Lesbók03.01.06 — Númi Fannsker

Góðir Íslendingar.
Hvur fjandinn er eiginlega að ykkur? Hvaða endemis, dómadagshálf­bjána­innræti er það sem knýr ykkur til að sprengja þessa bansettu flugelda fram eftir öllum morgnum? Sko. Skítt með það að þið, góðir Íslendingar, viljið gera ykkur glaðan dag um áramót. Það vilja allir. Meira að segja ég skaut upp flugeldum á gamlárskvöld. En það eru, andskotinn hafi það, takmörk fyrir því hversu lengi í einu er hægt að góna og hlusta á þessar fjandans bombur.

Og það er alveg sama þó skothríðin hafi verið stanslaus klukkutímum saman - alltaf skal einhver drattast út á hlað klukkan þetta 3-4 um nóttina og skjóta upp afgangstertunum, sem búið er að eyða tugum, ef ekki hundruðum þúsunda í og alls, alls ekki má gleyma að sprengja. Kveikja í þessum gríðarlega skemmtilegu þúsundhvellabombum sem buna upp úr sér nákvæmlega sama puðrinu samfleytt í hálftíma. Og kveikja svo í næstu. Og næstu. Samt er enginn að horfa. Enginn að segja: „Vá - svakaflott terta! Var þetta Njáll?“ Nei það eru nefnilega allir í hverfinu ýmist á trúnó inni á klósetti eða komnir upp í rúm og sprengjuvargurinn sjálfur stendur varla í lappirnar og man ekki hvað hann heitir - hvað þá að stórkostlegt tertuspilið skilji eftir sig meira en vott af grun um fjarræna minningu af bleiku ljósi á himni og hellu fyrir eyrum.

Auðvitað er þetta ekki forsvaranlegt. Auðvitað eiga menn ekki að eyða mánaðarlaunum í púðurkellingar! Púðurkellingar sem smábörn í Austurlöndum springa í loft upp við að troða út af bleiku glimmeri og nítróglusseríni fyrir lítil sem engin laun svo þið, góðir Íslendingar, getið dundað ykkur við að puðra þeim upp í loftið undir morgun á nýársdag. Æði.

Góðir Íslendingar - þið eruð asnar.


 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182