Lesbók11.10.01 — Enter

Finnist ég dauður er viðkomandi beðinn að lesa þessi orð. Ef þú fékkst næstum taugaáfall við að sjá mig þá bið ég þig að afsaka, ég réð þessu ekki. Ég skil vel að þú sért sár og mér þykir leitt að geta ekki útskýrt þetta betur.

Ekki hreyfa mig. Ekki fara að blása eitthvað ofan í mig eða berja á bringuna á mér. Ekki þrífa um únliðinn eða þrýsta á barkann á mér. Það er svo ömurlegt eitthvað að horfa upp á fólk fálma þannig eftir lífi. Sé ég dauður, sést það. Hafi ég augun opin, ekki loka þeim. Ég vil ekki friðsæla dauðagrímu. Ég vil starandi, brostið augnaráð sem grefur sig inn í allt og alla - og ekki krossleggja hendurnar, þá verð ég gamall. Ég varð ekki gamall.

En ef til vill ertu einmitt að enda við að krossleggja á mér hendurnar þegar þú rekur augun í þetta bréf. Dregur blöðin varlega upp úr brjóstvasanum - vonandi er ég ekki farinn að lykta. Sléttir úr þeim á hnjánum. Lítur á mig spyrjandi, nei líttu á blöðin! ég sjálfur hef ekkert að segja úr þessu. Þú lest - færð samviskubit yfir að hafa lokað augunum en kemur þér ekki að því að opna þau aftur því þau voru svo óhugnanleg svona köld - starandi á ekki neitt en ég fyrirgef þér, þú vissir ekki betur. Ég veit núna sjálfur hversu margt maður veit ekki og hvernig áttir þú líka að vita, það sem þú veist núna?

Samt, ég vildi óska að þú fyndir mig áður en ég byrja að lykta.

Ég vona að ég sé heima. Uppi í rúmi eða í hrúgu á eldhúsgólfinu. Það er betra. Þá sést strax hver ég var og það veitir mér öryggi. Það hugsa ég sé erfitt að deyja úti, í bílslysi - eða drukkna. Drukkna, hugsaðu þér að falla í ískaldan sjó - finna hjartað stoppa áður en maður kafnar. Og almáttugur, hvernig verður þér við að finna mig eftir margar vikur, innan um þang og krabba, bleikan og uppþembdan, ókunnugan. Hvað gerirðu ef þér verður óglatt? Nei, þá kann ég betur við að vera heima.

Ekki hringja neitt. Bíddu. Sestu niður og jafnaðu þig. Fáðu þér vatn að drekka. Hugsaðu um eitthvað fallegt. Ímyndaðu þér hver ég er og afhverju svona er komið fyrir mér. Ekki gráta - og gerðu það ekki öskra eða æpa á hjálp. Það liggur ekkert á. Leyfðu mér að finna hvernig er að þurfa ekki að anda, hugsa, ekki tala. Hvorki elska, hata, langa, spyrja, éta né sofa. Þurfa ekki að lifa. Þú verður að sýna biðlund því þetta er alveg nýtt fyrir mér. Nú loksins þegar ég hef allan tíma veraldarinnar - ekki skemma fyrir með óþolinmæði og fljótfærni. Bíddu.

Þú mátt eiga úrið mitt. Það er silfrað og skífan er sjálflýsandi í einhver augnablik eftir að ljós skín á það. Þú skalt gæta þess vel því tíminn er dýrmætur. Passaðu þig bara að skipta reglulega um rafhlöður og athugaðu að þó vísarnir fari í endalausa hringi þarftu ekki að elta þá frekar en þú vilt.

Ég bíð. Sést það á mér? Ég hlýt að vera óttalega sauðslegur á svipinn. Ég er að bíða eftir að eitthvað gerist, hvort einhver komi að sækja mig. Hvort ég sjái ljós eða göng eða brú eða geimverur. Eða fái umsóknareyðublað um endurholdgun; nafn, dánarorsök, áhugamál, hjúskaparstöðu, væntingar um framhaldslíf - eða bara eitthvað. En það gerist ekki neitt.

Mér er kalt. Ég hélt menn fyndu ekki til dauðir. Ég skelf. Sést það? Leggstu hérna og horfðu með mér. Lokaðu augunum og sjáðu hvað allt verður óþolandi svart. Heyrirðu? þögnina? hvernig allt hverfur? Klíptu mig ef þú ert þarna.

Ég verð að vera viss - þó mér finnist ég dauður.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182