Frétt — Enter — 10. 4. 2009
Helgileikur Sjálfstæðisflokks slær í gegn
Hér sést Andri á krossinum. Hannes Hólmsteinn í hlutverki Maríu meyjar hlúir að sárum hans. Í baksýn má sjá nafna hans, Hannes Smárason, í hlutverki hins þjófótta en stálheppna Barrabasar.

Dabbi, leikklúbbur Sjálfstæðisflokksins, hefur svo sannarlega slegið í gegn með sérlegri páskauppfærslu sinni, þar sem píslarsögu Krists eru gerð eftirminnileg skil.

Guðlaugur Þór Þórðarson þykir fara á algerum kostum í hlutverki erkiskúrksins Júdasar, þar sem „slægðin og mannvonskan lekur úr hverjum andlitsdrætti“, eins og einn himinlifandi leikhúsgestur orðaði það.

Ekki þykir Kjartan Gunnarsson síðri í hlutverki Símons Péturs, en gagnrýnandi hafði á orði að afneitanir hans hefðu verið afar sannfærandi – og auk þess mun fleiri en menn eiga að venjast.

Þá hefur endir leikritsins vakið verðskuldaða athygli – því Jesú, í eftirminnilegri túlkun Bjarna Benediktssonar, sleppur undan Rómverjunum með því að fela sig í fjárhirslum Heródesar, sem Davíð Oddsson leikur af innlifun í frábæru kommbakki.

Jesú er því næst bjargað af heitkonu sinni Maríu Magðalenu, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerir sæmileg skil – þó henni hafi af einhverjum ástæðum virst mjög í nöp við frelsarann geðþekka. Við skiljum við þau skötuhjú þar sem þau hafa reist sér fallegt einbýlishús í Garðabæ.

Andri Óttarsson, í hlutverki lærisveinsins Andrésar, er hins vegar krossfestur mjög kyrfilega í stað meistara síns. Ólíkt Jesú rís hann þó ekki aftur upp frá dauðum. Því miður.

Tók einhver

upp sniglamyndina skemmtilegu á RÚV í gær? Er tilbúinn að greiða vel fyrir upptökuna. A.v.á.

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: