— GESTAPÓ —
Hildisþorsti
Nýgræðingur.
Pistlingur - 8/12/10
Að fara í sumarbús-stað.

Örlítil úttekt á þeirri fásinnu að það sé skemmtilegt og afslappandi að fara í tjaldútilegu og/eða orlofshúsaferð.

Að fara í tjaldútilegu er hræðilegt og ætti ekki nokkur maður að láta sér detta það til hugar að framkvæma svoleiðis óráðsíu í sínu sumarfríi. Í sumarfríinu á maður að safna orku til að geta mætt til sinnar vinnu af því loknu, tví-efldur og óþreyttur.

Að fara í sumarbústað er örlítill stigsmunur. Þar er þó yfirleitt rennandi vatn og vatnssalerni bað aðstaða og upphitað hús.

Ég sé svo sem ekki tilganginn með því að fara í sumarbústað. Flytja úr húsinu sínu í viku og inn í annað.

Ég á grill heima. Ég er miklu flinkari að grilla á því.

Hvað á svo að gera í bústaðnum. Jú það eru dregin fram spil alskyns. Svo þegar byrjað er að spila byrjar ósamkoulag um það hvaða reglur eigi að nota í spilinu. Ég hef voða gaman af því að sýna hvað ég er klár og vil fara í spurninga spil. Ég vinn alltaf. Og er skammaður og sagt að það sé ekkert gaman að spila við mig. Þá er dreginn fram spilastokkur og þá byrja vandræði mín fyrir alvöru. Ég er alltaf skammaður þegar ég spila. Meðspilendur skamma mig fyrir að hafa ekki sett út eitthvað annað spil og ég verð alveg ruglaður og er skammaður enn þá meir.

Ég hef brugðið á það ráð að hafa með mér bók eða eyrna-spilara og leggja mig inni í herbergi. Ekkert er svo sem hægt að skoða í nágreninu. Bara endalaus íslenskur kjarrskógur. Svo laumast ég í pokann minn og fæ mér smá koníaks lús og svo aðeins meira. Þegar ég svo hef náð upp góðum svima og vel heitum gagnaugum þá kannski fer ég fram og kasta kveðju á fólkið. En er rekinn samstundis inn í rúm.

"Þú átt ekki að láta börnin sjá þig svona."

Ég vil hafa hlýtt í herberginu sem ég sef í og ég geng alltaf úr skugga um að ég fái herbergi sem er með góðum hitastilli í.

Í fyrrasumar fór ég í svona orlofsbústað og öll ættin vildi fara með. Ojæja blessuð börnin geta farið í heita pottinn og ærslast. Börnin okkar eru uppkomin og sjá um að reka sín börn í bólið.

Það runnu á mig tvær grímur þegar kona tilkynnti mér það að Helgi frændi ætlaði að koma líka og konan hans. Helgi var svo sem ágjætur hér áður, meðan hann drakk. En fyrir 20 árum eða svo komust læknar að þeirri skemmtilegu niðurstöðu að hann væri með hjartagalla og skáru hann þvers og krus til að laga meinið. Honum varð svo um þetta að hann hætti algerlega að bragða áfengi og reykja en þess í staða fór hann að ganga og jafnvel hlaupa í tíma og ótíma, borðar helst bara lífrænt og er orðin leiðinlega fanatískur á það sem hann stundaði áður.

Við Helgi áttum góðar stundir saman í orlofsbústöðum víðsvegar um land hér áður fyrr og sátum langt fram eftir nóttu og sungum. Hann spilaði á gítar og konan hans glamraði á teskeiðar.

Nú er Helgi búinn að leggja gítarnum en keypti sér ítalska takkaharmonikku og eltir uppi um land allt alskyns harmonikkumót. Og aftan í stífbónaða slyddujeppanum sínum dregur hann tjaldvagninn sem hann smíðaði sjálfur fyrir mörgum árum.

Helgi og frú mættu á svæðið síðdegis og snöruðu upp þessum merkilega tjaldvagni. Harmonikkutaskan var komin inn í sumarhúsið og ég sá hvert stefndi ... að ég hélt. Helgi tók fram skíðastafi og sagðist ætla í göngutúr fyrir matinn.

Nokkru seinna voru konurnar byrjaðar að saxa eitthvert gallsúrt grænmeti í skál og farnar að pakka inn kartöflum í álpappír. Konan hafði á orði við mig hvort ég vildi ekki fara að huga af því að hita kolin í grillinu. Ég gerði það og kveikti í og ilmurinn af kolunum kom af stað í mér matarþörfina og einnig það að opna einn bjór. Ég opnaði mér bjór og um mig hríslaðist einhver ánægjustraumur. Konan hans frænda míns var farin að stjákla um og kíkja eftir kallinum.
"Hann bjargar sér kallinn." segi ég.
"Hann er nú hjartveikur!" svarar hún þá í ásökunnartón.

