
Í tilefni af áttræðisafmæli Vigdísar Finnbogadóttur færir Baggalútur henni „Gjöf“.
Lag og ljóð eru eftir Braga Valdimar Skúlason. Guðmundur Pálsson syngur með dyggri aðstoð Karls Sigurðssonar. Eyþór Gunnarsson leikur á píanó, harmónikku og bassa. Daníel Friðrik Böðvarsson leikur á gítar. Upptökum stýrði Guðm. Kristinn Jónsson.
Einnig má benda á eldri óð sem Baggalútur flutti Vigdísi árið 2004: » Vigdís Finnbogadóttir
GJÖF
Þú mátt fá næstum allt sem ég á
mína ást, mína trú, mína von, mína þrá.
Ég þarf eitt, aðeins eitt fyrir mig
eina einustu minningu um þig.
Þetta eitt, það er allt,
það er allt sem ég vil
– það er allt sem ég þarf frá þér.
Þetta einasta eitt
ef þú átt það þá til
það er allt sem ég óska mér.
Þessi þjóð sem að þér er svo kær
hvernig þakkar hún allan þann styrk sem hún fær
alla ást þína' og ómældu trú
og eins að þú sért bara þú.
Þessi orð, þetta ljóð, þetta lag
sem ég legg fyrir þig, einmitt í dag
þú mátt eig'etta allt, ef þú vilt.
Fyrst þú ert svona prúð – og stillt.
Þetta eitt, það er allt
það er allt sem ég vil
– það er allt sem ég þarf frá þér.
Þessi einasta ögn
– ef þú átt hana til –
hún er allt sem ég óska mér.
Þetta eitt, það er allt,
það er allt sem ég vil
– það er allt sem ég þarf frá þér.
Þetta einasta eitt
ef þú átt það þá til
það er allt sem ég óska mér.