Lesbók12.10.05 — Númi Fannsker

Úff. Margt misjafnt og misheppnað hefur Ríkissjónvarpið framleitt á tæplega 40 árum. Skiljanlega. Eðlilega - menn gera sosum mistök. En oft taka menn mið af fyrri mistökum og læra jafnvel af þeim. Greinilega ekki alltaf þó.

Nú er búið að endurvekja Dagsljós sem var í sjónvarpinu fyrir um áratug eða svo undir nafninu Kastljós. Kastljós! Eina helvítis ferðina enn. Geta menn ekki einu sinni látið sér detta í hug nafn á þáttinn? Ég man eftir Kastljósi í gamla daga - man hrollinn sem fór um mann þegar kastljósslagið tók að glymja í sjónvarpinu. Þetta er reyndar ein af mínum fyrstu minningum, þessi ömurlegi þáttur. Síðan þá hefur þátturinn breyst frá því að vera brakandi þurr pallborðsumræðuþáttur í þetta fjandans ofpródúseraða skrímsli sem ryðst inn í stofuna hjá manni á hverjum degi.

Öllum gömlu mistökum Ríkissjónvarpsins hefur verið safnað í sömu súpuna - vandlega kryddaða af Agli Eðvars sem virðist hafa slegið öll sín fyrri met í gersamlega brjáluðum sviðsmyndum þar sem öllu ægir saman svo sjálft efni þáttarins fer algerlega framhjá manni.

Þarna eru leifar gamalla Kastljóssa, Dagsljós, Kolkrabbi, Himinn og jörð og hvað þetta heitir allt saman, þessir fersku, nýstárlegu dægurmálasjónvarpsþættir - fyrir alla fjölskylduna. Við allra hæfi. Allra. Í gær var t.d. langt, myndskreytt viðtal við konu sem upplifði hörmulegt ofbeldi og níðingsskap árum saman sem barn. Þetta viðtal var klukkan átta í dægurmálaþætti þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Jeremías. Það er staður og stund fyrir svona umræðu - Kastljós er hvorugt.

Öllu þessu stýrir svo dálítill Þórhallur, sem er eins og James Bond á valíum - en enginn Logi því hann stakk af til Stöðvar tvö. Yfirgaf sökkvandi skip þegar hann sá í hvað stefndi. Klár strákur hann Logi.

Úff.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182