Lesbók02.09.05 — Númi Fannsker

Einn vinsælasti áfangastaður íslenskra sólbakara um þessar mundir er Króatía. Svo mikil er ásóknin í ferðir þangað að langir biðlistar mynduðust hjá ferðaskrifstofum í sumar. Langir, langir. Þar liggja svo náhvítir Íslendingar eins og asparguslengjur, nýveiddar uppúr niðursuðudós, og þamba sól. Gott og vel.

Á leið minni til vinnu í morgun gekk ég yfir Lækjartorg, eins og alla aðra daga. Þar stóðu þá og marséruðu fram og aftur torgið, tugir Króata með trefla og veifur - klæddir treyjum merktum landsliði Króatíu í knattspyrnu. Þessir menn æddu þarna um með bjór í hönd (íslenskan reyndar), baulandi og organdi á vegfarendur og grenjandi einhverskonar baráttu- og þjóðsöngva. Torgfarendur (sem voru allnokkrir, einkum menntaskólanemar að bíða eftir strætó sýndist mér) voru lostnir þrumu og góndu á þessa gaulandi íþróttaunnendur þar sem þeir fóru um torgið með ófriði og ögruðu (að mér fannst) öllum sem á vegi þeirra urðu. Á meðan á þessu stóð kurruðu hvítar eftirlitsmyndavélar á húsþökunum og einhversstaðar sat lögregluþjónn með samloku og kókómjólk og fylgdist með - flissaði kannski þannig að kókómjólkin frussaðist útúr honum. En bara aðeins.

Nú velti ég því fyrir mér hvað þyrfti að gera til að Króatarnir sem hér dvelja um þessar mundir trítluðu niður í Nauthólsvík og legðust þar í sólbað í stað þess að hrella heiðarlegt og blásaklaust fólk með villimannslegum apalátum og drykkjuhrekkjum.

Nei ég segi svona.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182