Lesbók10.03.03 — Enter

Ég brá mér á óperuna Makbeð eftir ítalska sykursnúðinn Jósef Verdi, sem byggir á leikverki Williams Shakespeare. Ég ætla svo sem ekki að úttala mig um gildi þess að færa þetta subbulega óheillastykki í tóna, en það sýnir okkur þó að fyrir 150 árum voru menn í allt eins mikilli örvæntingu og nú að reyna að gera verk þessa keltneska orðasóða aðgengileg og skiljanleg venjulegu fólki.

En jæja, ég kyngdi áunninni óbeit minni á uppruna verksins - með prýðilegum árangri. Mér leiddist í öllu falli ekki meðan ég beið eftir að allir væru dauðir.

Mikill hamagangur og sprikl einkenndi sýninguna - barmfylltar nornir og hlaunamiklir stríðsmenn fylltu hvern krók og kima óperunnar og bauluðu, gauluðu og æmtu af hjartans lyst. Allur þessi atgangur var skemmtilega útfærður og jafnvel þó flytjendur þyrftu oft að athafna sig utan sviðsins var ekkert um að verið væri að atast í sýningargestum - en það er nokkuð sem sem ég hata öðru fremur. Það er líka sérlega ánægjulegt sjá fólk, sem alla jafna hefur útgeislun og stimamýkt kartöflupoka, fá tækifæri á sviði - nokkuð sem maður upplifir nær einvörðungu á óperusýningum - og á þingi.

Frábærlega var skipað í burðarhlutverk. Lafði Makbeð var einkar illúðlegur kvendjöfull í túlkun Elínar Óskarsdóttur - hún hefur mikla og ágenga rödd sem nagar sig niður í alla lausa taugaenda og skilur við áhorfendur svitastorkna og nötrandi eftir svaðalegustu aríurnar. Ólafur Kjartan Sigurðarson var þróttmikill og sannfærandi Makbeð, með mikilfenglega rödd og ekki spilltu andlitsdrættir skelkaðs marhnúts fyrir tjáningunni. Hann verður hins vegar seint talinn með tignarlegri listamönnum, minnti limaburður hans og atgervi um margt á Mörgæsina sem Danny DeVito túlkaði eftirminnilega í mynd um leðurblökumanninn - en e.t.v. má þar kenna um sérstöku skopskyni búningameistara óperunnar. Aðrir flytjendur stóðu sig vel og það er ljúft að sjá að þó uppblásnir tenórar svífi yfir höfin og hverfi okkur sjónum kemur alltaf maður í manns stað.

Að lokum vil ég koma hugmynd á framfæri við forsvarsmenn Íslensku Óperunnar, sem mikið hafa kveinað yfir aðstöðuleysi og fábrotnu húsrými. Þegar hefur verið komið fyrir maskínu sem birtir texta óperunnar jafnóðum. Væri ekki ráð að fækka duglega í óperukórnum og leyfa áhorfendum að spreyta sig á söngnum? Ekki þyrfti nema 2-3 hressa forsöngvara og litla kúlu sem skoppaði ofan á textabrotunum. Þetta myndi lífga umtalsvert upp á samkomuna og auðga upplifun áhorfenda. Eins vil ég benda á pínlegt tilgangsleysi þess að hafa niðurgrafna hljómsveit undir sviðinu - þetta fólk hefur efalítið margt betra við tímann að gera en að vera í feluleik í sparifötunum - auk þess sem ég fékk ekki betur heyrt en hluti undirleiksins væri þegar leikinn af segulbandi.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182