Lesbók11.02.03 — Enter

Ég opnaði ískápinn. Svipaðist um og fann loks það sem ég var að leita að, banana. Hann var stór, ekki of boginn og engin skemmd var sjáanleg á yfirborðinu. Ég bar hann varfærnislega að eldhúsborðinu þar sem ég skorðaði hann milli salt- og piparstaukanna.

Því næst lagði ég bakpokann á borðið, opnaði hann og dró fram borvélina. Ég fann hvernig ég titraði allur af spenningi. Stakk vélinni í samband og tók í gikkinn. Borinn hrökk í gang og rauf kyrrðina. Mér varð litið út um gluggann. Fyrstu sólargeislarnir voru að paufast upp yfir sjóndeildarhringinn. Ég varð að hafa hraðann á, því eftir nokkrar klukkustundir yrði óbærilega heitt og þá þyrfti ég helst að hafa lokið ætlunarverki mínu.

Ég lagði borinn að enda bananans og setti í gang. Hann smjó auðveldlega gegnum dökkbrúnan skrápin. Ég dró hann síðan varlega að mér aftur og þurrkaði volgan borinn með erminni. Ég var orðinn þvalur í lófunum.

Nú mátti ég engan tíma missa. Ég klifraði upp á borðið, lagðist flatur framan við það og gægðist inn. Gatið var ekki nema örfáir millimetrar í þvermál, en mjög djúpt og ef ég lýsti inn eftir því sá ég með naumindum glitta í gult aldinkjötið. Ég hallaði mér fram og stakk hausnum inn. Lyktin var sterkari en ég átti von á svo ég tók andköf og byrjaði að hósta. Ég kippti höfðinu út og rak um leið hnakkann í brúnina. Ég gekk nokkur skref afturábak og áminnti sjálfan mig um að fara nú varlega. Það getur verið stórhættulegt að gleyma sér innan í ávexti, séstaklega banana.

Ég gerði aðra tilraun og hélt nú fyrir nefið meðan ég klöngraðist inn um gatið. Ég skreið eftir stökku yfirborðinu þar til ég kom að gulum, hrjúfum vegg. Til að komast lengra varð ég nú að grafa mig inn í aldinkjötið og halda ferðinni áfram - gegnum ávöxtinn sjálfan. Verkið sóttist vel og eftir örfáar mínútur var ég allur kominn inn. Lyktin var viðbjóðsleg og ég varð fljótlega klístraður. Ég gat ekki þurrkað framan úr mér án þess að verða enn subbulegri svo ég harkaði af mér og mjakaðist rólega áfram gegnum gult maukið.

Eftir að hafa hjakkað þetta góða stund án þess að vita fyrir víst hvernig mér miðaði rak ég skyndilega skófluna á kaf í einhverskonar svartan, fljótandi massa. Þetta var greinilega skemmd í banananum og áður en ég vissi streymdi vökvinn inn í göngin sem ég lá í. Ég rann af stað inn í svart gumsið og fann hvernig það umlukti mig algerlega. Ég náði varla andanum, vit mín fylltust af slími og mig sveið í augun. Ég barðist um á alla kanta og reyndi árangurslaust að ná hand- eða fótfestu, en allt umhverfis var svart slímið sem kaffærði mig.

Mér lá við köfnun þegar ég loks náði að krafla mig aftur að gulu kjötinu. Þreifaði fyrir mér eins og óður maður þar til ég fann loks handfestu og náði að klóra mig áfram uns ég komst í öruggt skjól. Ég kastaði mæðinni og skóf mestu slepjuna framan úr mér.

Eftir smástund hafði ég jafnað mig og reyndi að átta mig á stöðu mála. Ég var algerlega búinn að tapa áttum. Ég var villtur. Til að bæta gráu ofan á svart tók ég eftir því að bananinn var farin að mýkjast allur. Hitinn frá hádegissólinni var orðinn of mikill í eldhúsinu. Ég mátti engan tíma missa, ég mokaði mér leið áfram í þá átt sem mér þótti líklegust og hugsaði um það eitt að komast út. Ég var orðinn lafmóður og sveittur og fór að tína af mér spjarirnar til að kafna ekki úr hita. Ég hálfvegis renndi mér áfram, þakinn svargulu mauki. Það varð auðveldara og auðveldara því bananinn varð sífellt mýkri í sólskininu. Það var í raun ekki nema tímaspursmál hvenær hann félli saman og ég drukknaði þarna inni.

Þá skyndilega var sem allt léki á reiðiskjálfi. Ég kastaðist til og rann stjórnlaust afturábak. Það hafði einhver tekið bananann upp. Ég reyndi að öskra á hjálp en munnurinn fylltist um leið af volgu slími svo ég kúgaðist og kom ekki upp hljóði. Ég sá hvernig birti í kringum mig. Einhver hafði flett hýðinu af ávextinum! Ég reyndi að krafla mig í átt að ljósinu en varð lítið ágengt því yfirborðið var á stöðugri hreyfingu. Þá allt í einu datt allt í dúnalogn og eitt augnablik varð allt dimmt aftur. Síðan upphófst hristingurinn aftur. Það var augljóslega verið að éta bananann. Það var verið að éta mig.

Það var nær liðið yfir mig af veltingi og hita. Ég eyddi síðustu kröftunum í að reyna að sparka mér leið út. Ég tók á öllu sem ég átti; baðaði út höndum og fótum í von um að brjótast úr þessu gula víti. Skyndilega lét eitthvað undan og ljós streymdi gegnum veggina allt umhverfis.

Það síðasta sem ég man var að einhver öskraði af öllum lífs og sálar kröftum: "ÞAÐ ER PADDA Í BANANANUM MÍNUM!!!!"

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182