— GESTAPÓ —
Anna Panna
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 1/12/07
Smáraakur

Fín mynd!

Í gærkvöldi gerði ég nokkuð sem ég hef ekki gert lengi. Ég fór í kvikmyndahús. Ástæðan var myndin Smáraakur (e. Cloverfield) sem ég hafði aldrei heyrt um fyrr en vinkona mín spurði mig hvort ég vildi koma með henni. Eftir að ferðin var ákveðin ákvað ég því að leita mér upplýsinga um myndina á gagnvarpinu en flestar upplýsingar sem ég fann sögðu mér að það væri best að vita sem minnst svo ég hætti leitinni og vissi því ekkert á hverju ég ætti von þegar ég gekk inn í salinn (eftir vandlega gsm-símaleit með tilheyrandi þukli og káfi, þó af kvenkyns starfsmanni, þar sem þetta var voðalega fansí og smansí forsýning og engir símar/upptökutæki leyfð).
Myndin byrjaði óvenjulega. Engin kynning, engin tónlist, allt í einu birtist stillimynd á tjaldinu og texti sem gefur til kynna að eitthvað hafi gerst í námunda við Central Park í New York. Og nú get ég ekki sagt meira því þá væruð þið komin með allt of miklar upplýsingar um myndina!

Það sem ég get sagt ykkur er að þetta er fín mynd. Söguþráðurinn er ekkert sérstaklega frumlegur en útfærslan er góð og framvindan oftast nokkuð trúverðug miðað við aðstæður. Það sem gerir þessa mynd öðruvísi en aðrar myndir um svipað efni er aðallega sjónarhornið og sú staðreynd að það er engin ‘hetja’, þannig lagað séð heldur bara venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum sem er ágætis tilbreyting! Sagan er heldur ekkert öll sögð, lítið um ‘af hverju’ útskýringar, en það kemur ekki að sök því maður sér það sem maður þarf að sjá. Þá var ekki hlé á þessari sýningu og ég verð að segja að það á að mínu mati eftir að skemma upplifunina töluvert þegar myndin fer í almennar sýningar, þetta er mynd sem má ekki við neinum truflunum.

Niðurstaðan er heilar fjórar stjörnur af fimm, fullt hús fyrir heildarmyndina, ein í plús fyrir frumlega kvikmyndatöku en tvær í mínus fyrir það að frumlegheitin gera mann sjóveikan og satt best að segja var mér hálf óglatt seinni hlutann af myndinni og ekki vegna efnistakanna...

   (8 af 21)  
1/12/07 18:01

Skabbi skrumari

Ein spurning áður en ég les: Segirðu nokkuð frá söguþræðinum?

1/12/07 18:01

Anna Panna

Neibbs! Það er m.a.s. tekið fram framarlega í gagnrýninni að það sé ekki fjallað um söguþráðinn, ég breytti líka orðalagi þar sem mér fannst ég e.t.v. hafa sagt of mikið...

1/12/07 18:01

Skabbi skrumari

Hljómar spennandi... ég þorði ekki að lesa lengra eftir að þú sagðir "birtist stillimynd" og hélt þú værir byrjuð að kjafta frá ...
En það er ekki spurning, nú langar mig að sjá myndina... Skál

1/12/07 18:01

Skabbi skrumari

Ein spurning... er nokkuð að því að vera smá rakur við að horfa á hana?

1/12/07 18:01

Anna Panna

Tjah, það er spurning... Hvernig er maginn við þær aðstæður?!

1/12/07 18:01

krossgata

Afbragðs félagsrit þar sem þér tókst að gera mig forvitna um myndina. Um leið líka eilítið trega til að sjá hana, þar sem sjóveikivaldandi kvikmyndataka er ekki alveg í uppáhaldi.

Nú er ég á báðum áttum.

1/12/07 18:01

Anna Panna

Ég mæli alveg með bíóferð, ég myndi bara ekki vera nýbúin að borða áður!

1/12/07 18:01

Razorblade

Fukkin léleg mynd

1/12/07 18:01

Tigra

Nú er ég forvitin.

1/12/07 18:01

Anna Panna

Razorblade; þú ert með fukkin lélegt nafn.

1/12/07 18:01

Huxi

Hvur er leikstjóri þessarar myndar og í hvaða flokk gæti þessi mynd fallið, (spenna, drama , gaman e.þ.)?

1/12/07 18:01

Anna Panna

Ég er ekki viss um að nafn leikstjórans segi mikið en hann heitir Matt Reeves. Það sem segir manni hins vegar ögn meira er að einn af framleiðendunum er J.J. Abrams sem gerði m.a. Alias þættina sem voru sýndir á Rúv.
Annars er afskaplega erfitt að setja hana í einhvern flokk án þess að gefa of mikið upp, kannski helst 'hasar-drama', ef það er til!

1/12/07 19:00

Grágrímur

Hann gerði líka Lost...

Mig langar að sjá þessa mynd en heyrði að þetta væri bara Blair Witch í nýjum búningi... er það satt?

2/12/07 02:01

Skreppur seiðkarl

Þér ritið og ég vitna í eftirfarandi: "Þá var ekki hlé á þessari sýningu og ég verð að segja að það á að mínu mati eftir að skemma upplifunina töluvert þegar myndin fer í almennar sýningar, þetta er mynd sem má ekki við neinum truflunum."

Engar myndir mega við truflunum, það á að banna þetta helvítis hlé, þetta er bara afsökun svo feita fólkið geti keypt sér eitthvað meira til að kjamsa á og svo detta alltaf nokkrar sekúndur úr við það. Helvítis offitusjúklingar sem ráða heiminum.

2/12/07 04:01

Ríkisarfinn

Það er nú einhver "Lífsháska" lykt af þessu, svo eiga hlá að vera skylda í öllum kvikmyndum.

Anna Panna:
  • Fæðing hér: 5/5/04 12:08
  • Síðast á ferli: 16/12/23 11:57
  • Innlegg: 4727
Eðli:
Óeðlileg í flesta staði.
Fræðasvið:
Nýliðun í sögu Bagglýska heimsveldisins og innflytjendafræði.
Æviágrip:
Anna Panna Pottfjörð endurfæddist á dimmu haustkvöldi í rigningu og roki og verður ævin ágripuð eftir þörfum.
1. ágrip: Eftir þokukennd ár í landi Ísa gerðist fröken Panna hluti af útrásarher bagglýska heimsveldisins í Danmörku.
2. ágrip: Fæst nú einnig með háskólagráðu