Lesbók31.03.16 — Enter

Ég lagði það á mig á dögunum að heimsækja eitt af kvikmyndaskýlum höfuðborgarinnar til að sjá nýlega sannsögulega heimildakvikmynd um Ofurmennið og Leðurblökumanninn.

Hafa þeim herramönnum margsinnis verið gerð skil á drapplita hlemminum, en þetta mun þó vera í fyrsta sinn sem þeir skemmta þar saman.

Leðurblökumaðurinn er í myndinni túlkaður af mistæklingnum Benjamín G. Affleck, sem margir hugsa til með klígju eftir hina framlágu Gigli. Ofurmennið er hins vegar leikið af snoppufríðu ungstirni — Hinriki Cavill — sem fæstir muna eftir sem veiðimanninum úr mis- og jafnvel ótækri söngvamynd um Rauðhettu frá árinu 2006.

Myndin hverfist að mestu um sálarstríð þessarra tveggja heiðurspilta, öfund og afbrýði. Þetta eru góðir strákar, vinsælir og vel gefnir — en lífið hefur leikið þá grátt. Þeir eru orðnir langþreyttir á að bjarga heiminum — því laun hans eru sem fyrr lækleysi, tuð og óútreiknanlegt almenningsálit.

Ekki er erfitt að greina fyrirmyndir þessa hrútleiðinlega hildarleiks.

Hinn hökumýkti Affleck nær algerlega töktum og atgervi fjármálaráðherra — og skín þreyta fórnfúsa auðkýfingsins á endalausum vindmyllubardögum fyrir vonlítinn málstað vel í gegn.

Ögn erfiðara er að greina baugum hlaðna ásjónu forsætisráðherra undir glimmerhúðuðum gúmbúningi og óaðfinnanlegu hári Kal–Els. Allt kemur þó heim og saman, ef betur er að gáð. Ósnertanlegi leiðtoginn. Einmana einfarinn. Grunlausa jámannahirðin. Týndu árin. Yfirvomandi faðirinn. Jú og ódrepandi áhugi á skipulagsmálum.

Uppsafnað stórmennskubrjálæðið leynir sér svo ekki í fjarrænu augnaráðinu.

Inn í þetta fléttast óknyttaómennið Lex Luthor, holdgervingur hins óslökkvandi og órökrétta hefndarþorsta almúgans. Sá fyrirlítur allt sem ofurmennið stendur fyrir, enda hugsjónalaust smámenni — sem minnir óþægilega á hrópendurna í netauðninni. Þurfa lánlausu lukkuriddararnir að endingu að snúa kápuklæddum bökum saman til að ráða niðurlögum þessa ofleikna, heiftúðuga og orðljóta aðskotadýrs.

Í þessari samanhnoðuðu hljómhviðu ljótleika og drunga var þó einn fagur tónn sleginn. Það kemur nefnilega í ljós að undir hrjúfu yfirborði aðkeyptrar, innfluttrar og afskræmdrar karlmennsku leynast lítil, krumpuð hjörtu. Því eftir allt eru þetta bara litlir strákar, sem elska mömmu sína. Þó það nú væri.

Það þótti mér sætt. Annað ekki.

Því þó allt hafi farið vel að lokum — og þeir fóstbræður staðið af sér skítviðrið eins og venjulega — þá er allt of mörgum lykilspurningum enn ósvarað.

Hvernig er fjármálum Blaka háttað? Hvar geymir hann auðævi sín? Greiðir hann bifreiðahlunnindi? Er þessi Alfreð au pair hjá honum?

Og hvað með innflytjandann dula frá Krypton?

Hvaða menntun hefur hann? Er hann með blaðamannaréttindi? Eða yfirleitt flugréttindi? Er hann með lögheimili sitt í yfirgefna íshellinum? Er Louis Lane skráð fyrir veraldlegum eigum hans? Og er hann virkur á Snapchat?

Við þessu fást engin svör.

En hvað um það. Í samantekt er þessi mynd ljómandi vel heppnuð. Hún er bæði langdregin og leiðinleg — eins og við var að búast og lagt var upp með. Þetta eru leiðindamenn, í leiðindaaðstæðum. Bugaðir af lífsleiða, mótlæti og áunninni depurð.

Og eitt tekst leikstjóranum fullkomnlega. Að skila átakanlega ömurlegum, stirðbusalegum og grátlega fyrirsjáanlegum heimi íslenskra stjórnmála til áhorfenda, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Ég bíð því hóflega spenntur eftir næstu myndum úr þessum myndaflokki þar sem hinar ólíklegustu hetjur fjórflokksins fá að spreyta sig á mismerkilegum ævintýrum.

Hann hefur alla burði til að verða allt í senn, óþarflega langlífur, gersamlega óskiljanlegur og unaðslega óþolandi.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182