— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Saga - 1/11/05
Bernskubrek

Þetta er sumsé fyrsti kafli sögu sem ég reit er ég var í kringum fimmtán ára aldurinn. Þvi miður er restin glötuð, þar sem hann bróðir minn fékk tölvuna "lánaða" stuttu seinna til að "laga hana" og hefur hún ekki sést síðan. <br /> Nefndur bróðir birtist aftur á móti með reglulegu millibili og segir tölvuna vera bilaða, í viðgerð eða týnda, svona eftir því hvernig liggur á honum.

Ég leit upp og sá stjörnuna skína. Hún brosti til mín. Ég sveif upp til hennar og hún sagði mér sögu af himninum. Hvernig hann varð til. Hvernig tunglið og sólin urðu til. Hún veit allt. Hversvegna ég er svona lítill en hinir svona stórir. Hversvegna mamma fór burt. Hún veit allt og segir mér allt sem ég vil vita. Mér líður vel vegna þess að hún segir mér frá mömmu. Hún lætur mér líða vel, vegna þess að þegar ég er hjá henni veit ég að allt er eins og það á að vera. En þegar ég vaknaði mundi ég ekki svörin.-------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Ég labba niður ganginn og fer inn í herbergið hans pabba. Hann er ennþá sofandi. Klukkan er líka bara hálf níu á sunnudegi. Hann var úti til þrjú í nótt. Stelpan í húsinu á móti passaði mig. Hún heitir Hrefna og er rosalega skemmtileg. Fyrst poppuðum við og horfðum á spólur, og svo leyfði hún mér að flétta á sér hárið. Henni finnst ekkert skrítið að mér finnist skemmtilegra að teikna eða lesa heldur en að spila fótbolta. Þegar hún var lítil var hún rosaleg strákastelpa, lék sér eiginlega aldrei í barbí nema til að láta dúkkurnar slást. Pabbi vaknar ekki þó ég poti í magann á honum. Hann veltir sér bara og rymur. Ég fer fram í eldhús og bý til nesquick. Afi er að byrja á stöð tvö og ég horfi á hann á meðan ég sötra kakómaltið mitt. Svo fer ég í sturtu til að vera hreinn áður en ég fer til ömmu. Hún ætlar að sækja mig klukkan tíu og fara með mig til mömmu. Við ætlum að kaupa blóm. Og friðarkerti svo það sé ekki myrkur hjá henni á afmælinu hennar.
Ég flýti mér að klæða mig. Ég fer í rauðu skyrtuna sem amma Lísa gaf mér í jólagjöf í fyrra. Það er smá blóðblettur í erminni, en það er allt í lagi af því að skyrtan er hvort eð er næstum eins á litinn. Amma tekur aldrei eftir honum. Pabbi sá hann um daginn og spurði hvað hefði komið fyrir. Ég sagðist hafa dottið og óvart gripið um sárið með hendinni. Það er eiginlega satt, nema ég datt ekki. Mér var hrint. Hann spurði mig hvort það væri eitthvað að í skólanum og mig langaði svo að segja “já, það er allt að, krakkarnir stríða mér og kalla mig homma af því að mér finnst skemmtilegra að leika mér við stelpurnar. Þau hata mig og kennararnir gera illt verra með því að vera alltaf að segja hvað ég sé duglegur og hvað ég teikni vel. Ég hata skólann og kennarana og alla strákana. Ég er heimskur og leiðinlegur og geri ekkert rétt!” En ég gerði það ekki. Ég sagði bara að mér þætti gaman í skólanum, af því að pabbi fengi áhyggjur ef hann vissi að mér liði illa. Þegar pabbi fær áhyggjur af mér hringir hann í skólann og talar við skólastjórann og skólastjórinn talar við strákana og þeir ráðast á mig. Síðast lét Einar Sveinn mig drekka edik í matreiðslu. Ég ældi og ældi og var sendur heim. Kennarinn hélt að ég hefði bara orðið veikur. Pabbi heldur að það bjargi öllu að tala. Einu sinni hringdi hann í mömmu hans Einars og talaði rosalega lengi við hana. Svo kom hún heim til okkar og skammaði pabba fyrir að segja svons voðalega hluti um litla strákinn hann Einar Svein sem aldrei gerir neinum neitt illt. Aftur á móti væri ég alltaf að stríða honum í frímó. Það er ekki satt, ég get ekki lamið hann. Einu sinni hrinti ég honum í leikfimi og hann þóttist hafa meitt sig geðveikt mikið. Ég var sendur til skólastjórans.

   (22 af 43)  
1/11/05 02:02

Tina St.Sebastian

Þetta voru óhuggulegar tvær mínútur. Arg.

1/11/05 02:02

Anna Panna

Mér finnst þetta afskaplega fín byrjun á sögu. Eiginlega er þetta bara góð saga. Þú þarft endilega að hrista restina út úr bróður þínum...

1/11/05 03:00

Skabbi skrumari

Vel skrifað... gaman væri ef þú gætir rifjað upp framhaldið...

1/11/05 03:01

krumpa

Mjög falleg saga. Væri gaman að fá meira...

1/11/05 03:01

Tina St.Sebastian

Ég hef aldrei lent í því fyrr að kommentum fækki...

1/11/05 03:01

Jóakim Aðalönd

Meira!

1/11/05 03:01

blóðugt

Já, klára!

1/11/05 03:01

Kondensatorinn

Já takk meira.

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006