— GESTAPÓ —
Hringhent, oddhent, sléttubönd
» Gestapó   » Kveðist á
     1, 2  
 • LOKAР•  Senda skilaboð
Fellaskáldið 11/11/03 22:13

Datt í hug að kynna mig með, hringhendri, oddhendri sléttubandavísu

Böndin sléttu, ríma rétt
raða fléttu hljóður
löndin kletta, þreyti þétt
þræði nettur góður

aftur á bak er hún svona...

Góður nettur þræði þétt
þreyti kletta löndin
hljóður fléttu raða rétt
ríma sléttuböndin

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Barbapabbi 11/11/03 23:46

Sælt veri Fellaskáldið og velkomið. Gaman er að sjá svo gressilega dýrt kveðnar vísur.

Fellaskáldið bindur brag
brellin tálgast vísa
svella málin, hækka hag
hnellnar sálir rísa

rísa sálir hnellnar hag
hækka, málin svella
vísa tálgast brellin brag
bindur skáldið Fella

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Herbjörn Hafralóns 12/11/03 00:05

Alltaf öfunda ég menn, sem geta kveðið jafn dýrt og Fellaskáldið, Barbapabbi og fleiri.

Velta dýrar vísur fram,
vefinn okkar skreyta.
Vega mínar varla gramm,
veldur andleg þreyta.

[leggst til svefns og vonast eftir hringhendum og sléttuböndum í draumi]

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Barbapabbi 12/11/03 00:22

þó að innrím þrengi sér
þeygi lína millum
þokki stundum þarna fer
þægilega’í hillum

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Skabbi skrumari 12/11/03 11:15

Innilega velkominn, vel er kveðið, hér er ein ekki eins góð, en maður reynir þó :)

Skáldið Fella, bleytir bell
blauta mellu ríður
Dáldið hnellna káta kell
klofsins drellir svíður

GESTUR
 • LOKAР• 
Rawiaz 12/11/03 11:20

Fella- gall við -snilli snjöll
snjöllum falla tár um völl.
Helling kallinn hylla fjöll
hollvin allvel fylla skjöll.

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Barbapabbi 12/11/03 13:34

Andans þættast heldri hættir
hérna bættist gaman
landans kættum eldri ættir
ernir mættu saman

Dr.Barbapabbi
GESTUR
 • LOKAР• 
Afbæjarmaður 12/11/03 16:42

Með kveðju til Fellaskáldsins:

Völlinn fram á veður hann með vísu fína.
Engu virðist ætla að týna,
yfir skáldin oss vill gína.

Skáldar hann með skrauti orða á skýru blaði.
Orðum raðar oft með hraði,
öðlingur í alla staði.

Er úr Fellum ofurskáldið undragóða.
Slíkt má vorum sveitum bjóða,
synd að kasta fyrir róða.

kv
thoi

 • LOKAР•  Senda skilaboð
Fellaskáldið 13/11/03 23:19

Þakka góðar móttökur félagar, hér kemur svo vísa er ég samdi um sjálfan mig, og hún er auðvitað uppfull af hógværð...

ÉG SJÁLFUR

Piltur góður, feikna fríður
fagur, hljóður og kænn
stilltur, ljóðar bljúgur blíður
brosir rjóður og vænn

aftur á bak...

Vænn og rjóður, brosir blíður
bljúgur ljóðar stilltur
kænn og hljóður, fagur fríður
feikna góður piltur

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Herbjörn Hafralóns 14/11/03 00:32

Já þið eruð stórkostlegir piltar.
Kannski maður spreyti sig aðeins á innrími:

Herbjörn góður halur er
hleypur móður stundum.
Sagður fróður, svalur fer,
í sjóróður með hundum.

Æ,æ..... ef til vill ætti maður bara að fást við fyrriparta.

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Barbapabbi 14/11/03 01:19

vildirðu ekki miklu frekar fara í sjóróður með 'sprundum'? Gnýstuðlarnir eru ekki einungis böl heldur einnig blessun.

