— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 2/12/04
Ýsfirzk fyndni III.

Góðar hafa verið viðtökur félagsrita minna um ýsfirzka fyndni. Því sendi ég ykkur nú, áskrifendur góðir, enn eitt eintak.

Eitt sinn var við vinnu á Ýsufirði Reykvíkingur sem brotið hafði af sér og var á svokölluðu skilorði. Þar sem enginn skilorðsfulltrúi er á Ýsufirði var honum gert að gefa sig reglulega fram við lögregluvald staðarins, sem á þeim tíma var kand. fíl. Engilbjartur Sóldal. Þetta var ófriðsemdarmaður, sem lítt tolldi í vinnu og tók fljótlega að leggja lag sitt við stúlku eina úr Viðvíkurhreppi og dvaldi þar löngum.
Eitt sinn var komið fram yfir þann tíma sem honum var gert að gefa sig fram við lögregluna og gerði Engilbjartur honum þá boð að koma til Ýsufjarðar til skýrslutöku. Neitaði afbrotamaðurinn því og sá Engilbjartur ekkert annað úrræði en að síma til sýslumannsins og fá ráðleggingar.
Þegar sýslumaður hafði heyrt alla málavöxtu sagði hann Engilbjarti að þetta væri gróft lögbrot og bæri honum að handtaka manninn tafarlaust.
“Það geri ég nú ekki”, sagði þá Engilbjartur, “þetta er illmenni.”

*******************************************************

Skáldhneigð stúlka að sunnan dvaldi eitt sinn um tíma á Ýsufirði til þess að sækja sér skáldlegan innblástur frá fögru en hrikalegu landslagi sveitarinnar.
Eitt sinn er hún var á gangi kom hún að Eiríki gamla á Þvottá þar sem hann var við girðingavinnu. Gaf hún sig á tal við hann og var full skáldlegs innblásturs.
“Finnst þér ekki stundum”, sagði hún, “þegar Sólin rís yfir fjallstindana að eldur fari um jörðina? Og hefur þú ekki séð Mánann eins mann á flótta undan skýjunum? Og hefur þér ekki þótt kvöldþokan stundum vera eins og vofur sem renna niður fjallshlíðina?”
“Jú, eitthvað rámar mig nú í það, stúlka mín,” greip þá Eiríkur fram í fyrir henni og klóraði sér í hausnum, “en það er nú orðið svo langt síðan ég hætti að drekka.”

*******************************************************

Eitt sinn, sem oftar, kom strandferðaskip til Ýsufjarðar með vörur. Tveir ungir menn frá Reykjavík voru í áhöfninni og röltu þeir upp í þorpið. Þar urðu þeir á vegi Eiríks frá Þvottá og spurði hann þá frétta úr höfuðstaðnum.
“Ekkert nema það að Andskotinn er dauður,” svaraði annar þeirra hortuglega en hinn drengurinn flissaði að fyndni félaga síns.
“Þakka ykkur fyrir þær fréttir,” sagði þá Eiríkur, um leið og hann seildist í tvo 500 krónu seðla í vasa sínum og rétti hvorum um sig.
Undrunarsvipur kom á drengina og spurðu þeir hverju þetta sætti.
“Það er nú venja hér á Ýsufirði,” svaraði þá Eiríkur, “að styrkja munaðarleysingja”.

********************************************************

Eitt sinn var það á kvenfélagsfundi á Ýsufirði að konum varð tíðrætt um hjónaband og karlmenn og fengu þeir ekki allir bestu ummæli eiginkvenna sinna.
Þá sagði Sigríður á Brimslæk: “Ég verð nú samt að segja það, að af öllum mínum skepnum vildi ég síst missa hann Ragnar minn.”

   (45 af 55)  
2/12/04 02:01

Blíða

Já, þetta er sko góð lesning með molasopanum!

2/12/04 02:01

Órækja

Gott að vita af virkum söguritara á Ýsufirði, hér eru gullmolar sem ekki mættu fara óskrásettir.

2/12/04 02:01

Nafni

<slurp> takk Laugi...<slurp>

2/12/04 02:01

Golíat

Sannur sagnarandi.

2/12/04 02:02

Limbri

[Jafnar sig örlítið af hláturköstum]

Já mikið vorkenni ég útlendinum að skilja ekki íslenska kímni.

Ef ég væri með hatt þá tæki ég hann svo sannarlega ofan fyrir þér herra Sundlaugur.

-

2/12/04 02:02

Skabbi skrumari

[tekur ofan hatt sinn]... bravó Sundlaugur, frábærar sögur...

2/12/04 03:00

Gvendur Skrítni

Já, frábærar alveg. Væri ekki ráð að skipuleggja ferð til Ýsufjarðar við tækifæri, mér finnst ég vera farinn að þekkja svo vel til staðhátta að mig langar að sjá þetta með eigin augum allt saman.

2/12/04 03:01

Z. Natan Ó. Jónatanz


Geislandi er gamanið.
Geysi-sagna-laginn,
Sundlaugur er samur við
sig, sem fyrri daginn.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.