Lesbók15.01.04 — Spesi

Jújú, hún fór víst fram eina ferðina enn í gær, keppnin um hver er bestur í tónlist. Þetta er allt hið vandræðalegasta mál, talað er um uppskeruhátíð, viðurkenningu til þeirra sem eru fremstir meðal jafningja, það sé ekki hægt að keppa í tónlist og þar fram eftir götunum. Það skal samt enginn reyna að segja mér að þetta sama fólk taki því með jafnaðargeði að vera tilnefnt og vinna svo ekki.

Hátíðin hófst á Hljómum, eða því sem kynnirinn kallaði "hljómsveit allra tíma". Þarna datt mér nokkur vel valin orð til að bæta fyrir framan, t.d. "ofmetnasta". Er ég sá eini sem finnst sífellt vandræðalegra að horfa uppá Engilbert Jensen rembast við að herma eftir hljómsveitargæja? Jújú, hann þótti víst flottur á sínum tíma, en þetta virkar alltaf á mig sem einhvers konar sjúklegur brandari hjá Gunnari Þórðarsyni. Ég er ekki frá því að greina megi á honum glott þegar Berti byrjar að þenja sig.

Og hvaða tilgangi þjónar þessi Erlingur þarna? Gátu þeir ekki bara búið til vaxmynd af honum? Það hefði allavega getað dregið úr launakostnaði. Á sama tíma stendur Guðmundur Rúnar Júlíusson alltaf uppúr sem einn glæsilegasti rokkari Íslendinga frá upphafi. Hann er sannarlega vel að titlinum Herra Rokk kominn.

Sjálf verðlaunaafhendingin var síðan tilþrifalítil, fátt kom verulega á óvart, en ýmiss gamall og nýr sannleikur kom þó í ljós:
- Gísli Marteinn og Eva María eru heillandi fólk, en ættu ekki að flytja sitt eigið gamanefni.
- Klassískir tónlistarmenn ættu ekki að flytja gamanefni yfirleitt.
- Vernharður Linnet veit ekki hvað gamanefni er. ("Þetta eru verðlaun fyrir Djass, ekki jass.")
- Tómas R. Einarsson er meistari.
- Stefán Hilmarsson er vanþakklátur hrokagikkur.
- Ragnhildur Gísladóttir mun aldrei hljóta verðlaun sem besta söngkonan, hversu mikið sem hún á það skilið.
- Krummi gæti hæglega orðið föðurbetrungur.
- Það er eitthvað á milli Björgúlfs og Valgerðar.

Þá hefi ég ákveðið að gefa út hljómplötu á þessu ári. Á henni verða öll þekktustu lögin sem Haukur Morthens flutti í útsetningum sem verða nákvæmar eftirlíkingar af hinum upprunalegu. Þó ég sé ekki mikill söngvari, né sérlega smekklegur, get ég þannig bókað að fá verðlaun fyrir bestu plötuna í flokknum Ýmis tónlist.

 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Númi Fannsker — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
        1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10