Lesbók25.11.02 — Spesi

Um helgina var haldin árshátíð fólks sem starfar á sviði kvikmyndagerðar og dagskrárgerðar í sjónvarpi. Hófst þessi árshátíð á mikilli verðlaunaafhendingu þar sem einstaklingar innan geirans hlutu viðurkenningu fyrir það sem þeir gerðu á árinu. Var mál manna að viðkomandi hafi gert það sem þeir gerðu á einhvern hátt betur en hinir sem voru að gera svipaða hluti. Var þetta í flestum tilfellum rangt. Hvar var til dæmis tilnefningin fyrir heimildamyndina "Líf ostrunnar" eftir Hákon Kolbeinsson, kvikmyndina "Hret og hrásalat" eftir Valgarð Sturlaugsson og fyrir bestan leik Haralds Hallgrímssonar í aðalhlutverki í sömu mynd? Að ég tali nú ekki um þessi "heiðursverðlaun" sem voru veitt einhverri ellihrumri, engilsaxneskri útgáfu af Stefáni Jóni Hafstein og fyrir hvað? Að læra að tala bjagaða íslensku?! Nei, hér voru augljóslega brögð í tafli, gengið var fram hjá helstu listaverkum síðasta árs og í stað þeirra fékk subbulegt poppið og lágkúran að njóta sín.

Gott og vel: Þetta er út af fyrir sig þolanlegt, enda eru sannir listamenn þjóðarinnar vanir að láta þjóðina ganga yfir sig á aurugu vaðmálinu við ómerkilegar athafnir sem þessa, allt fram í rauðan dauðan, þegar þeir loksins eygja veika von um viðurkenningu sauðheimsks almúgans fyrir störf sín. Það sem hins vegar svíður sárast er að Sjónvarp allra landsmanna taldi ástæðu til að sýna þessa óhæfu í beinni útsendingu, svo slefandi almúginn gæti fengið að fylgjast með "stjörnunum" klappa hverri annarri á bakið og strjúka um lendar fyrir það eitt að sinna starfi sínu. Já, kæri lesandi, sjálft Ríkisútvarpið, hinn mikli vörður um íslenska hámenningu, tók þátt í þessum skrípaleik, að ógleymdri frillu forseta lýðveldisins.

Því miður er þetta sem ég hefi rakið hér að ofan enn eitt merkið um þverrandi gildi og hnignandi gæðaskyn ráðamanna. Hér á landi er fé endalaust hellt í sjálfumglaða strákpjakka og innantómar stelpuskjátur sem myndu ekki þekkja listaverk þó það sparkaði í þau fóta á milli. Á meðan ganga sveltandi um göturnar þeir er síst skyldu, hinir sönnu listamenn þjóðarinnar.

Kæri lesandi: Þér getið lagt yðar af mörkum til að berjast gegn þessari þróun, til dæmis ritað lesendabréf í helstu fjölmiðla landsins, ritað eftirlætis þingmanni yðar bréf og beðið hann að athuga þessi mál og, síðast en ekki síst, sniðgengið alla þá lágmenningu er á vegi yðar verður. Vonast ég til þess að hugleiðing þessi hafi vakið yður til umhugsunar um þessi alvarlegu mál, jafnvel orðið til þess að þér einn daginn grípið til aðgerða gegn þessu óréttlæti.

Góðar stundir.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182