjær vandvirkni í verkum sínum og megi þeir einnig öðlast gagnrýna hugsun. Amen.

1/11/04 19:00

Hildisþorsti

Var það ekki Guðmundur í Miðdal sem gerði rjúpnastytturnar?
Það var til ein heima hjá pabba og mömmu.

1/11/04 19:00

Lærði-Geöff

Namminamminamminamm!!! Ég hef fengið staðfestingu á því að þessir litlu sætu fuglar hafa verið myrtir mér til munns um jólin.

1/11/04 19:01

Hakuchi

Þetta er einstaklega áberandi á Blaðinu. Þar virðist enginn prófarkalesa og oft er eins og 15 ára unglingar séu að skrifa fréttina.

Ritstjórnin er að skjóta sig í fótinn með basúku með svona hlægilegum vinnubrögðum.

1/11/04 20:01

Heiðglyrnir

.
.
.
.
Rjúpnastyttu stafaval
stuðaði vin Herbjörn
friðuð rjúpa í seljusal
Sifjar-spjöllin fremja skal

1/11/04 21:01

Sæmi Fróði

Ég á eina rjúpnastyttu, mikil stofuprýði.

Herbjörn Hafralóns:
  • Fæðing hér: 15/8/03 18:28
  • Síðast á ferli: 13/7/21 13:54
  • Innlegg: 35350
Eðli:
Vammlaus miðaldra gáfumaður, sem ann sannleikanum í fréttum Baggalúts, er með stafsetningu á hreinu og hefur næmt skopskyn. Vinur Færeyinga.
Fræðasvið:
Ohmslögmál. Hópatferli rafeinda í torleiðurum.
Æviágrip:
Herbjörn fæddist í sjávarplássi við Faxaflóa um miðja öldina sem leið og telst því líklega með eldri gestum Baggalúts. Alinn á þverskorinni ýsu, kjötsúpu og fleira góðmeti og fékk lýsispillur í skóla. Var samt pasturslítill og horaður í æsku en hefur nú náð kjörþyngd. Tekur lýsi daglega. Sótti framhaldsskóla og stundaði ýmis störf á sumrin. Byrjaði frekar seint að drekka og telur sig hófdrykkjumann. Herbjörn vinnur tæknistörf í þágu hins opinbera en eftir að hann ánetjaðist Baggalúti hafa vinnuafköst stórminnkað. Hefur þó enn ekki fengið áminningu í starfi.