Lesbók13.10.06 — Enter

Kætast nú roðamaurar víða.

Þeir voru nefnilega hleraðir. Einhverjir í það minnsta. Kannski. Af leyniþjónustunni. Eða Sjöllunum. Eða leyniþjónustu Sjallanna. Líklega. Hugsanlega. Vonandi.

Því allir vildu hinir örvhygðu og valdalitlu auðvitað innst inni að háleynilegar hlustunarpípur alltumlykjandi íhaldsins hafi á einhverjum tímapunkti beinst að þeim og þeirra – og hlerað leyndardómsfull áform þeirra um matarinnkaup, samráð um kvikmyndahúsaferðir og auðvitað blóðuga byltingu, barnaát og viðlíka andfélagslegar athafnir aðrar.

Skiljanlega, enda fáir skeinuhættari uppreist og stoðum lýðveldisins en ullarklæddir íslenskir kómónistar um miðbik síðustu aldar – sumir hverjir meir að segja læsir.

Öllu óskiljanlegri er þó þörfin á því að leggja hlustir við gaspur og gífuryrði Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum ráðherra. En sá vill þó ólmur meina að sími sinn hafi verið hleraður í bak og fyrir. Reyndar hélt hann fyrst að þar væri bara eitthvert stórveldið að sinna sínum hefðbundnu smáþjóðanjósnum - en nú heldur hann jafnvel að þarna hafi SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN staðið að málum – sem auðvitað er mun alvarlegra mál. Mun.

Guð hjálpi okkur ef ófyrirleitnir útsendarar D-lista hafa í raun legið daga og nætur yfir útskriftum af innihaldsríkum samskiptum Jóns við erlenda þjóðhöfðingja, háttsetta Alþýðuflokksmenn – og auðvitað Bryndísi.

Þeir gætu vitað allt. Allt.

Og hvað ef þeir hafa nú ekki látið þar við sitja, heldur einnig hlerað aðra ráðherra, biskupinn, landhelgisgæsluna – eða jafnvel VIGDÍSI?

Hugsið ykkur bara. Öll okkar dýrustu leyndarmál geymd á floppy-diskum í Valhöll.

Ljótt ef satt er.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182