Lesbók17.04.02 — Enter

Sælt veri fólkið,
Ég brá mér af bæ í gær og sá sýningu amerísk-mexíkósk leikhóps á verkinu 'Blaður, annar hluti' (Blade II). Er hér um að ræða skemmtilega súrrealíska, en um leið hádramatíska úttekt á 'lífi' vampýrna í nútímasamfélagi.

Höfundur verksins er enginn annar en hinn hæfileikaríki og orðheppni David S. Goyer sem sló svo eftirminnilega í gegn árið 1990 með leikritinu 'Dauðadómur', þar sem balletdansarinn J.C. van Damme var í burðarhlutverki.
David er ekki ókunnur efninu. Hann hefur áður skrifað um blóðsugur í tímamótaverki sínu 'Blaður' frá árinu 1998, en sýningin sem hér um ræðir er einmitt sjálfstætt framhald þess.

Leikstjórn er í öruggum höndum mexíkóska förðunarfræðingsins Guillermo del Toro, en þessi 38 ára snillingur á m.a. að baki yndislega, en lítt þekkta uppfærslu á fornleifatryllinum 'La Invención de Cronos'.

Burðarás myndarinnar er hinn tragíkómíski Blaður, óaðfinnanlega túlkaður af látbragðsleikaranum Wesley Snipes. Blaður er hálfur blökkumaður, hálf vampýra (sennilega svört). Hann er þeirri náttúru gæddur umfram aðra blóðslafrara að hann unir sér ágætlega í dagsbirtu. Kappinn miklast svo af þessum eiginleika að hann helgar sig baráttunni gegn öðrum vampýrum og hefur náð töluverðri leikni í að uppræta þær.

Nú ber svo við að í áhyggjulausan heim blóðsugna kemur óvættur; erfðabætt vampýruskrípildi sem veit ekkert ljúffengara en hálsa óbreyttra ættmenna sinna. Kvikindið er afar illyrmislegt og gætt ýmsum nýjum 'fídusum' sem ég mun ekki lýsa hér. Það er svo skemmst frá því að segja að Blaður er ráðinn til starfa af óvinum sínum, vampýrunum, til að klófesta ógnvaldinn - sem er líka bráðsmitandi, því bit hans breytir blíðustu blóðsugu í slepjulegan uppvakning á fáeinum klukkustundum.

Margt er vel gert hér og ýmislegt kemur fram sem maður ekki vissi áður. Ég hef alltaf greypta í huga mér mynd hins illviðráðanlegra Drakúls sem ekki kallaði allt ömmu sína og því kom það á óvart hversu auðvelt það er í raun að drepa 'óbreytta' vampýru. Ekki þarf annað en að bauna söxuðu hvítlauksrifi úr túttubyssu á þessi grey til að þau hreinlega verði að mjalti.
Mikill fengur var í hinni nýju vampýrutegund, sem sýndi okkur klárlega hve hinar hversdagslegu vessalepjur eru í raun miklar rolur. Ofursugurnar voru þó fráleitt fullkomnar, því flestar þurftu þær að ferðast um á fjórum fótum - þær voru líka tiltakanlega ófríðari en forverar þeirra og þoldu dagsljós jafnvel verr - en það var nú kannski vegna þess að þær voru ekki með sólgleraugu, sem virðist mikil tíska meðal blóðsugna í dag, ásamt aðskornum leðurfatnaði og líkamsmálningu.

Leikur var með ágætum í verkinu, sérstaklega stóðu dansarar sig vel og sýndu á tíðum ótrúlega fimi. Snipes smellpassaði eins og áður sagði í hlutverk Blaðurs, innri barátta hans og tómatsósufíkn skilaði sér fullkomnlega. Gaman var að sjá kvennaljómann Kris Kristofferson í litlu, en mikilvægu hlutverki 'afvatnaðrar' blóðsugu og hefur sá gamli vart verið betri síðan í 'Færið mér höfuð Alfredo Garcia' frá 1974. Aðrir skiluðu sínu vel - vert er að minnast á sannfærandi frammistöðu Luke Goss, sem fór með hlutverk meginskúrksins. Það verður gaman að fylgjast honum á svipuðum nótum í rómantísku gamanmyndinni 'Ástarlífi'.

Sýningin var í heild ákaflega ánægjuleg og klappaði ég mikið eftir að henni lauk. Get ég vart beðið eftir þriðja hlutanum.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182