— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 3/12/04
Ýsfirzk fyndni VIII.

Kæru lesendur. Hér er komið enn eitt eintakið af Ýsfirzkri fyndni og vona ég að vel líki. Að vísu gekk salan á síðasta bindi frekar dræmt og því hefur liðið nokkuð lengri tími en ella milli tölublaða.<br /> Það hefur komið í ljós að gamansögur frá Ýsufirði þekkjast víða og hafa ritstjórn verið sendar sögur frá lesanda einum. Kann ég honum miklar þakkir fyrir og mun honum verða sent eitt eintak frítt.<br /> Njótið vel.

Á bænum Reynivöllum í Viðvíkurhreppi búa þau hjónin Víðir og Björk stórbúi. Oft hefur verið stormasamt í sambúð þeirra og jafvel svo að þau hafa slitið samvistir tímabundið.
Eitt sinn var Víðir fluttur að heiman og fór fram á lögskilnað við konu sína en hún neitaði að gefa honum lögskilnað eftir. Sýslumaður var fenginn í málið og spurði hann Björku hvort hún væri að vonast eftir því að Víðir flytti heim aftur. Því neitaði hún og sagðist helst ekki vilja sjá hann í sínum húsum framar.
“En hví í ósköpunum viltu þá ekki gera ykkur báðum greiða og binda endi á hjónabandið?” spurði þá sýslumaður.
“Og fórna 25 ára björgunarstarfi?” svaraði þá Björk á móti.

*******************************************

Einn sonur þeirra Bjarkar og Víðis heitir Smári og er hann mikill efnismaður.
Sú saga gengur að Smári hafi fyrir ekki löngu komið að máli við föður sinn og sagt honum að hann væri búinn að finna sér unnustu og konuefni. Leist Víði vel á það og spurði son sinn hver væntanleg tengdadóttir sín væri.
“Það er hún Rósa frá Laufskála, pabbi minn”, sagði þá Smári.
“Blessaður drengurinn minn”, sagði þá Víðir á Reynivöllum, “hana getur þú ekki gengið að eiga. Það vill nefnilega svo til að ég er faðir hennar en ég bið þig blessaðan að segja henni mömmu þinni ekki frá því.”
Þetta þótt Smára mjög slæmt en lét á engu bera og sleit sambandi sínu við Rósu.
Ekki löngu síðar sagði Smári föður sínum að nú væri hann búinn að finna sér nýja unnustu, en það væri hún Lilja frá Bala
Ekki leist Víði betur á þann ráðahag og trúði syni sínum fyrir því að Lilja frá Bala væri nefnilega líka dóttir sín.
Varð Smára mjög um þetta og var hann varla mönnum sinnandi, svo móðir hans tók hann tali og þó Smári væri tregur til að segja henni ástæðuna fyrir óánægju sinni kom að því að hún fékk það upp úr honum.
“Hafðu engar áhyggjur af þessu, Smári minn” svaraði móðir hans þá. “Ég skal bjarga þessu fyrir þig, því satt að segja þá á hann pabbi þinn ekkert í þér.”

************************************

Bróðir minn Vatnar Blauti en mikill kvennaljómi og jafnan hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Á sínum yngri árum þótti hann kvensamur úr hófi, jafnvel svo að til vandræða horfði og þótti okkur þá stundum nóg um.
Sú saga er til að eitt sinn eftir myndarlegan dansleik hjá Ungmennafélaginu Andspyrnunni áÝsufirði var hann kominn með stúlku frá Sóldal í kelerí inni í vöruhúsi Kaupfélagsins.
Eftir góða stund við kossaleiki og önnur þau fangbrögð er náttúran býður tveimur fullklæddum einstaklingum upp á, var farið að þrengja allverulega að karlmennsku Vatnars bróður míns, enda var hann farinn að þreifa nokkur hátt upp og inn undir pils stúlkunnar. Kom því að því að hann spratt upp og reif niður um sig buxurnar. Varð stúlkan frá Sóldal þá skyndilega eldrauð af vonsku í framan, stökk á fætur og hvæsti á hann bróður minn: "Ég ætla sko bara að láta þig vita það, Vatnar Blauti Vatne, að ef þú ert að fara skíta þá er ég sko farin"

**************************************

Skafti heitir maður sem býr á Ýsufirði og er hann aðfluttur úr Sóldal. Hann er hinn besti drengur, mikill íþróttakappi og verkmaður góður. Hann á hins vegar ekki alltaf gott með að koma fyrir sig orði. Sagt er að meðan hann bjó í Sóldal hafi sveitungar hans oft haft hann að skotspæni.
Eitt sinn þegar Skafti var tiltölulega nýfluttur til Ýsufjarðar átti Ljósbjörg ljósmóðir erindi í Sóldal til barnshafandi konu. Þegar þangað kom inntu menn hana eftir því hvort hún þekki hann Skafta og sagðist hún þekkja hann ágætlega. Þá spurðu menn hvernig fólki á Ýsufirði líkaði við hann Skafta og lét hún vel yfir því.
“En þykir ykkur hann Skafti ekki svolítið skrítinn,” spurði þá einn úr hópnum.
“O, ætli þið Sóldælingar þykið ekki svolítið skrítnir líka þegar þið komið til manna.” Svaraði Ljósbjörg þá og meira spurðu Sóldælingar ekki um hann Skafta.

   (40 af 55)  
3/12/04 01:01

Vímus

Þetta klikkar ekki frekar en fyrri daginn.
Ljósbjörg, káta ekkjan já.
Nokkuð símanúmer?

3/12/04 01:01

Júlía

Sérlega fróðlegir og skemmtilegir pistlar hjá þér. Ég hlæ alltaf hjartanlega við lesturinn - nöfnin eru sér í lagi góð. Hafðu þökk fyrir og settu mig á áskrifendalistann.

3/12/04 01:01

Órækja

Nú er gamanið komið ansi langt fyrir neðan beltið, enda er það alsiða í íslenskum gamansögum. Meira af þessu herra.

3/12/04 01:02

Mjási

Hafðu þökk fyrir skemmtunina.

3/12/04 01:02

Heiðglyrnir

Herra Sundlaugur Vatne, Íslensk náttúra og þá sér í lagi Ýsfirzk, lætur ekki að sér hæða, góð eru gamanmálin frá Ýsufirði, hjartans þakkir.

3/12/04 01:02

Skabbi skrumari

Þetta er algjör snilld, skil ekki hvernig þú ferð að þessu... meira svona (þegar neðanbeltis sögurnar komu fór ég ósjálfrátt að ryfja upp þesslags sögur úr minni heimabyggð, með öðrum plottum reyndar og þótti gaman að)

3/12/04 02:00

Nornin

[Flissar ógurlega]
Mér finnst gaman að lesa þetta kæri Sundlaugur. Ég verð kannski bara að fara að skella mér til Ýsufjarðar, það hljómar skelfilega skemmtilega að vera þar [blikkar Sundlaug]

3/12/04 02:01

Mjákvikindi

Frábært að vanda. Kærar þakkir.

3/12/04 02:01

Vladimir Fuckov

Stórskemmtilegt. Takk fyrir.

3/12/04 03:02

James Hetfeild

dálítið fyndið ha!!!

3/12/04 09:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Líklega alskemmtilegasti skammturinn hingaðtil!

Við lesturinn áttunda bindisins bauka,
ég brosi, ég hlæ, ég mér skelli á lær.
Sagnanna skemmtunar, yndisins auka,
áfram að njóta hver maður nú fær.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.