Stuðull gnýs þér góður er
gjöf frá Ísalandi
hafðu dís og hundur fer
hátt mun rísa sumt á þér

æ ég segi nú bara svona
‹Ljómar upp›

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Herbjörn Hafralóns 14/11/03 08:29

Jú Barbapabbi, auðvitað væri skemmtilegra að vera á sjó með sprundum en einhverjum sjó-hundum. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa en breyti þessu bara nú með nýju innleggi.

Herbjörn góður halur er
hleypur móður stundum.
Sagður fróður, svalur fer,
í sjóróður með sprundum.

Það verður samt að vera logn ef ég á að fara um borð í fleytu með sprundunum, annars æla þær allar og kannski ég líka.

 • LOKAР•  Senda skilaboð
Fellaskáldið 14/11/03 23:35

Ljómandi gott skáldbræður góðir, gaman að þessu. Ég held áfram á svipuðum nótum...

Alla tíð, um ár og síð
þitt ævistríð um lífsins veg
vertu blíður, laus við níð
vænn til prýði, eins og ég

og...

Mjöðinn áfram lepjum ljóða
liprir spyrðum fléttu
Vöðin teflum, elfu óða
ólgu böndin sléttu

Afturábak...

Sléttu böndin, andans óða
elfu, teflum vöðinn
fléttu spyrðum, liprir ljóða
lepjum áfram mjöðinn

þetta gæti líka verið svona, ef einhvert vit reynist í...

Mjöðinn glaðir lepjum ljóða
liprir raða réttu
Vöðin svaða, elfu óða
ólgu hraða fléttu

afturábak...

fléttu hraða, ólgu óða
elfu svaða vöðin
réttu raða, liprir ljóða
lepjum glaðir mjöðinn

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Barbapabbi 20/11/03 01:12

Rímið límir ljóðaflóð
lengi gengur buna
kímið flímið fróðuslóð
flengist tengist runa

GESTUR
 • LOKAР• 
Gestur 20/11/03 12:20

Núna læðist að mér efi
illur grunur nagar dáldið.
Er mögulegt að stuðlastefi
stolið hafi Fellaskáldið?

 • LOKAР•  Senda skilaboð
Fellaskáldið 20/11/03 22:44

Þú atar á mig illri sök
aumi drulluraftur
hafðu með þér haldbær rök
og hittu mig hér aftur

Þú temja ættir háð og hnjóð
er hnjót´af þínum munni
Því öll mín kvæði, limrur, ljóð
leka úr mínum brunni

Annars held ég að Örn Arnarsson lýsi ásökunum þínum best í eftirfarandi vísu, sem ég leyfi mér að birta hér til að leggja áherslu á orð mín.

Hávært tal er heimskra rök
hæst í tómu bylur
oft er viss í sinni sök
sá er ekkert skilur

höf: Örn Arnarsson

GESTUR
 • LOKAР• 
Gestur 21/11/03 13:30

Nú segi ég eins og Salómon forðum: Þessi maður er sannarlega faðir barnsins. Þetta voru viðbrögðin sem ég vildi fá. Ástæður vafans voru hins vegar þær að upphaf þessa þráðar er með því besta sem sést hefur hér á Baggalúti kvæðakyns. Vísur frá þér annarsstaðr (t.d. Kveðist á) þar sem frjálslegar er farið með bragreglur, sáðu þessu litla efasemdarfræi. En menn eru jú eins mistækir og þeir eru margir .... eða þannig!

(Þetta svar ætlaði ég að sjálfsögðu að hafa í bundnu máli en nennti því ekki)

Fyrirgefðu feilinn, þú!
Fleipri lak minn kjaftur.
Allur vondur vafi nú
verðu tekinn aftur.

 • LOKAР•  Senda skilaboð
Fellaskáldið 23/11/03 02:08

Gott að við erum þá sáttir, nú skil ég þitt sjónarmið...

Vondur er vafi farinn brott
nú vinur, getum sæst
sumt er með sanni ekki gott
ég sver, ég geri betur næst

Orðin skreyta víst ég vil
vísna leit´að anda
prófin þreyti brúa bil
bragar leysi vanda

LOKAÐ
     1, 2  
» Gestapó   » Kveðist á   » Hvað er nýtt?
Innskráning:
Viðurnefni:
Aðgangsorð: