Lesbók13.10.02 — Dr. Herbert

Brá mér í dulargervi um helgina og arkaði sem leið lá niður í miðborg Lundúna. Ferðinni var heitið á griðarstað heiðursmanna þeirra sem kenna sig við sjálfstæðisbaráttu Skotlands. Knæpan heitir William Wallace og er staðsett nálægt Baker Street á slóðum sem Arthur Conan Doyle hefur greypt í minni okkar. Þegar uppi var staðið skar ég mig nokkuð úr með rauða gerviskeggið og klæddur í skotapils. Hvað um það, ég var mættur til leiks tilbúinn að ylja þjóðarsálinni í félagsskap blóðheitra norðanbreta. Ballið byrjaði svosem ágætlega. Fékk gæsahúð þegar ég kyrjaði þjóðsöngin í hljóði og hugsaði mér gott til glóðarinnar, enda íslenska landsliðið að fara að etja kappi við versta knattspyrnulið sem sögur fara af. Við vitum öll hvernig fór. Það er erfitt að lýsa kenndum einmana fréttaritara í skotapilsi í þungamiðju fagnaðarláta óvinarins. Það bætti svo gráu ofaná svart að upp komst um dulargervið og ég fékk vel útilátna bjórsturtu að launum. Það kom svosem heldur ekkert á óvart að þjálfaragerpið skyldi enn og aftur skýla sér bakvið leikmenn sína með því að hrósa einhverjum nýliðabjánum sem hann álpaðist til að velja í landsliðið. Mér fallast hendur og mig skortir orð til að lýsa ábyrgðarleysi þessa manns. Guð blessi hann og varðveiti sálu hans.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182