Lesbók08.12.11 — Enter

Fyrst enginn annar ætlar sér að skrifa ritdóm um annað vísdómsrit Baggalúts, Týndu jólasveinana, þá er líklega best að ég geri það bara sjálfur.

Ég vil byrja á því að fagna útgáfu þessara rita, en þau marka tímamót í útgáfusögu Baggalúts. Vonandi munum við fá að sjá mun fleiri slík rit á komandi árum.

Týndu jólasveinarnir eru um margt frábrugðnir fyrsta vísdómsritinu, Riddararöddum, sem innihélt orð og setningar sem lesa má afturábak og áfram – svokallaðar samhverfur, ríkulega myndskreyttar. Skemmtilega sérviskuleg og sérlega hugvitsamleg bók.

Jólasveinarnir eru mun nær því að vera hefðbundið skáldverk, en þar má finna skemmtilegar og oft ansi svæsnar lýsingar á 24 sveinum, sem ekki hafa verið áberandi áður.

Sveinar þessir eru á tíðum æði drykkfelldir og ódælir – og er hætt við að mörgum þyki nóg um aðfarir þeirra á stundum. Þá eru sumir þeirra á mörkum þess að geta talist við hæfi barna auk þess sem pólitísk rétthugsun fær að fjúka alloft út um glugga.

Það sem mér þykir dýpka töluvert efni bókarinnar, er að notast er við raunveruleg nöfn jólasveina úr ýmsum heimildum, jólasveinavísum og þulum, kappa á borð við Lummusníki, Þorlák, Bjálmann sjálfan, Dúðadurt – og sjálfan Baggalút. Er enda löngu kominn tími til að ýta 13 sveina úrtakinu til hliðar og leyfa öðrum að komast að.

Bókin er býsna lipurlega skrifuð, lýsingarnar á sveinunum eru stuttar og á tíðum nokkuð keimlíkar, en halda manni þó við efnið. Þá er rétt að þakka það að lesendum er ekki íþyngt með óþarfa tilvísunum og neðanmálsgreinum, eins og oft vill verða með fræðirit af sama eða svipuðu sauðahúsi.

Myndirnar sem prýða bókina eru stórskemmtilegar og er myndskreytirinn Bobby Breiðholt augljóslega hæfileikaríkur mjög – og með næmt auga fyrir hinu skoplega og kringilega.

Sveinunum fylgja vísur, sem minna um margt á jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum. Þær eru á tíðum einkar hlægilegar og ágætlega ortar, þó vissulega séu lýsingarnar á köflum full blautlegar.

Í samantekt er hér um að ræða bráðskemmtilega bók, sem gaman er að glugga í á aðventunni. Hún lætur ekki mikið yfir sér, en kemur þægilega á óvart – og gæti hentað vel sem möndlugjöf eða til að grípa með sér í jólamessu.

Ef ég mætti finna að einhverju þá þótti mér letur full lítið.

 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Spesi — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Spesi — Gagnrýni
 
     1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10