— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 9/12/04
Ýsfirzk fyndni XIII.

Kæru lesendur, þá lítur enn nýtt bindi ýsfirzkrar fyndni dagsins ljós. Margir hafa komið að máli við mig sagst sakna þessara skrifa minna og hvatt mig til að halda þessari útgáfu áfram. Vona ég að þeir hinir sömu verði ekki fyrir vonbrigðum og einnig að enn fleiri bætist í hóp þeirra sem kunna að meta kjarnyrtar gamansögur .

Kaupfélagsstjórinn okkar heitir Héðinn og ævinlega kallaður Kaupa-Héðinn. Hann er þægilegasti drengur, reyndar aðfluttur, en þykir nokkuð sérvitur. Hann hefur ekki verið við kvenmann kenndur svo við Ýsfirðingar vitum til en sagt er að hann eigi nokkur misheppnuð ástarsambönd að baki.
Þó Kaupa-Héðinn búi ekki með kvenmanni þá er hann ekki einn í heimili, því hann heldur kött sem hann hefur einstakt dálæti á. Á hverju kvöldi gefur hann kettinum sínum bleikjuflök að éta og klippir þau niður í hæfilega bita með skærum sem ekki má nota til neins annars.
Eitt kvöld, eftir að tekið var að rökkva, hafði kötturinn ekki skilað sér heim þó komið væri fram yfir matartíma. Kaupa-Héðinn varð verulega áhyggjufullur og símaði þá til Hásteins barnakennara, sem hann taldi úrræðabeztan í slíkum vanda.
Þegar Hásteinn heyrði um vanda Kaupa-Héðins ráðlagði hann honum að fara út í glugga og klippa með bleikjuskærunum út í loftið og kalla “kis-kis-kis-kis” og sjá hvort kötturinn skilaði sér ekki.
Gerði Kaupa-Héðinn nú sem Hásteinn barnakennari hafði ráðlagt honum en ekki skilaði kisa sér. Símaði kaupfélagsstjórinn nú enn til barnakennarans og tjáði honum ekki hefði þetta ráð dugað. Nú væri að verða aldimmt og aumingja kisa væri ein og óttaslegin úti.
Stakk Hásteinn þá upp á Kaupa-Héðinn færi nú út á Torg, sem svo er kallað, og gengi aðeins um þar með skærin og reyndi að lokka kisu til sín.
Þetta þótti Kaupa-Héðni ágætt ráð. Klæddi hann sig nú í “kvöldslopp” og gekk út á torgið, stikaði þar um, klippti með skærunum út í loftið og kallaði “kis-kis-kis-kis”.
Þegar þetta átti sér stað hafði kand. fíl. Engilbjartur Sóldal nýtekið við stöðu lögregluyfirvalds á staðnum. Gat Hásteinn barnakennari nú ekki setið lengur á strák sínum en símaði til Engilbjarts og sagði: “Mér ber borgaraleg skylda að tilkynna yður að það gengur furðufugl laus úti á torgi vopnaður skærum og reynir að lokka kettina okkar til sín.”
Það þarf ekki að orðlengja það að það urðu nokkrar stympingar þegar kand. fíl. Engilbjartur Sóldal handtók kaupfélagsstjórann og heldur voru þeir kindarlegir, báðir tveir, daginn eftir.

******************************

Hún Ljósbjörg, ljósmóðirin okkar, getur verið nokkuð skemmtileg í tilsvörum.
Eitt sinn ætlaði hún suður til höfuðborgarinnar í embættiserindum og fór niður í skipaafgreiðslu kaupfélagsins til þess að panta sér ferð með strandfararskipinu og kaupa sér farseðil.
Þar hitti hún Kaupa-Héðin og sagði honum að hún ætlaði að fá einn farmiða fram og til baka.
“Og hvert þá?” spurði Kaupa-Héðinn.
“Nú, hingað aftur, að sjálfsögðu,” svaraði Ljósbjörg þá.

******************************

Á afskekktum bæ í Viðvíkurhreppi háttar svo til að á hverjum sunnudegi sezt öll fjölskyldan niður og hlustar á útvarpsmessu. Er þá ætlazt til þess að hver hlusti og fylgist með messunni og láti á meðan öll önnur verk úr hendi falla.
Einn sunnudaginn á miðjum vetri varð rafmagnslaust meðan á sunnudagsmessu stóð og útvarpstækið þagnaði.
Stóð þá húsfreyja upp og hugsaði sér að ganga til verka og m.a. finna til kerti o.þ.h.
Tók þá bóndi hennar svo til orða: “Seztu niður kona góð. Messunni er ekki lokið þó hún heyrist ekki í viðtækinu okkar.”

******************************

Einhverju sinni kenndi Eiríkur á Þvottá sér einhvers meins og lagði því leið sína á heilsugæzluna, til hennar Ljósbjargar.
Átti Ljósbjörg í hinu mesta basli að fá upp úr Eiríki hvar hann kenndi helzt til þar til karlinn sagði: “Jú, sjáðu til, ef við segjum að ég sé á hnjánum hérna í Ýsufirði og með herðarnar í Viðvíkurhreppi, þá líður mér einna verst í Sóldal.

   (35 af 55)  
9/12/04 21:01

Júlía

Afbragðs lesning, nú sem endranær.

9/12/04 21:01

Litla Laufblaðið

Æðislegt, einfaldlega æðislegt!

9/12/04 21:01

Heiðglyrnir

En og aftur þeysir hann Sundlaugur okkar Vatne fram á ritvöllinn, með í farteskinu þjóðlegar gamansögur frá Ýsufirði. Staður og persónur sem að við erum farin að þekkja og finnst, ja svei mér þá, orðið bara nokkuð vænt um. Hafðu af Riddaranum innilegar þakkir Sundlaugur minn, fyrir þessa úrvals skemmtun.

9/12/04 21:01

Skabbi skrumari

hehe... snilld að venju... salút.

9/12/04 21:01

Vímus

Alveg ómissandi sögur, Vatne min kåra ven.

9/12/04 22:00

Bölverkur

Frábært, kæri skáldbróðir. Kjarnyrtur fróðleikur í meitluðu máli.

9/12/04 22:01

Nafni

Þú ert afbragð annarra sögumanna.

9/12/04 22:01

Mjákvikindi

Frábært að vanda.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.