UMHVERFISMAT

Baggalútur hefur komist yfir umhverfismat VSÓ-ráðgjafar og raunverulegar skýrslur þeirra vísindamanna sem hafðir voru með í ráðum við umhverfismat vegna Norðlingaölduveitu. Eftirfarandi eru fáein brot úr skýrslunum - til samanburðar.


1. DÆMI
Eftirfarandi setning úr skýrslu Dr. Alberts Alberz, sérfræðings í Umhverfismatsfræðum:

"Það er fráleitt að ætla í þvílíka framkvæmd sem myndi á örskömmum tíma rústa lífríki Suðurlands og til lengri tíma leggja Evrópu í auðn."

Verður í skýrslu VSÓ:

"Ekki er að sjá að framkvæmdir þessar verði til annars en gagns fyrir náttúruna - hjálpi umhverfinu og dýralífinu að vaxa og dafna og komið jafnvel í veg fyrir yfirvofandi pólveltu".

2. DÆMI
Eftirfarandi setning úr skýrslu Dr. Unnar Auðardóttur, sérfræðings í áhrifum virkjunarframkvæmda á náttúruperlur:

"Landsvirkjun er ekkert annað en samansafn vitskerrtra tækifærissinna, sem hyggjast svívirða fjallkonuna íslensku á viðurstyggilegan hátt og þvinga til samræðis við íslenska ríkið - í þeirri aumu von að eitthvert þeirra afkæma sem undir gætu komið við slíkt ofbeldisverk gæti mögulega grafið upp fáeinar krónur úr holdi móður sinnar og stungið í vasa síns brjálaða föður".

Verður í skýrslu VSÓ:

"Því ber að fagna þegar frumkvöðlar á borð við Landsvirkjun eru reiðubúnir að leggja til blóð svita og tár við að bjarga íslenskri þjóð úr prísund fáfræði og afturhalds og leggja með því drög að bjartri framtíð þar sem náttúran og umhverfisvænn iðnaður gangast hönd í hönd til móts við dásamlega tíma".

3. DÆMI
Eftirfarandi setning úr skýrslu Dr. Darra Sverrissonar, sérfræðings í beislun náttúruauðlinda í iðnaðarskyni:

"Jafnvel þótt ég sé afar fylgjandi nýtingu náttúruauðlinda í iðnaðarskyni og ákafur talsmaður beislunar vatnsorku, stend ég orðlaus frammi fyrir þeim andstyggilegu fyrirætlunum Landsvirkjunar sem hér eru til umræðu og vil að fram komi í skýrslu þessari að ég mun aldrei nokkurntímann samþykkja viðlíka svíðingsskap gegn mannkyninu!".

Verður í skýrslu VSÓ:

"Allar fyrirætlanir Landsvirkjunar sem hér eru til umræðu eru til mikillar fyrirmyndar og til þess fallnar að koma Íslandi í hóp siðaðra sjálbærra þjóða".

4. DÆMI
Eftirfarandi setning úr skýrslu Dr. Brynjars X. Vífilssonar, sérfræðings í óbeinum lífríkisröskunum:

"Þær hörmungar sem dynja myndu yfir gjörvallri heimsbyggðinni við framkvæmdir af þessu tagi eru svo stórkostlegar, að sjálfur Adolf Hitler myndi skammast sín fyrir að láta sér detta slíkt í hug í sínum ógeðfelldustu martröðum".

Verður í skýrslu VSÓ:

"Sjálfur Kristur væri stoltur af þvílíku sköpunarverki og lofgjörð til Skaparans".

5. DÆMI
Eftirfarandi setning úr skýrslu Dr. Páls Njálssonar, sérfræðings í efnislegum táknfræðum:

"Eru þessir menn ekki með öllum mjalla? - á virkilega að bera þetta á borð fyrir skynsamt fólk?"

Verður í skýrslu VSÓ:

"Aldrei á minni löngu starfsævi hefi ég orðið vitni að fyrirætlunum um þvílíkar dásemdir - framkvæmdavilji Landsvirkjunar er ávísun á betri tíð sem verður minnst um alla eilífð í sögubókum mannkyns".