Lesbók13.03.02 — Enter

Heilir og sælir lesendur góðir.

Í gær sá ég uppfærslu bandaríska þjóðleikhússins á verkinu Svartfugl hnígur (Black Hawk Down). Er hér á ferðinni lítill óður til hernaðar og hermennsku.
Höfundur leikritsins er Ken Nolan, sem aldrei hefur skrifað neitt áður, en lék eftirminnilega hinn úrræðagóða Skeeter í uppfærslu á 'Hnerrirðu, taparðu!'. Ken beitir hér nýstárlegri tækni við skrif sín, en hann notar ekki svokallaðan söguþráð eða fléttu. Oft er gaman að fylgjast með leikurum vinna úr þessum augljósa skorti, en þegar líða fer á þriðja tíma sýningarinnar fer maður eilítið að sakna áþreifanlegs handrits.

Leikstjóri sýningarinnar er Ridley Scott, sem kunnur er úr bandarísku leikhúsi, m.a. fyrir rómaða uppsetningu á 'Utangarðsverunni' (Alien). Ridley hefur áður fengist við svipað efni, en hann leikstýrði einmitt herkænskudramanu 'G.I. Jane' árið 1997. Hann vinnur mikið með rými og hljóð í þessari sýningu og á ágætan dag. Hann fer þá skemmtilegu leið að nýta leikarana sem hluta úr leikmyndinni, en ekki sem eiginlegar persónur. Þetta er ákaflega skemmtilegt fyrstu 80-90 mínúturnar en verður dulítið þreytandi þegar á líður.

Persónur leiksins eru fjölmargar. Þó eru aðeins tveir eiginlegir leikarar í sýningunni. Annar er ungur, snoðklipptur hermaður og leikur hann um 50 hlutverk. Hinn er roskinn, reyndur hermaður og fer hann með u.þ.b. 10 hlutverk. Einnig eru á sviðinu megnið af tímanum félagar úr þjóðdansaflokki Sómala - og skila þeir sínu vel.
Leikmynd og búningar voru vel leyst. Á sviðinu var brotajárnshaugur og umhverfis hann voru kalkveggir. Góðu mennirnir voru hvítir en þeir vondu svartir.

Eins og áður segir er ekki um eiginlegan söguþráð að ræða í sýningunni. Þó er meginþemað dvöl amerísks her í Sómalíu árið 1992. Þeir ráðast inn í borg og þar er skotið á þá í nokkra klukkutíma og þeir verja sig á meðan. Síðan komast þeir til baka - flestir. Í raun mjög einföld og hugljúf saga. Það er gaman að fá þann grun sinn staðfestan að Sómalar séu grimmir villimenn (allir nema einn, sem er smekkmaður á kúbuvindla) sem hafa unun af að hlaupa fyrir byssukjaft og láta skjóta sig svolítið. Það er líka gott að vita til að loks er mýtan um hina hjálpsömu friðargæsluliða S.Þ. á útleið, en í sýningunni kom réttilega fram að þeir eru afar ósamvinnuþýðir - og dálítið ófríðir.

Allt í allt skemmti ég mér ágætlega á þessari sýningu. Hún var þó heldur löng. Vel hefði mátt gera efninu skil á korteri.

Farið í friði.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182