Lesbók09.01.02 — Númi Fannsker

Góðu vinir.

Nokkur umræða hefir orðið vegna skrifa Egils Helgasonar, blaðamanns og samfélagsrýnis á vefinn strik.is, um Skáldið Halldór Kiljan Laxness, verk þess og lífssýn. Ekki virðist Egill skilja Skáldið, mannvininn og höfðingjann Kiljan, og er mér hreinlega til efs að hann sé sæmilega læs. Svo mjög var mér brugðið við reiðilestur Egils að ég slökkti í ofboði á tölvu minni og ræsti hana ekki að nýju fyrr en nokkrum klukkustundum síðar, þegar ég hafði jafnað mig. Í pistlum sínum fjargviðrast Egill t.d. yfir útlitshönnun bóka Kiljans og virðist telja að hún sé kjarninn í verkum hans! Einnig bullar hann tóma þvælu um meint "Stalínsverðlaun" Kiljans, sem allir skynsamir og upplýstir menn vita að er uppspuni frá rótum, ættaður frá andstæðingum Skáldsins í röðum Frímúrara. Meintur kommúnismi hans er Agli hugleikinn en hvar stendur það svart á hvítu í skáldverkum Kiljans að þau séu rituð slíkri stefnu til dýrðar? Þvert á móti var Kiljan umhugað um frelsi einstaklingsins, jafnt í listum sem menningu af öllu tagi. Ég fullyrði að án Kiljans væru engar bókmenntir skrifaðar á Íslandi aðrar en þurrar skýrslur um ástand nytjastofna sjávar, símaskrár, veðurspár og fleira í þeim dúr. Ef ekki hefði komið til Skáldið og hrifið þann sem þetta ritar með stórbrotnum stíl sínum, einstakri næmni og fádæma mannrýni, væri enginn Baggalútur til, engin ljóð, enginn prósi, ekkert líf! Nú hefir Egill þessi afneitað frelsara sínum tvisvar á vettvangi Netsins og er þess væntanlega ekki lengi að bíða að hann geri svo þriðja sinni eins og Pétur forðum (Lúkasarguðspjall 22:54-61).

Góðar stundir.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182