Lesbók22.11.02 — Enter

Ég má til með að tjá mig stuttlega um fyrirhugað prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Ekki veit ég hvað mínum mönnum gengur til með þessum skrípaleik. Það eina sem skiptir jú máli er að Davíð fari fyrir listanum og þar þarf engar kosningar til. Kjörþyngd Davíðs er svo yfirþyrmandi að mér er jafnvel til efs að þingkosningar séu nauðsyn þegar þvílíkur maður býður sig fram til þjónustu við land og lýð - og hananú.

En fyrst menn endilega vilja fá aðra á þing er jú skömminni skárra að það séu sjálfstæðismenn en einhverjar landeyður úr öðrum flokkum. Til þess þarf jú framboðslista, en ég sé andskotakornið ekki að það skipti neinu máli hvernig hann er skipaður þegar forystusauðnum sleppir. Þó eru fjölmargar leiðir eru færar aðrar en þessi ekkisens prófkjörsdella.

Stafrófsröð er einn kostur. Myndi skila fjármálaráðherra góðu sæti, og Björn Bjarna fengi aftur að vera með. Við værum líka blessunarlega laus við bæði Pétur Blöndal og Sólveigu Péturs.

Þyngd er vissulega áhugavert viðmið. Myndi skila virðulegum flokki þingmanna. Geir, Björn og nýliðinn Birgir væru öruggir inn og bæði Ásta og Sólveig ættu góða möguleika - aftur værum við laus við Pétur.

Aldursröðun væri mér að skapi, þá þyrfti ekki að hafa áhyggjur að bannsettir ungliðarnir yrðu flokknum til skammar í sölum alþingis, bægslagangurinn er þvílíkur - er mér jafnvel til efs að þeir kunni margir hverjir að reima. Gallinn við þetta er að Pétur væri nokkuð öruggur inn.

Sjónskekkja er fýsilegur kostur. Gleraugu sóma sér vel á þingmannsnefi og vekja samúð. Meginkostur við þetta er að Guðlaugur Þór kæmist aldrei á þing, enda of hégómlegur til að viðurkenna slíka fötlun.

Kynferði er hættulegt viðmið en vænlegt til árangurs. Veit ég að æringinn Davíð hefði ekkert á móti því að þingflokkur hans væri eingöngu skipaður konum. Erfitt yrði þó að skera úr um hvort Pétur er nógu mikil kerling til að fljóta með, nú eða Sólveig.

Hér reifa ég aðeins örfá atriði af fjölmörgum sem mér koma í hug. Allar eru þær vænlegri en sú sem fara á á morgun. Vona ég að miðstjórn sjái hið snarasta að sér að sér og blási prófkjör af áður en húsmæður borgarinnar flykkjast á kjörstað til þess eins að sötra kaffi og eyðileggja framtíð þjóðarinnar.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182