— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 2/12/05
Ýsfirzk fyndni XVI.

Kæru áskrifendur.<br /> Það hafa margir ykkar orðið til þess að hafa samband við mig og reka á eftir því að útgáfa “Ýsfirzkrar fyndni” haldi áfram end þykir ritröðin hin mesta skemmtilesning.<br /> Því er til að svara að nýtt bindi hefur lengi beðið prentunar en hefur ekki fengið að koma út vegna lögbanns sem kand. fíl. Engilbjartur Sóldal fékk sett á útgáfuna. Taldi hann að í einni sögunni væri að sér vegið. Það var reyndar sagan af því sem gerðist sumarið sem hann Skafti vann hjá kaupfélaginu við vöruflutningaakstur inn fjörð og út í Sóldal. Þá var það eitt sinn er hann kom akandi inn í þorp að kvöldi til að kand. fíl. Engilbjartur Sóldal, sem þá gengdi löggæzlustörfum á Ýsufirði, stöðvaði hann, skipaði honum út úr bílnum og benti honum með þjósti á að afturljós bifreiðarinnar virkuðu ekki. Starði Skafti þrumulostinn á afturenda bílsins og klóraði sér í höfðinu. Varð Engibjarti þá að orði: “Svona nú, það þýðir ekkert að vera að reyna að hugsa upp einhverja lélega afsökun fyrir svona kæruleysi!” Þá svarar Skafti: “Ja, ég var nú ekkert að því, ég er bara að velta því fyrir mér hvað hafi orðið af tengivagninum.”<br /> Vegna þessa lögbanns mun þessi saga því ekki birtast hér en ég óska ykkur góðrar skemmtunar yfir því lesefni sem fundið hefur náð fyrir augum yfirvaldsins.<br />

Eins og kunnugt er þá erum við bræðurnir bindindismenn og ef eitthvað er þá er Vatnar Blauti bróðir minn enn meiri hugsjónamaður en ég á þessu sviði. Þegar Leikfélag Ýsufjarðar og nágrennis setti upp leiksýninguna frægu “Njósnarinn og auðkýfingurinn” lék bróðir minn þar hlutverk amerísks glæpaforingja sem tottaði vindil af áfergju.
Þótti Vatnari það mesta hneisa að þekktur ungmennafélagsmaður væri staðinn að reykingum á almannafæri, þó hann sjálfur ætti í hlut og þetta væri gert í þágu listarinnar. Hann sagði sig því úr Ungmennafélaginu Andspyrnunni og lét varaformann taka við formannsstöðu rétt á undan hverri leiksýningu en gekk svo aftur í félagið og tók upp fyrri ábyrgðastörf jafnskjótt og sýningu lauk.

************************************

Vatnar Blauti, bróðir minn, tekur bindindisheit sitt mjög alvarlega. Enda hefur hann á ungmennafélagsþingi stigið á stokk og strengt þess heit í viðurvist fjölda manns að áfengi muni aldrei innfyrir hans varir koma. Hefur hann þar gengið skrefi lengra en ég og aðrir ungmennafélagsmenn á Ýsufriði sem hafa látið sér duga að strengja heit sitt á almennum félagsfundi. Það breytir því þó ekki að Vatnar Blauti er hinn mesti gleðimaður, hrókur alls fagnaðar á mannamótum og alræmdur kvennaljómi.
En það eru fleiri á Ýsufirði sem hafa strengt heit og einn þeirra er séra Guðbjartur, sem við köllum oftast bara séra Bjart. Hann er reyndar þekktur fyrir að vera nokkuð gráðugur á fé og einnig fyrir að þykja sopinn góður. Þegar hann var ungur maður og fékk köllun til að gegna embætti sálnahirðis strengdi hann hinsvegar skírlífisheit og hét að þjóna drottni sínum einum en stofna hvorki til hjúskapar né fjölskyldu. Enda hefur séra Bjartur aldrei, að því er við bezt vitum, verið við kvenmann kenndur og býr hann reyndar með móður sinni aldraðri.
Eitt sinn hagaði því svo til að Vatnar Blauti og séra Bjartur voru samskipa frá höfuðborginni til Ýsufjarðar og deildu þeir káetu um borð. Þá um kvöldið dró séra Bjartur upp áfengisflösku og tók að staupa sig en Vatnar Blauti fór að lesa í bók sem hann hafði tekið með sér. Sagðist séra Bjartur þá ekkert skilja í Vatnari Blauta að vilja ekki njóta jafn yndislegra veiga og hann taldi áfengið vera og spurði hann síðan hvort hann hefði virkilega aldrei bragðað áfengi.
Svaraði Vatnar Blauti því til að hann hefði vissulega gert það á sínum héraðsskólaárum en það væri nú orðið langt síðan og áfengi ætlaði hann aldrei að bragða framar. Síðan spurði Vatnar Blauti séra Bjart að þar sem hann hefði nú á strengt skílífisheit hvort hann hefði aldrei notið ásta með kvenmanni.
Því svaraði presturinn á þann veg að það hefði hann vissulega gert á sínum yngri árum en það væri liðin tíð þar sem hann hefði verið kallaður til starfa fyrir Drottin.
Eftir að hafa trúað hvor öðrum fyrir þessu þögðu þeir nokkra stund og Vatnar Blauti hélt áfram að lesa en leit síðan glottandi upp úr bókinni og sagði: “Unaðslegra en brennivín, ekki satt?”

************************************

Ragnar á Brimslæk var á sínum tíma mjög á móti ráðningu séra Guðbjarts í embætti og kallaði hann “hégómlegan pokaprest”. Varð hann fyrstur manna til að kalla séra Guðbjart eifaldlega séra Bjart, sem síðan hefur festst við hann.
Þegar Ragnar var spurður hví hann stytti nafn nýja prestsins á þennan hátt svaraði hann: “Mér var nú kennt það á sínum tíma að maður ætti ekki að leggja nafn Drottins við hégóma.”

   (31 af 55)  
2/12/05 21:01

blóðugt

[Flissar mikið] Skál í vatni Sundlaugur minn!

Segðu mér... stendur kand.fíl fyrir kandísfýla?

2/12/05 21:02

Jóakim Aðalönd

Saûde!

2/12/05 21:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ansi var þetta hressandi, enn & aftur !
--------
Ekki versna vinar míns, hans Vatne ritin;
kersknis- bæð´ & kímniskotin,
kostuleg & margstórbrotin.
- - -
Ýsufjarðarfyndnin er til fyrirmynda.
Í- þau skyldu allir -grunda
ef þeir vilja skriftir stunda.

2/12/05 21:02

Heiðglyrnir

Yndislegt yndislegt..!.. vinur minn Sundlaugur..!..

2/12/05 21:02

Upprifinn

Góður.

2/12/05 22:01

Sæmi Fróði

[Hlær hrossahlátri] Þú klikkar ekki Sundlaugur, frekar en fyrri daginn.

2/12/05 23:00

Skotta

Híhíhí. Þetta var snilldin ein. Nú verð ég að fara að lesa öll hin ritin. Hafið mig afsakaða.

2/12/05 23:02

Óðinn

ég átti einu sinni hund

3/12/05 01:02

dordingull

Og hvað, hengdi hundurinn sig?

Sunlaugur, það er virkilega gaman af þessum sögum.
Sagnir af þessu tagi voru til í flestum héruðum landsins
og ekki væri verra ef aðrir kynnu meira af slíku.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.