— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 2/12/04
Ýsfirzk fyndni V.

Ég sendi ykkur nú, kæru lesendur, enn eitt bindið af Ýsfirzkri fyndni. Vona ég að þið kunnið að meta þessar skrýtlur og bendi nýjum lesendum á að hægt er að lesa eldri bindin á þessari síðu minni. Njótið vel.

Á Brimslæk er búið miklu rausnarbúi og óhætt að segja að húsbændurnir Ragnar og Sigríður séu meðal efnaðari hjóna á Ýsufirði. Þeim hefur ekki orðið barna auðið og þykir þeim það ákaflega miður.
Á næsta bæ, Strönd, búa þau Sæmundur og Hafdís. Þar er annað uppi á teningnum. Þau eiga fjölda barna en þar er oft þröngt í búi.
Eitt sinn þegar Hafdís og Sæmundur voru nýbúin að eignast enn eitt barnið lagði Sigríður á Brimslæk leið sína út á Strönd og bauð Hafdísi að taka til fósturs eitt barna þeirra. Nefndi hún það til að barnið myndi njóta hins besta viðurværis því á Brimslæk væri nóg að hafa og húsakynni stór og einnig það að hún þráði mjög að eignast barn en þeim Ragnari væri ekki fært að eignast börn saman.
“Nei, Sigríður mín,” sagði Hafdís þá, “barn tími ég ekki að láta þig hafa. En ég skal lána þér hann Sæmund minn ef það kynni að verða ykkur til hjálpar.”

***************************************************

Maður nokkur frá Viðvíkurhreppi, sem Guðbrandur heitir, býr nú í Reykjavík en ferðast árlega um sýsluna sem nokkurskonar trúboði og gefur börnum Nýja-Testamentið. Er oft kallaður Biblíu-Brandur.
Eitt sinn er Guðbrandur var á ferð á Ýsufirði gisti hann sem oftar hjá Ragnari og Sigríði á Brimslæk og var honum vel tekið.
Um kvöldið tóku Guðbrandur og Ragnar að ræða trúmál. Þó Ragnar sé trúaður maður þá fóru skoðanir þeirra ekki alveg saman og varð úr nokkur orðasenna. Fór Guðbrandur frekar halloka enda naut Ragnar stuðnings konu sinnar og annars heimilisfólks. Ákvað Guðbrandur því að taka snemma á sig náðir og bauð góða nótt.
Nú háttar svo til á Brimslæk að bæjarhús þar eru gömul, milliveggir þunnir og ákaflega hljóðbært milli herbergja. Heyrði heimilisfólk að fljótlega eftir að Guðbrandur var kominn inn í gestaherbergið fór að biðja bænir sínar öllu hærri rómi en oftast áður og undir lokin hækkar röddina svo að allir heyrðu greinilega er hann sagði: “Og svo vil ég biðja þig, Drottinn, að muna eftir honum Ragnari á Brimslæk, vini mínum, sem veitt hefur mér mat og gistingu.” Svo þagði Guðbrandur nokkra stund en síðan heyrði heimafólk hann segja klökkum rómi: “Hvað er að heyra, Drottinn? Þekkir þú ekki hann Ragnar á Brimslæk?”

*************************************************

Eitt sumar starfaði hjá Kaupfélagi Ýsufjarðar maður frá Reykjavík sem þótti afskaplega raupsamur og ofláti hinn mesti. Það sama sumar vann bróðir minn, Vatnar Blauti, innanbúðar í Kaupfélagsbúðinni.
Dag einn var Reykvíkingurinn venju fremur stór upp á sig og fór miklum orðum um hreysti og atgerfi Reykvíkinga. Steytti hann hnefa framan í bróður minn og sagði að það þyrfti nú ekki færri en fjóra Ýsfirðinga til þess að ráða við einn Reykvíking.
Var Vatnari Blauta þá nóg boðið. Hann tók oflátunginn upp á buxnastrengnum og pakkaði honum undir búðarborðið um leið og hann sagði: “Og hvað á ég svo að láta hina Ýsfirðingana þrjá gera á meðan?”

***********************************************

Eitt sinn kom iðnaðarmaður að sunnan að gera við rafal í símstöðinni og gisti þá hjá þeim hjónum Sif símstöðvarstjóra og Lárusi frá Polli. Um kvöldið voru svið í matinn og voru soðnir 4 sviðahausar handa þeim hjónum og gestinum að sunnan. Var gestinum boðið fyrst að snæða og er skemmst frá að segja að hann át 3 hausa og hluta af þeim fjórða.
Spurði Lárus hann þá, af sinni alkunnu kurteisi, hvort hann vildi ekki meira því enn væri svolítið eftir á fatinu.
“Nei takk,” svaraði sá sunnlenski, “ég hef satt að segja aldrei verið neitt gefinn fyrir svið.”

   (43 af 55)  
2/12/04 11:02

Herbjörn Hafralóns

Þetta eru frábærar sögur, sem minna mig á það þegar ég las hvert heftið af öðru af Íslenskri fyndni í gamla daga. Meira af slíku, takk.

2/12/04 12:00

Vímus

Þær bregðast ekki sögurnar frá Ýsufirði.
Er apotek á staðnum? Datt hreinlega í hug að flytja þangað.

2/12/04 12:02

Skabbi skrumari

Frábærar sögur eins og venjulega ... Salút...

2/12/04 13:01

Golíat

Þú klikkar ekki Sundlaugur..

2/12/04 14:01

Heiðglyrnir

Herra Sundlaugur Vatne, Ýsufjörður lengi lifi.
Hafðu þökk fyrir.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.