Eftir töluvert og heitar umræður um heilsufar og ratvísi frænda míns fann ég að ég var skyndilega orðinn undir, þar sem ég var einn á móti konunni minni og konu frænda míns. Það endaði með að ég rölti af stað æpandi nafn fullfrísks frænda míns út í kjarrskóginn.

Eitthvað hef ég farið aðrar leiðir þegar ég ætlaði að snúa við því að ég villtist og endaði heima á hlaði á sveitabæ sem ég hafði ekki hugmynd um að væri þarna. Ég gerði vart við mig og húsmóðirin tók ekki annað í mál en að ég fengi kaffi og sykurmaríneraðar pönnukökur maðurinn hennar mundi keyra mig til baka. Ég sagði að ég gæti nú komið mér sjálfur ef ég fengi leiðsögn um það í hvaða átt ég ætti að ganga. En það var ekki við það komandi ég skildi bíða á ókunnum bæ á ókunnum stað eftir því að bóndinn á bænum kláraði að mjólka kýrnar.

Ég sat aftan á einhverskonar heyvagni þegar við renndum í hlað á orlofshúsinu. Ég var auðvita skammaður.
"Hann Helgi frændi þinn kom heim rétt eftir að þú fórst." segir konan.
"Hann fór líka í allt aðra átt en þú." segir kona frænda. Það er einhver fyrirlitning í röddinni.
"Það eru bara allir búnir að borða." gjammar svo Helgi frændi minn frammí, hlægjandi.

Ég sagði ekki neitt en tók við einni brenndri kótelettusneið og 2 hálfétnum pylsum eftir krakkana. Ég endurheimti bjórinn minn líka. Hann var volgur og sósan köld.

Ég var búinn að missa alla löngun til að vaka eitthvað lengur og hugðist leggjast til hvílu. Þá upplýstist það að konan hans frænda hafði undanfarið þjáðst af feiknarlegum astma og varð að fá að sofa inni.

Hver haldið þið að hafi þurft að ganga úr rúmi?

Þar sem Helgi er orðin svo hraustur af labbitúrum og lífrænu fæði þá hefur hann verið harður andstæðingu þess að hita upp tjaldvagninn. Hann segir það að sofa úti sé svo hollt og gott fyrir blóðrásina. Ég klæddi mig upp í úlpu og vettlinga og laggðist til svefns í tjaldvagninum þessa sumarbústaðaferð.

Eftir nokkra stund heyrði ég í gegn um kaldan ágúst vindinn óm af harmonikku spili og teskeiðaskrölti. "Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur?" syngur fólkið í sumarbústaðnum.

   (3 af 21)  
8/12/10 15:02

Billi bilaði

Mikið er ég sammála þér.

8/12/10 16:01

blóðugt

Mikið óskaplega gladdi það mig að lesa þetta félagsrit og sjá að hér á ég þjáningabróður, amk upp að vissu marki. Ég fór bæði í tjaldútilegu og í sumarbústað með fjölda manns og hef sjaldan verið eins örmagna eftir sumarfrí og ég er nú - mætt í vinnu og hangi fram á borðið geispandi.

8/12/10 16:01

Regína

Hvað átti það að þýða að senda þig eftir frænda þínum en leita svo ekki að þér!
Nei auðvitað, þú ert ekkert hjartveikur og ábyggilega í miklu betra formi, enda borðarðu ábyggilega almennilegan mat!

8/12/10 16:01

Skabbi skrumari

Takk fyrir þetta Hildisþorsti minn... Skál.

8/12/10 16:01

Heimskautafroskur

Takk fyrir helvíti hressandi pistling! Láttu mig þekkja þetta.

8/12/10 16:02

Upprifinn

Ég flutti í sumarbússtaðfyrir mörgum árum og er sáttu.

8/12/10 18:01

Golíat

Engin samúð hér. Lærðu bara að spila á spil og druslastu svo með frænda þínum út að skokka. Fátt eins nærandi og að skokka í íslensku skógarkjarri og fá sér svo bjór og grillket á eftir.

8/12/10 21:01

Huxi

Hahahaa... Mikið djöfulli hló ég. Þetta er alltof satt. Það er t.d. algjörlega brennt fyrir að fólk vilji spila við mig spurningaspil en ég spila ekki önnur borðspil vegna þess að enginn virðist kunna reglurnar... Nema ég.

10/12/10 00:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Þetta var gaman að lesa; margt kunnuglegt í þessari stemmningu... SKÁL !

Hildisþorsti:
  • Fæðing hér: 29/4/04 07:41
  • Síðast á ferli: 25/5/19 03:06
  • Innlegg: 8
Eðli:
Ljúfmenni á öllum stöðum.
Fræðasvið:
Tækifærissinni með föst viðmið.
Æviágrip:
Ólst upp þar sem öll fjöll eru há.