— GESTAPÓ —
Ísdrottningin
Heiðursgestur.
Pistlingur - 2/12/04
Vangaveltur um Valentínusardag

Dagur elskenda eða amerísk auglýsingabrella...

Í dag er 14 febrúar sem að ku vera valentínusardagur eða dagur elskenda. Við erum nú svo lánsöm að eiga okkar sérstöku daga sem að við fögnum á okkar hátt eins og vera ber, en þýðir það þar með að okkur beri að vera illa við valentínusardaginn?

Það er satt að þetta er ekki íslenskur siður og víst er að það er engin þörf á að taka upp ameríska siði...

Ég hef lúmskt gaman af að hlusta á fólk tjá sig um "svona amrískan ekkisens óþarfa" og heyra hvernig gamall niðurbældur áróðursstrengur lifnar við í hjörtum hernaðarandstæðinga og þeirra sem að mótmæla öllu sem útlenskt er.
Samt er ég að mestu sammála þeim.

En eigum við þá að horfa alveg framhjá þessum degi og láta eins og við höfum aldrei heyrt um hann talað?

Mér finnst (og er örugglega ekki ein um það...) svolítið rómantísk tilhugsun í "degi elskenda", en bara án kauphéðnanna og auglýsingaskrumsins...

Mín tillaga er sú að þeir sem að á annað borð vilji gera sér einhvern dagamun í tilefni ástar sinnar hvert á öðru, á degi elskenda, geri það með því að byggja upp rómantíska stund.
Í hversdagsamstri getur verið nóg að gefa hvort öðru tíma og athygli, eiga notalega stund SAMAN.

En að fólk sleppi því að gleypa við áróðursmaskínunni með sínum valentínusarkortum, blómum, konfekti, ástarlífsleiktækjum (nema náttúrulega að það hafi staðið til að bæta við dótakassann...) og hverju öðru því sem reynt er að pranga inn á okkur.

Ef við höldum upp á dag elskenda með því að gera eitthvað fyrir ástina í lífi okkar, en ekki með því að kaupa burt samviskubit þá teljumst við varla vera að elta uppi brenglaða ameríska ímynd eða hvað?

Mín lokaniðurstaða er sú að við þurfum ekki að ættleiða ameríska siði með því að gleypa þá í heilum bita.... en við getum notað grunnhugmyndina okkur til góðs ef við viljum....

Það þarf enginn að vita af því hvort við höldum upp á dag elskenda eður ei...
Þetta er allt undir okkur sjálfum komið....og elskunni okkar.

Kær kveðja
Ísdrottningin

   (26 af 33)  
2/12/04 15:00

Kuggz

Hafðu þakkir fyrir þennan pistil Ísdrottning. Má glöggt merkja þess efni, að þú ert meðvituð nútímakona. En á öðrum nótum, þá rifjaði ég nú upp þá sögu, þegar Kuggz var skildað að sofa á sófanum því hann gat ómögulega munað eftir þessum degi. En sófinn var góður og skömmu seinna tók ég hann með mér er ég gekk á dyr.

2/12/04 15:00

Wonko the Sane

Það má kannski benda á að Valentínusardagurinn er alls ekki amerískt fyrirbæri, þó að margir siðir tengdir honum teljist kannski amerískir. Valentínusardagur er töluvert mikið eldri en ameríka, eða frá því 496 e.k þegar Gelasius páfi ákvað að 14. febrúar skildi haldin hátíðlegur til heiðurs st. Valentínusi sem er verndari elskenda.

2/12/04 15:00

Fíflagangur

Kaþólikkabull er ekkert skárra en amrískt bull. Er alltaf óvenju fúll og leiðinlegur við konuna sem ég elska á þessum degi. Reyni samt að muna að vera óvenju góður við hana daginn á undan, svo maður komist upp með fýluna.

2/12/04 15:00

Gvendur Skrítni

Það er eitt sem ég er nokkuð viss um varðandi sambönd og það er að fleiri tækifæri til að gera sér dagamun og vera góð við hvort annað eru af hinu góða svo lengi sem þeir verða ekki að kvöð. Ég færði minni heittelskuðu blóm og lítinn hjartalagaðan konfektkassa í gær, hún var glöð og ánægð með það og sömuleiðis ég, síðan veit ég líka fyrir víst að ef ég hefði alfarið gleymt/sleppt þessu þá hefði það ekki þótt neitt tiltökumál.

2/12/04 15:01

víólskrímsl

Mér finnst súrt ad sérstakur dagur sé naudsynlegur til thess ad fá fólk til ad vera almennilegt vid vidhengi sín thá stundina. Hvad er spennó vid ad fá blóm á Valentínusardag? Frekar vil ég koma heim úr vinnu á ósköp venjulegum midvikudegi og vera drifin á Tapasbarinn á gallabuxunum.

2/12/04 15:01

krumpa

Er ekki hlynnt Valentínusardegi - hvað sem hann var upphaflega er hann ekki okkar siður heldur bara sölubrella - er samt ekki á móti svona dögum og vil bara fá þeim mun meira á konudag!

2/12/04 15:01

Fíflagangur

Ég pant vera góður við krumpu á konudaginn.

2/12/04 15:01

Nornin

Og hver á þá að vera góður við mig elsku Fíflagangur? [brestur í grát]
En ég er sammála, mér finnst valentínusardeginum ofaukið og vil mikið frekar gera meira úr konudeginum.
Og svo er náttúrulega ómetanlegt að fá, eins og Víólskrímsl segir, rómantík þegar maður á ekki von á henni.
Og bendi líka á að rómantík er einstaklingsbundin. Það sem mér finnst rómantískt er ekkert víst að næstu konu finnist líka.

2/12/04 15:02

Ísdrottningin

Ég er reyndar svo skrýtin að ég vil ekki blóm frá mínum manni. Fyrir mörgum árum síðan fékk ég stóran og flottan vönd frá honum sem ég þurrkaði og skelli í vasa á borðið svona dögum. Í stað blóma o.þ.h. fer ég fram á að vera vakin með kaffi og nýkeyptu bakkelsi.
En ég ætlast ekki til að hann muni sjálfur eftir neinum dögum öðrum en afmælisdeginum mínum og ég myndi aldrei senda hann í sófann... ( og kúldrast ein í rúminu... ó nei! )
Hann á það til, þessi elska að koma mér á óvart með rómantískum tilþrifum þegar síst skyldi svo að ég finn enga þörf fyrir að hengja mig á einhverja daga...
En mér finnst samt rómantísk tilhugsun fólgin í hugmyndinni um dag elskenda...

2/12/04 15:02

B. Ewing

Valdísardagurinn (Valentínusardagurinn) rann upp fyrir fólki þegar ein útvarpskona á ónefndri, furðulega vinsælli, síbylju-radíóstöð (sem hægt er að stilla klukkuna sína eftir því hvaða lag er spilað á hverjum degi) kynntist þessum sið (freistast til að skrifa lágkúru, skrum, ómenningu og margt fleira ljótt en læt það ógert)
[mikið innan sviga, ekki gott]
Bóndadagur og konudagur eru hinir íslensku dagar elskendanna að mínu mati. Það þarf ekki annan dag í viðbót.

Ég berst fyrir því að kaupmenn á Íslandi geti ekki notað þennan dag til að rífa upp annars daufan febrúarmánuð í sinni búð með skreytingum, tónlist og gjafaskrumi í viðbót við konudaginn.

Í útvarpinu á að hljóma;
"Kaupið blóm fyrir bóndaginn" (21. jan, gleymdi því einhver?) eða

"Kaupið blóm fyrir konudaginn" (20 feb.)

Hversvegna að planta einhverjum Valenínusi þarna inn á milli? Hann er eins og uppáþrengjandi tengdamamma með þessu brasi sínu?

Konudag, bóndadag, mæðradag, fínt. [Valentínus fær spark hjá mér]

Sammála því að rómantíkin á að koma á óvart en ekki að vera einhver skyldukeppni milli nágranna eins og jólaseríur.

Þetta voru krónurnar mínar tvær.

2/12/04 15:02

B. Ewing

"kaupið blóm fyrir bóndadaginn"ætti þetta að vera..

[roðnar og sækir nærsýnisgleraugun]

Ísdrottningin:
  • Fæðing hér: 29/1/05 23:15
  • Síðast á ferli: 22/3/19 23:37
  • Innlegg: 1261
Eðli:
Virkur hálendisfíkill, símálandi og föndrandi söngfugl og mikil áhugamanneskja um það ástkæra ylhýra.
Fræðasvið:
Allt og ekkert að sveitamannasið