Lesbók05.04.05 — Enter

Heyrðu mig nú.

Hvað heldur þú þig eiginlega komast upp með það lengi að smyrja öllu þínu malbiki skammlaust eftir úttroðnum bakraufum landsbyggðarinnar meðan þorri þjóðarinnar situr fastur í endalitlum bílröðum á suð­vestur­horninu og hreyfist ekki úr stað?

Það þarf nú déskotakornið ekki mikið til að við auðmjúkir þrælar þínir fáum komist lifandi, þurr og sæmilega heil á geðsmunum frá Sæbrautinni yfir í Grafarvoginn. Flest myndi hjálpa Sturla mín. Í alvöru. Þó ekki væri nema að fá tvo planka þarna yfir, eða lítinn kláf.

Og hvernig er með þessi margumræddu mislægu gatnamót í Kringlumýrinni? Þarf ég virkilega að draga hæstvirtan ráðherra þarna niðureftir á hægri eyrnasneplinum og tjóðra niður á gatna­mótunum miðjum til að það kvikni á perunni?

Þú veist hvað verið er að tala um, er það ekki Sturla mín? Eða ertu enn og aftur að hygla déskotans dreifingjunum sem komu þér á koppinn? Það væri svosem eftir öðru.

Það er ekki nóg með að þetta ofdekraða útnárahyski þurfi heilan flugvöll í miðbæ Reykjavíkur til að komast sem fyrst í Kolaportið, heldur þarf það nú líka að geta brunað gegnum annan hvern hól, helst á tvöfaldri akgrein — á flóttanum suður.

Ég veit ekki betur en að í þau fáu skipti sem yfirleitt er hægt að brúka þessa margborguðu og sítroðnu útírassgatsslóða, þ.e.a.s. þegar þeir eru ekki á kafi undir vatni, aur, snjó - eða hreinlega týndir — þá komist þeir fáu skrjóðar sem það þurfa ágætlega milli staða.

En nei. Hæstvirtur ráðherra getur vitanlega ekki hugsað sér að það komi rispa á alla fínu nýkeyptu snæfells- og hnappdælsku jeppana af einhverjum sjoppulegum malarvegi. Onei. Það verður að malbika hvern einasta helvítis kindaslóða og leggja göng um hverja bévítans þúfu sem fyrir verður á leið jeppaflota íslenska lýðveldisins upp á jökul eða ofan í næsta gljúfur. Skárra væri það nú.

Á meðan situr höfuðborgarhyskið staðdeyft og starir dáleitt í bremsuljós náungans. Helvíti sátt bara.

Húrra fyrir því, Sturla mín. Húrra fyrir þér.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182