Lesbók20.08.03 — Enter

Það jafnast ekkert á við heitt bað - í samanburðinum verður steypibaðið, gufan, sundspretturinn og jafnvel sjóbaðið að tilgangslausri vökvun - marklausu sulli og stundargamni.

Margir demba sér hugsunarlaust í bað eftir erfiðan vinnudag til að skola af sér skít og daun. Það eru mikil mistök - tilgangurinn er ekki að flekka baðvatnið og mara þar í eigin vessum, það er háttur skrælingja og svína.

Rétt er að þvo sér kyrfilega með votum klút, sápu og skrúbb áður en stigið er ofan í karið. Þannig verður upplifunin tærust og hugsvölunin ríkust.

Hitastig baðsins er undirstaða þess að hámarksárangur náist, kjörhiti hvers og eins er misjafn og því þarf að gefa sér góðan tíma í blöndunina og helst hafa tiltækan hitamæli.

Þess ber að gæta að vatnið verði ekki of heitt, því þá er hætt við að á menn sígi höfgi og þeir sofni. Fátt, ef nokkuð, er illþolanlegra en að ranka við sér í hrollköldu vatni, gæshúðaður og kveffylltur.

Ýmis efni og olíur eru til sem auka á áhrif slökunarinnar, þetta ber þó að nota í hófi - því eftir sem áður er það vatnið sjálft og hitastig þess sem eru lykillinn að vellíðaninni. Gott freyðibað með jurtailm er þó sjaldnast til vansa.

Sumir kjósa að hafa með sér ýmsa aðskotahluti þegar þeir baðast. Gúmendur, plastbátar og litlir boltar geta vissulega stytt mönnum stundir - en eiga þó fremur heima í hálfkæringi sundferða en í alvarlegri baðför. Þar eru það íhugun og hreysting hugans sem skipta öllu.

Loks er gott að væta þvottapoka og leggja fyrir vit sér þegar unaðurinn stendur sem hæst. Þá hverfur allt heimsins áreiti og þú verður eitt með alheimssálinni.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182