BAGGALÚTUR
FRÉTT — 2/12/18 — Enter
Jólasveinarnir fá jafnlaunavottun
Kertasníkir ásamt Fjölmiðlafælni, sem er í starfsnámi hjá fyrirtækinu.

Fyrirtæki íslensku jólasveinanna fékk í dag jafnlaunavottun, en félagið hefur á undanförnum árum tekið með skipulögðum hætti á kynbundnum launamun innan fyrirtækisins og komið á metnaðarfullri jafnréttisstefnu.

„Við erum mjög ánægðir, eða alltsvo ánægð með þetta. Það eru að vísu mestmegnis karlmenn, sem starfa hjá okkur, eða eingöngu eiginlega, sem stendur. En það breytir því ekki að þetta er mikill heiður fyrir okkur… öll,“ segir Kertasníkir Leppalúðason, framkvæmdastjóri mannauðs– og jafréttissviðs Jólasveinanna.

Hann segist jafnframt vonast til að fleiri konur (og raunar fólk af öllum mögulegum kynjum) bætist í þessa rótgrónu — og um margt íhaldssömu stétt — á næstu áratugum eða öldum. Hann tekur þó fram að öllu slík aðlögun taki tíma og þurfi auðvitað að ígrunda vel. Hann áætlar að í dag séu um 300 sveinar í starfsnámi hjá félaginu, „allt jú, mögulega karlmenn“.