Lesbók07.02.05 — Númi Fannsker

Jæja - þá eru þeir hættir að drepa börn í sjónvarpinu, a.m.k. tímabundið. Alveg er það makalaust að Umferðarstofu detti í hug að sýna auglýsingar á besta tíma þar sem hvert barnið á fætur öðru er drepið og limlest. Er eitthvað í heiminum andstyggilegra en barnadráp?

Að sjá þennan unga, óábyrga krullupésa fleygja stelpukrakka niður stigaop er náttúrulega sjokkerandi - það er ekki spurning, en það vekur mann ekki til umhugsunar um umferðina. Næst þegar ungur, óábyrgur karlmaður sest undir stýri og er búinn að drekka tvö rauðvínsglös þá skiptir það ekki sköpum að hann hafi séð þessa stelpu drepna á undan fréttunum og eftir Kastljós. Það vekur heldur ekki unga, óábyrga karlmanninn sem aldrei spennir barnið sitt í bílstól, til umhugsunar, að hann hafi séð ungabarn detta fram af svölum á undan ER og eftir Fraiser.

Mikið hryllilega eru þessar auglýsingar búnar að fara í taugarnar á mér. Þetta byrjaði nefnilega í sumar þegar auglýsing var sýnd þar sem ungur, óábyrgur karlmaður ekur á litla tíkarspenta stúlku á reiðhjóli og hún liggur eins og klessa á götunni en hann grefur andlitið í ungum, óábyrgum, en um leið karlmannlegum höndum sínum. Undir er svo leikin léleg stæling á ágætu dægurlagi um regnboga og fegurð heimsins. Vægast sagt ömurleg auglýsing og ég varð svo pirraður þegar ég sá þessa barnamisnotkun að ég frussaði rauðvíni yfir stofuborðið og fjarstýringuna og sjónvarpsdagskrána - sem var náttúrulega mjög óábyrgt af mér.

En nú er sumsé búið að stöðva þetta ofbeldi, þessa sjokkþerapíu sem börnin okkar hafa þurft að horfast í augu við á undan Disneymyndinni á föstudögum og eftir Spaugstofuna. Þau þora ekki lengur að láta taka sig í kleinu, hvað þá snúa sér í hringi. Þau þora ekki að hjóla þar sem ungir, óábyrgir karlar eru á ferli og hugsa sig tvisvar, ef ekki þrisvar um áður en þau stíga út á svalir með svoleiðis villimönnum.

Gott.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182