Lesbók22.01.08 — Enter

Jæja.

Nýr meirihluti. Aftur. Nýr borgarstjóri. Aftur. Nýr forseti borgarstjórnar. Aftur. Nýir nefndarformenn. Aftur. Nýjar áherslur. Aftur. Ný markmið. Aftur.

Einmitt það sem við þurftum. Aftur.

Nú er mér þvísemnæst rennislétt sama hvaða apategund er hverju sinni við völd í þessu ómálaða flotholti sem við til málamynda nefnum ráðhús Reykjavíkur. Eina krafan sem ég geri til þeirra sem þar sitja og gúffa í sig bakkelsi í boði borgarbúa er að þeir mæti nokkuð reglulega í vinnuna og sinni henni samviskusamlega. Svipuð krafa og ég geri til allra opinberra starfsmanna, sama hvort heldur þeir eru ráðnir til starfa vegna eigin verðleika eða heppni í kosningum.

Hver á að trúa því að það baknagandi, valdagíruga hyski allt sem þarna tróð sér inn fyrir dyr í síðustu kosningum vinni þar ærlegt handtak? Það þarf að jú skipa í nefndir, það þarf að koma sér fyrir á skrifstofum, það þarf að koma sér út af skrifstofum, það þarf að kaupa sér jakkaföt og dragtir - og svo þarf það auðvitað að plotta. Og það getur nú aldeilis tekið tímann sinn, ef árangur á að nást.

Nú er nóg komið af þessum skrípalátum, bakherbergjahangsi og fyrirlitlega framapoti. Skammist til að gera eitthvað af viti og reynið að vinna fyrir í það minnsta broti af laununum ykkar það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Því andstætt því sem þið kynnuð að halda, þá snýst hugtakið borgarstjórn alls ekki um ykkar breiðu og brauðfylltu bakhluta og enn síður ykkar hégómlegu, brothættu sjálfsmynd.

Svei ykkur bara. Aftur.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182