— GESTAPