Lesbók09.05.03 — Númi Fannsker

Ég hefi ávallt lagt það í vana minn að kjósa snemma. Á kjördagsmorgun leggst ég í sjóðheitt bað og skrúbba mig hátt og lágt upp úr dóminíkanskri kókóssápu. Klæði mig í teinótt, þrískipt ullarföt, hnýti á mig þverslaufu og set upp hatt.

Það er mér mikið kappsmál að atkvæði mitt liggi sem neðst í kjörkassanum svo ég mæti um fimmtán mínútum áður en kjörstaðir opna. Það er mér einnig kappsmál að atkvæði mitt rati til þess flokks sem ég tel líklegan til að halda hugsjónum mínum og samfélagslegri köllun á lofti næstu fjögur árin - eins og staðan er nú (sem endranær) er það sá flokkur sem heldur sig lengst til vinstri í málflutningi sínum.

Líkurnar á vinstri stjórn á Íslandi eru litlar miðað við skoðanakannanir. Það er nefnilega bara einn vinstriflokkur á Íslandi og hann þyrfti að fá hreinan meirihluta í komandi kosningum. Hinir eru handbendi markaðsnauðgara og græðgi.

Líkurnar á hreinum meirihluta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eru sem fyrr segir ekki miklar - en þó er von! Ef bara lesendur Baggalúts kjósa VG, þýðir það mörg þúsund atkvæði. Ef þeir sannfæra sína nánustu um slíkt hið sama margfaldast sú tala! Þetta er hægt! Við getum snúið af braut græðgi og níðingsskapar gegn minnimáttar! Við getum tekið okkur stöðu með náttúrunni, sem hluti af henni en ekki sníkjudýr sem sýgur hvern einasta dropa af lífi úr því holdi sem fæddi okkur! Við getum bolað þeim gírugu bófum sem hér sitja við stjórnvölinn burt! BURT segi ég! Þetta er ekkert erfitt - allt og sumt sem við þurfum að gera er að merkja við bókstafinn "U" á morgun!

Félagar! Breytinga er þörf. Þær nást ekki með því að hleypa hér að Samfylkingu, Frjálslyndum flokki eða stjórnarflokkunum sem nú ríkja. Þær nást einungis með hreinum meirihluta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

X-U!

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182