— GESTAPÓ —
Sígildar kvikmyndir - ekkert eftir 1960
» Gestapó   » Dægurmál, lágmenning og listir
GESTUR
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
SlátraBjargur 8/12/04 15:38

Mér þykja hinar sígildari kvikmyndir sem hafa fengið tíma til að dafna og lifa í minningu manna ekki fá þá athygli og ástúð oft á tíðum sem þær eiga skilið. Vil ég leggja þar mitt á vogarskálarnar til að snúa við þeirri leiðu þróun. Hvet ég því menn lútsins til þess að mæla með og ræða um mætar og minnisstæðar myndir gerðar fyrir það herrans ár 1960. Skal ég hefja leikinn með léttri umfjöllun.

- The Third Man/ Þriðji maðurinn (Orson Welles, leikstj. Oliver Reed, 1949). Kannski klisjan ein að minnast á hana, um slíkt er ég ekki dómfær, en ákvað ég þó að byrja á einhverju sem líklegt gæti talist að góður þorri manna hefði augum litið. Þetta er ein sú albesta kvikmynd sem gerð hefur verið. Myndatakan, tónlistin, leikstjórnin, ORSON WELLES, gauksklukkuræðan, eltingaleikurinn í skólpræsunum í endann. Iesus minn almáttki. Hafi einhver efast um að kvikmyndir gætu verið list, leiti ei lengur.

- Black Narcissus (Deborah Kerr, leikstj. Powell/Pressburger, 1947). Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Michael Powell og Emeric Pressburger séu hinir týndu leyndardómar kvikmyndasögunnar. Maður sér litla umfjöllun um þá, þrátt fyrir að þeir hafi skilið eftir sig einhverjar bestu kvikmyndir allra tíma. Black Narcissus gerist meðal breskra nunna í klaustri langt uppi í Himalayafjöllunum. Með ÓTRÚLEGRI kvikmyndatöku Jack Cardiff, búningum, sviðsmynd og leikstjórn, er náð upp magnaðri stemmingu þar sem andstæður trúar á hið almáttka og breiskleika holdsins takast á. Tek mig til við tækifæri og fjalla nánar um aðrar myndir Powells og Pressburger.

Hvet ég til þess að hver maður komi með tvær myndir og fjalli lítillega um þær og hvers vegna hann mæli með þeim frekar en öðrum. Ég vona innilega að ég uppgötvi einhvert snilldarverkið í þessum þræði.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Hakuchi 8/12/04 20:30

Af nógu er að taka. Ég vil heldur fjalla um fleiri en eina. Jæja, ég skrifa um tvær til að byrja með.

Night of the Hunter. Myndin er frá 1955 og er eina myndin sem leikarinn geðþekki Charles Laughton leikstýrði. Robert Mitchum er í aðalhlutverki. Þessi mynd er algert meistaraverk og hefur elst eins og vín. Þegar myndin var sýnd á sínum tíma þá fékk hún afleitar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda en hefur stigvaxið í áliti síðan þá.

Myndin fjallar um geðsjúkan morðingja sem ferðast um á krepputímanum, í gervi predikara og hösslar sig upp á einmanna konur. Lengi vel var mér heldur illa við Robert Mitchum, þótti hann vera stirðbusalegur leikari en hann fer algerlega á kostum í þessari mynd. Þvílíkur barvúr leikur.

Myndatakan er framúrskarandi og sviðsmyndin ekki síðri. Það er viljandi gert að hafa sviðsmyndina sem óraunverulegasta, hún verður martraðarkennd og expressíónísk og öðlast fyrir vikið einstaka fegurð þrátt fyrir drungalega söguframvinduna.

Látið þessa mynd ekki fara fram hjá ykkur.

All about Eve. Hér er á ferðinni meistaraverk með hinni óborganlegu Bette Davis og hefur hún sjaldan verið betri. Myndin fjallar um eitrað andrúmsloft leikhúslífsins og snýst um stórstjörnuna Bette Davis, sem er á hátindi ferilsins en óttast meir en allt að verða aldrinum að bráð. Fram kemur ung kona sem kemst undir hennar verndarvæng og fer hægt og rólega að stela athyglinni frá henni og þá fer að hitna í kolunum.

Aðalstjarna þessarar myndar er án efa handritið. Það er hreinlega eitt það besta sem gert hefur verið. Samtölin eru svo vel meitluð að unun er að heyra.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Tinni 8/12/04 21:28

Tek fyllilega undir með Hakuchi hér fyrir ofan og þá ég við báðar myndirnar. Handritið að All About Eve er stjarnfræðilega flott

Hér eru tvær góðar frá sitthvoru árinu

Room At The Top (Jack Clayton, 1959)
-Ein af fyrstu myndunum í bresku nýbylgjunni sem var við lýði á árunum 1960-65. Þarna er hart deilt á stéttaskiptingu í Bretlandi. Laurence Harvey velur ríku sætu stelpuna framyfir fátæku verkamannastúlkuna sem leikin er af Simone Signoret. Harvey var frábær leikari sem að mig minnir drakk sig í hel langt fyrir aldur fram en þess má geta að hann var samtíða Gunnari Eyjólfssyni í leiklistarskóla í Englandi.

The Apartment (Billy Wilder, 1960)
-Vel skrifuð grínmynd sem fékk óskarinn sem besta myndin árið 1961. Í henni er gengið út frá því sem vísu að allir giftir karlmenn noti hvert tækifæri sem býðst til framhjáhalds. Myndin hefur elst mjög vel, enda er Billy Wilder snillingur. Svona snilldarhandbragð fyrirfinnst ekki lengur.

Annars ætla ég að myndast við að rita eitthvað bráðlega um nokkrar góðar kvikmyndir frá fjórða áratugnum, en það tímabil er eitthvað hið gjöfulasta sem um getur...

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Rauðbjörn 25/12/04 01:02

Nosferatu(F.W. Murnau, 1922).

Alveg hreint grand sínómatík í henni og bætir það alveg hreint upp hljóðleysið, vel leikin og skemmtileg.
Að mínu mati ein besta vampírumynd allra tíma, fjallar um vampíruna Orlok greif(leikinn af Max Schreck)a frá Transylvaníu og reisu hans til Bretlandseyja.

Með fyrirvara um innsláttar-, málfars-, stafsetningar- og kynvillur.
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Mosa frænka 26/12/04 18:51

Nosferatu eftir Murnau er snilld, alveg rétt.

Metropolis (Fritz Lang, 1927) er líka nokkuð mögnuð mynd. Ég sá gerðina eftir Moroder frá 1984 fyrir allt mörgum árum og mér fannst hún skemmtileg, þó að vísu frekar -camp- vegna tónlistarinnar (eftir Queen).

Ég var svo heppin að sjá gerðina frá 2002 á Háskólabíói í sínum tíma. Lifandi tónlist í stíl og mörg atríði nýenduruppgrafin úr einhverju safni í Þýskalandi .... allt sett saman eftir bestum kenningum um hvernig myndin hafi verið upprunalega.

* Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu * Abbadís Hreintrúarflokksins *
» Gestapó   » Dægurmál, lágmenning og listir   » Hvað er nýtt?
Innskráning:
Viðurnefni:
Aðgangsorð: