— GESTAPÓ —
Leirburður eftir sjálfan mig
» Gestapó   » Kveðist á
        1, 2, 3  
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Blöndungur 25/1/09 02:27

Svona almennt finnst mér alltaf hálf kauðalegt að stuðla hv- með k-, svona kannski af því að ég er bæði Sunnlendingur og snobbari. En hvað varðar meint hugsanlegt aukastuðlapar, þá finnst mér oft sem h-hljóð sem hverfa innundir samhljóðana á eftir sér (einsog h í hér og hlýst), að þau varla myndu ganga sem almennilegir stuðlar, því að h-áið er svo veikburða eitthvað. Svona einsog að stuðla j- á móti í-.
En vísan er öll hin glæsilegasta; kennd og rekin, gott ef ekki tennt líka. Það er loksins að sést skáldskapur með kenningum; þær hljóta að verða hið mikilverðasta í hástigi skáldskapar. Kvæðagerðin mun komast á annað og hærra stig þá og þegar skáldin fara að eiga létt með að nota kenningar, verða óhrædd við að nota þær, og lesendur geta skilið þær, meðtekið og metið án erfiðleika.

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
The Shrike 25/1/09 03:00

Aldrey hef ég neina kenningu skilið, enda bara aumur orðapúslari.

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
hlewagastiR 25/1/09 03:19

Vangaveltur Blöndungs eru allrar athygli verðar. H-stuðlun og H-stafsetning er undarlegt þing.

Eftirfarandi klasar innihalda ekkert h-hljóð:
'hj' = sama hljóð og [j], bara óraddað . Ekkert [h] á undan.
'hl' = sama hljóð og [l], bara óraddað. Ekkert [h] á undan
'hn' = sama hljóð og [n], bara óraddað. Ekkert [h] á undan.
'hv' = [kv] (hjá flestum) en [x] eða [xw] (hjá sumum Sunnlendingum). Ekkert [h] á undan (hjá neinum).

Þessi röddunarmunur er sá sami og í pörunum:
f ('finna') : v ('vinna')
þ ('hæ þið') : ð ('hæðið)
r ('vers') : r ('vera')
g ('lagt') : g ('laga')

Engum dytti í hug að rita fyrri orðin í þessum pörum:
-'hvinna'´(='finna')
-'hæ hðið'
-'vehrs'
-'lahga'

Stafsetningin 'hjól', 'hlíð og 'hrím' er þó nákvæmlega sama fyrirbæri.

Ef ströng hljóðfræðilögmál réðu stuðlun væru 'hj', 'hl', 'hn', 'hr' og 'hv' allt sjálfstæðir jafngildisflokkar, þ.e.a.s. hvert þessara hljóða gæti bara stuðlað við sig sjálft.

Samt gráta hrímgar hlíðar og holt um Borgarfjörð.

Það er nefnilega svo að eyrum vorum þykja órödduð sérhljóð um margt minna á [h] sem er óraddað raddbandaönghljóð. Þess vegna sættumst við á að fimm sjálfstæði hljóð ('h', 'hj', 'hl', 'hn' og 'hr') stuðli saman. (Svipað dæmi eru k-in í 'kar' [k] og 'ker' [c] sem eru hljóðfræðilega ólík en deilda stafsetningartákni og stuðla saman.) Um þetta deilir enginn.

Lengi vel var fullkomlega eðlilegt að 'hv' ætti heima með hinum hljóðunum fimm. Svo er og ennþá fyrir þá sem hafa hv-framburð auk þess sem stafsetningin og hefðin réttlæta slíka notkun hjá kv-mæltum mönnum.

Hjá okkur hinum, þessum rúmlega 99% sem hafa kv-framburð segir brageyrað að 'hv stuðli við 'k' enda hefur orðið fullkomið samfall í framburði. Að [k] geti stuðlað við [c] ('kar':'ker') en megi ekki stuðla við annað [k] ('kar':'hver') er beinlínis absúrd.

Sjálfur hef ég hingað til reynt að sætta hin andstæðu sjónarmið (hefðina og kv-framburðinn) með því að stuðla 'hv' hvorki við 'h' né 'k'. Þetta er þó afar takmarkandi og í raun ekki rökrétt heldur. Ég íhuga því alvarlega að gera uppreisn gegn mínum bragfræðilega og teólógíska meistara, Sveinbirni Beinteinssyni, - þó aðeins á þessu afmarkaða sviði - og fara að stuðla 'k' og 'hv' kinnroðalaust saman.

Ég viðurkenni þó fullkomlega rétt manna til að halda í samstuðlun 'hv' og 'h' en mæli eindregið með því að menn gæti samræmis; velji aðra hvora leiðina og haldi sig við hana. Jafnvel þótt ekki minni menn en Bólu-Hjólmar, Jónas Hall og Davíð Stefánsson hafi allir borðið hv-kápuna á báðum öxlum.

Þetta ritar ósköp úldið, aldið skar. • er falskonungur forðum var.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
25/1/09 14:55

‹Dáist að vizku Hlebba›

Ég hafði gaman af hljóðfræðinni í Menntaskólanum, en hafði því miður ekki vit né þroska á þeim tíma til að samræma hana bragfræðinni, sem varð mér ekki hugleikin fyrr en árið eftir. Því er afskaplega gaman að lesa svo fræðilegan fyrirlestur um þessi málefni frá Hlebba nú.

hlewagastiR mælti:

Ég viðurkenni þó fullkomlega rétt manna til að halda í samstuðlun 'hv' og 'h' en mæli eindregið með því að menn gæti samræmis; velji aðra hvora leiðina og haldi sig við hana. Jafnvel þótt ekki minni menn en Bólu-Hjólmar, Jónas Hall og Davíð Stefánsson hafi allir borðið hv-kápuna á báðum öxlum.

Undir þetta tek ég heilshugar. Sjálfur hef ég þann háttinn á að stuðla hv- á móti k- og reyni eftir fremsta megni að halda mig eingöngu við það og vera þannig samkvæmur sjálfum mér. Merkilegt þykir mér, ef satt er, að þessir mætu meistarar hafi stuðlað hv- jöfnun höndum gegn h- og k-!

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Ívar Sívertsen 25/1/09 15:13

Sko - Ef ég kæmi fram með vísu þar sem hv og k (jafnvel kv) þá yrði mér grýtt út og beðinn að reyna ekki að yrkja aftur. Ég er einn af þeim sem ber fram hv sem hv og kv sem kv. Þetta er eins konar leti í orðmyndun fólks og mikill löstur. Það er ömurlegt að heyra fólk sega kvar er þetta og kvernig hitt, kvað er eittkvað og kversu þetta. Fyrir mér stuðlar h við h og k við k. Fyrir mér er rangt að láta hljóð stuðla og ríma líkt og í nýlegu lagi með Leone Tinganelli þar sem Lýsi er látið ríma við Easy.

Ráðherra drykkjarmála, spillingarmála, ummála og löggiltur oftúlkur, kantor í hverri einustu andskotans messu sem haldin er og spangólari ríkisins. Forseti skásambandsins.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
hlewagastiR 25/1/09 16:29

Ívar Sívertsen mælti:

Þetta er eins konar leti í orðmyndun fólks og mikill löstur.

Á 19. öld var algengt að skýra framburðarbreytingar með leti. Það hefur verið hrakið fyrir fullt og allt. Það er ekkert erfiðara að vera fram [x] en [kv].

Þetta ritar ósköp úldið, aldið skar. • er falskonungur forðum var.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Ívar Sívertsen 25/1/09 16:32

hlewagastiR mælti:

Ívar Sívertsen mælti:

Þetta er eins konar leti í orðmyndun fólks og mikill löstur.

Á 19. öld var algengt að skýra framburðarbreytingar með leti. Það hefur verið hrakið fyrir fullt og allt. Það er ekkert erfiðara að vera fram [x] en [kv].

Hvað um það, mér finnst ömurlegt að fólk skuli ekki venja sig á það að nota hv og kv.

Ráðherra drykkjarmála, spillingarmála, ummála og löggiltur oftúlkur, kantor í hverri einustu andskotans messu sem haldin er og spangólari ríkisins. Forseti skásambandsins.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Tigra 25/1/09 17:13

Ég sem norðlendingur sé ekkert að því að hv stuðli við k. (hvort sem það er K eða kv)
Ég verð hinsvegar að viðurkenna að mér þætti ljótt að stuðla t.d. hverjum við hljótt/hlýst/hér etc... sumsé hv við h. Það bara hljómar ekki rétt. Ljóð ættu ekki að fara eftir stafsetningu, heldur eftir framburði að mínu mati.

Reglur um þetta voru mismunandi á norðurlandi og á suðurlandi - því framburðurinn var öðruvísi.

Það er því varla hægt að kalla þetta rétt eða rangt.

Nornakisa • Dýramálaráðherra • Lyklavörður Pyntingaklefans • Sérlegur Músaveiðari Baggalútíska Konungsdæmisins • Konunglegur listmálari við hirðina • Fólskulegur Ofsækjandi Þarfagreinis
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Upprifinn 25/1/09 19:49

Hafa skal það sem betur hljómar í það og það skyptið og ekki ætla ég að setja mig á hærri hest en þá orðmeistara sem Hlebbi nefnir í sínu fróðlega innleggi.
Hvað Sveinbjörn Beinteinsson varðar þá hefur mér heyrst að hann hafi nú verið svolítill málfarsfasisti, það er að vísu mjög 0ft nauðsynlegt og nokkuð öruggt að við gætum ekki lesið okkar frábæru arfleifð ef þeirra hefði ekki notið við í gegn um tíðina.
En tungumálið okkar er lifandi og það er takmarkað hversu rígneglt það getur verið við gamla tíman.

En alla vega, stuðlið eftir framburði dagsins í dag.

Ríkissáttasemjari Baggalútíska heimsveldisins. Vonbiðill hinnar keisaralegu hátignar, hirðskáld og varavaravarakeisari. Níðskáld hinnar konunglegu hirðar. Nánast óþægilega kurteis...Besserwisser og Negradýrkari.‹Ljómar upp.›
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
hlewagastiR 25/1/09 19:51

Ég er sammála Tigru. Ég get líka tekið undir það með Ívari að það er eftirsjá að gamla hv-framburðinum. Mér þykir líka eftirsjá að vestfirskum einhljóðaframburði, hornfirskum rn-framburði, y-framburði, fornri hljóðdvöl o.s.frv.

Eftir sem áður er þetta allt steindautt. Þó að nokkur hundruð gamalmenni hafi enn hv-framburð og þó að slangur ungmenna reyni að tileinka sér hann vegna sérvisku (og fer hv-ið þá jafnan vitlaust fram) - þá er þetta steindautt. Alveg eins og y-framburður. Okkur getur þótt það ömurlegt, sorglegt, skammarlegt, snautlegt og lélegt - en svona er þetta bara og við hikum við ekki við að ríma saman 'vinur' og 'hlynur'.

Þetta ritar ósköp úldið, aldið skar. • er falskonungur forðum var.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Ívar Sívertsen 25/1/09 20:33

Ykkar mat er sem sagt að þeir sem beri hv rétt fram séu að strumpa falskt af því að það hljómar ekki rétt í stuðlun? Djöfuls rugl er þetta. Það á nefnlega ekki að skipta máli hvort menn eru að norðan, sunnan, austan eða vestan, kveðskapur skal lúta stafareglum framar hljóðareglum að mínu mati. Annars gætum við allt eins gúterað eftirfarandi vísu:

Hvert fer ég að kvarta hér
kerlingin er löt
býður úldið bara smjör
og býsna onýtt ket.

Þetta myndi gerast ef við samþykkjum ambögur úr og mállesti úr öllum áttum.

Ráðherra drykkjarmála, spillingarmála, ummála og löggiltur oftúlkur, kantor í hverri einustu andskotans messu sem haldin er og spangólari ríkisins. Forseti skásambandsins.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Wayne Gretzky 25/1/09 20:42

Ívar Sívertsen mælti:

Ykkar mat er sem sagt að þeir sem beri hv rétt fram séu að strumpa falskt af því að það hljómar ekki rétt í stuðlun? Djöfuls rugl er þetta. Það á nefnlega ekki að skipta máli hvort menn eru að norðan, sunnan, austan eða vestan, kveðskapur skal lúta stafareglum framar hljóðareglum að mínu mati. Annars gætum við allt eins gúterað eftirfarandi vísu:

Hvert fer ég að kvarta hér
kerlingin er löt
býður úldið bara smjör
og býsna onýtt ket.

Þetta myndi gerast ef við samþykkjum ambögur úr og mállesti úr öllum áttum.

Ambögur? Eru þetta ekki bara orð fyrir og eftir klofningu? ( ef það gildir þá með smér - smjör )

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Regína 25/1/09 20:47

Það fer í mínar fínustu að stuðla hv sem k.

Ég held í fullri alvöru að það haldist bestur friður með því að stuðla eins og Sveinbjörn vildi. Það hefur heldur ekki hingað til þótt nein skömm af því á þessum vettvangi að vera málfarsfasisti.

Drottning Baggalútíu. Varaforseti Baggalútíu. Dulmálssérfræðingur Hlerunarstofnunar. Meykóngur.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Texi Everto 25/1/09 21:00

Af vísunum skulið þér dæma þá.

• Þetta innlegg á sér ekki endilega stoð í Gestapóleikanum • Söngmaður sólarlagsins og áhangandi ljósaskiptanna • Fjalldrottning Baggalútíu • Riddaralið • Texi Everto treve ixet • Áttavillingur • Vonbiðill Geitarinnar • Matætan frá Mývatni
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Blöndungur 25/1/09 21:06

Það er nú kannski allt í lagi, að fólk stuðlii eftir sínu eigin höfði, ef það er sjálfu sér sæmilega samkvæmt, svona í það minnsta innan sama kvæðisins. En ég verð nú að furða mig á þessum yfirlýsingum til hnjóðs hv-framburði; að það séu bara gamalmenni og sérlundaðir unglingar sem hafa hann við.
Veit það ekki ... má vera að ég sé orðinn málhaltur af að búa í útlöndum, og geti þannig dundað mér við að nostra upp einhvern „lærðan hv-framburð“. En hvað varðar það, að hann fáist ekki réttur - ég man sjálfur nákvæmlega hvernig langamma bar fram hvað og hvítt. Svo er nú mýgrútur af fólki sem hefur þennan framburð, og fer vel með. Má þar nefna ... Boga Ágústsson fréttamann.

 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
hlewagastiR 25/1/09 22:12

Ívar Sívertsen mælti:

Ykkar mat er sem sagt að þeir sem beri hv rétt fram séu að strumpa falskt af því að það hljómar ekki rétt í stuðlun?

Nei, þetta er útúrsnúningur af þinni hálfu, Ívar. Ég hef a.m.k. alls ekki haldið því fram heldur tók ég sérstaklega fram að ég viðurkenndi forna stuðlun.

Ívar Sívertsen mælti:

Það á nefnlega ekki að skipta máli hvort menn eru að norðan, sunnan, austan eða vestan, kveðskapur skal lúta stafareglum framar hljóðareglum að mínu mati.

Þetta er afar athyglisvert sjónarmið en fær ekki staðist. Bragreglur eru reglur um hrynjandi og hljómfall. Þær eru reglur eyrans og hafa ekkert með stafsetningu að gera. Ef stuðlar væru enn notaðir í enskum skáldskap (en svo var til forna og lengi fram eftir), ættu þá 'cat', 'ceiling' og 'change' að stuðla vegna þess að öll orðin byrja á 'c'? Vitanlega ekki!

Enn fremur má bæta því við að jafnvel í Rangarvalla- og Skaftafellssýslum - kjarnasvæði hv-framburðar - hefur yfirgnæfandi meirihluti fólks undir fimmtugu kv-framburð. Á Vestfjörðum er varla hægt að segja að nokkur einasti maður undir fimmtugu hafi einhljóðaframburð nema fáeinar hræðum sem hafa ekki alist upp við hann en tekið hann upp síðar vegna sérvisku. Að loka augunum fyrir þessu er eins og þegar Geir afneitaði kreppunni. Óskhyggjan bar staðreyndirnar ofurliði.

Þess vegna er afar hæpið að leggja hinn fallandi framburð upp sem landshlutamállýskur nú á dögum. Hvernig veit ég það? Jú, ég hef unnið sjálfur við rannsóknir á útbreiðslu og stöðu íslenskra mállýskna.

Ívar Sívertsen mælti:

Annars gætum við allt eins gúterað eftirfarandi vísu:

Hvert fer ég að kvarta hér
kerlingin er löt
býður úldið bara smjör
og býsna onýtt ket.

Ívar, þessi vísa er röksemd GEGN sjónarmiði þínu um að stafsetning skuli ráða. Ef ég ber fram 'smjör' þá læt ég það ríma við 'fjör'. En beri ég fram 'smér' þá læt ég það ríma við 'fer'. Eini gallinn við þessa vísu er að ég hygg að fáir hafi 'e' í 'ket' en jafnframt 'ö' í 'smjör'. Þó má vera að einhver tali þannig og þá er ekkert að vísunni.

Ívar Sívertsen mælti:

Þetta myndi gerast ef við samþykkjum ambögur úr og mállesti úr öllum áttum.

Vissulega er ástæðulaust að taka inn sérkennilegar málbreytingar eða ambögur í kveðskap nema þá upp á grín eins og t.d.:

Ég er fremör flámæltör
og ferer vekeð
er ég þvílíkt smámæltör
og soldið mekeð.

Hér stuðlar smámæltur maður saman 's' og 'þ'. En þá er til þess að taka að smámæli er lítt útbreitt talmein og engum dettur í hug að stuðla þannig nema í grínvísu eins og þessari.

Ívar leggur kv-framburð að jöfnu við slíka málgalla. Hann kallar framburð um 99,5% landsmanna ambögur vegna þess að þannig var ekki borið fram til forna. En segðu mér þá Ívar, eigum við að hætta að láta 'vinna' og 'kynna' ríma? Samfall 'y' og 'i' var ekkert annað en ambaga eða mállöstur í upphafi. Ívar, fordæmir þú þá breytingu?

Þetta ritar ósköp úldið, aldið skar. • er falskonungur forðum var.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
25/1/09 22:27

hlewagastiR mælti:

Ég er fremör flámæltör
og ferer vekeð
er ég þvílíkt smámæltör
og soldið mekeð.

‹Brosir út að eyrum og lyftir báðum höndum upp fyrir höfuð til merkis um að sér hafi þótt þetta afskaplega fyndið›

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
hlewagastiR 25/1/09 22:28

Blöndungur mælti:

En ég verð nú að furða mig á þessum yfirlýsingum til hnjóðs hv-framburði; að það séu bara gamalmenni og sérlundaðir unglingar sem hafa hann við.

Það er ekki framburðinum til hnjóðs að nær enginn hafi hann lengur. Það eru blákaldar staðreyndir þó að nafngreina megi undantekningar. Þvert á móti er mikill missir að íslenska hv-framburðinum og ég vildi gjarna að hann hefði haldist meðal þjóðarinnar.
Sama á við um hvarf y-framburðar. Og forna hljóðdvöl ef því er að skipta. Eins þykir mér u-innskotið, þegar 'maðr' varð 'maður' mikið slys.

Mér dettur samt ekki í hug að taka upp þennan forna framburð.

Og hví skyldi ég þá heldur stuðla samkvæmt honum?

Þetta ritar ósköp úldið, aldið skar. • er falskonungur forðum var.
LOKAÐ
        1, 2, 3  
» Gestapó   » Kveðist á   » Hvað er nýtt?
Innskráning:
Viðurnefni:
Aðgangsorð: