Loksins er Jólalag Baggalúts 2004 tilbúið til flutnings. Lagið nefnist Þorláksmessa og mun að líkum lifa með íslensku þjóðinni næstu daga, jafnvel heila viku.

Lagið er sænskt, því miður, en kvæðið samdi Enter á Barbados árið 1989.

Lagið syngur Íslandsvinurinn Tony Ztarblaster, með aðstoð Kallakórs Reykjavíkur.

Hljóðfæraleik önnuðust Jón Geir Jóhannsson, trommur, Þráinn Árni Baldvinsson, gítar, Guðmundur Freyr Vigfússon, bassa og Karl Olgeir Olgeirsson á hljóðgervla.

Einnig fer jólasveinninn Bandaleysir með lítið hlutverk um miðbik lagsins - og dr. Hörður P. Einarz lagði til angistaróp í forleik lagsins.

Upptökum og hljóðblöndun stýrði Guðmundur Kristinn Jónsson, með aðstoð Inga Þórs - í hljóðveri Rúnars Júlíussonar, Geimsteini. Keflavík.

Kynnið ykkur einnig fyrri jólalög Baggalúts:

Aðventa 2004 - sækja | 2003 - sækja | 2002 - sækja | 2001 - sækja

ÞORLÁKSMESSA
Europe/Sandeman

Ég trúi þessekki,
Já nú er það svart.
Er verið að loka? - er klukkan það margt?
Ég á eftir að kaupa allt - pakka og tré
mér finnst þetta ferlega ósanngjarnt.

Það er Þorláksmessa.

Ég nenntekkað bíða biðröðum í.
Ég datt frekar í það í skötupartíi.
Í kyrrstæðum rúllustiga ég stend hérna einn
og Kringlan er gal-fokking-tóm

Það er Þorláksmessa.