Lesbók05.09.05 — Enter

Jæja. Þá er blessað bensínið komið upp fyrir 120 krónur á lítra. Í þetta skiptið ku það hafa hækkað vegna hvassviðris í henni Ameríku. Skítt, vissulega, en svona er nú bara heimurinn. Ekki ráðum við veðrinu þarna vesturfrá.

Þeir mega þó eiga það, blessaðir bensínsölumennirnir að þeir hækkuðu ekki lítrann nema um fjórar krónur þrátt fyrir að þörfin í síðustu viku hafi verið, eins og flestum er kunnugt, 8 krónur og 50 aurar. Þetta eru auðvitað öðlingar, alltaf tilbúnir að fórna sér fyrir alþýðuna.

Svo er það auðvitað orðum aukið hjá mér að lítrinn sé kominn yfir 120 krónur, því vissulega get ég hæglega dælt sjálfur á bílinn fyrir skitnar 117 krónur, rúmar. Ég á ekki að láta mína leti flekka orðspor blessaðra bensínsölumannanna.

En ekki er útlitið gott. Nei, nú er þörfin, eins og þið eflaust vitið orðin heilar sjö krónur. Sjö króna þörf! Hugsið ykkur bara. Samt bíða þeir, blessaðir, ætla jafnvel að bíða til morguns. Því auðvitað vilja þeir ekki hækka lítraverðið fyrr en fullreynt er að það gangi ekki til baka. Hvílík ósérhlífni. Hvílík mannúð.

Ég vil bara hvetja fólk, um leið og það léttir undir með bensínafgreiðslufólkinu og dælir sjálft (og sparar um leið!) að gauka nú fimmhundruðkalli, eða þúsund, aukreitis í kassann - okkur munar ekkert um það, en það getur skipt sköpum fyrir bensínsölumennina, blessaða.

Og ekki viljum við að blessaðir bensínsölumennirnir fari á hausinn. Nei, hjálpumst að, höldum þeim á floti, ekki nema bara fyrir það að halda samkeppninni gangandi.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182