— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 2/12/04
Ýsfirzk fyndni

Það er vel þess virði að safna saman gamansögum frá Ýsufirði enda Ýsfirðingar upp til hópa gamansamir og hnittnir í tilsvörum. Ég hef nú tekið saman nokkrar Ýsfirskar skrítlur og leyfi ykkur að njóta þeirra með mér á þessum síðum. Vona ég að ykkur líki vel og mun þá birta fleiri síðar.

Faðir minn, Hundblautur Vatne, var með eindæmum orðheppinn og hnittinn. Eitt sumar starfaði hjá Kaupfélagi Ýsufjarðar maður frá Reykjavík sem þótti afskaplega raupsamur og ýkti mjög frásagnir sínar. Eitt sinn er faðir minn var staddur í kaupfélagsbúðinni vatt Reykvíkingurinn sér að honum og hóf að lýsa dásemdum heimaborgar sinnar með óskaplegum ýkjum og orðaskreytni.
Varð þá föður mínum að orði: “Blessaður ljúgðu aðeins hægar, góði. Ég hef ekki undan að trúa þér.”
********************************************************
Næsta byggð við Ýsufjörð er Sóldalur. Mikill samgangur er milli þessara byggða og góðlátlegur rígur milli Sóldælinga og Ýsfirðinga. Því verður reyndar ekki neitað að Sóldælingar eru menn lítilla ætta, ekki til mikilla afreka fallnir og upp til hópa grunnhyggnir. Kand. fíl Engilbjartur Sóldal heitir Sóldælingur sem menntast hefur og þykir nokkuð stór upp á sig.
Hann gengdi um tíma embætti lögreglumanns á Ýsufirði. Hafði hann handtekið mann nokkurn frá Suðurnesjum er lét dólgslega á mannamótum og hafði þá áfengi um hönd. Ekki vildi þó betur til en svo að fanginn slapp úr Grjótinu. Sendi þá Engilbjartur út tilkynningu, þar sem hann opinberaði löggæslu-hæfileika sína, og var svohljóðandi: “Lýst er eftir afbrotamanni er slapp úr fangageymslu lögreglunnar. Delínkventinn er með svart yfirvaraskegg, sem hann kann að hafa rakað af sér”.
********************************************************
Eitt sinn kom kand. fíl. Engilbjartur í kaupfélagsbúðina á Ýsufirði og vildi þá svo til að bróðir minn , Vatnar Blauti Vatne, var þar innanbúðar. Vildi Engilbjartur líta á hatta og sýndi bróðir minn honum það sem nýjast og fínast var til.
Eitthvað þótti Engilbjarti lítið varið í vöruna því hann sagði með þjósti: “Þetta er nú meira draslið, þvílíkan varning býður maður ekki gentílmönnum”.
“Nei,” svaraði þá bróðir minn að bragði, “það gerum við aldrei”.
********************************************************
Þegar kand. fíl. Engilbjartur Sóldal var nýkominn til Ýsufjarðar til að gegna þar embætti yfirvalds hitti hann Ragnar á Brimslæk á förnum vegi. Ragnar bauð Engilbjart kurteislega velkomin í bæinn og svaraði þá Engilbjartur: “Það er nú ekki hægt að kalla þetta bæ, þetta er nú bara þorp.”
“Og þá eruð þér nú orðinn yfirþorpari”, svaraði Ragnar að bragði

   (47 af 55)  
2/12/04 03:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Mei-ra! [klapp-klapp-klapp] Mei-ra! [klapp-klapp-klapp]
Vonandi er þetta bara toppurinn á ýs-jakanum.

2/12/04 03:01

Mjási

Ljómandi!

2/12/04 03:01

Golíat

Áfram Sundlaugur, við viljum meira.

2/12/04 03:01

litlanorn

stórskemmtilegt alveg hreint. mætti ég biðja um meira?

2/12/04 03:01

Nafni

Afbragð annara fjelaxrita!

2/12/04 03:01

Limbri

Ef orð eru gulls ígildi, eruð þér herra minn, gullnáma.

Bravó, 6 stjörnur og glassúr á toppinn.

-

2/12/04 03:01

hundinginn

Fjandi gott og vel gert Vatne!

2/12/04 03:01

Ívar Sívertsen

Snillingur ertu Sundi minn! Endilega komdu með meira, þetta gleður vort arma hjarta á meðan nettengingin virkar og vefsíður haldast opnar.

2/12/04 03:01

Nornin

Ja ég flissaði alla vegana dálítið [flissar meira]

2/12/04 03:02

Skabbi skrumari

Þrælgóðar sögur... ekta íslensk fyndni... meira takk... Salút

2/12/04 03:02

Heiðglyrnir

Herra Sundlaugur Vatne þér og Ýsfirðingarnir yðar eruð hetjur til orðs og verka, rammíslensk kímnin svífur yfir firðinum og eru yfirburðir yðar manna til móts við Sóldælinganna svo miklir að furðu sættir.
Hafðu þökk fyrir skemmtan þessa.

2/12/04 04:01

Órækja

Íslensk fyndni, sem brýtur hefðina og er í raunninni fyndin. Meira af þessu herra Vatne!

3/12/06 11:00

Billi bilaði

[Kvittar fyrir] Takk fyrir mig.

31/10/07 04:01

Geimveran

Laum?

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.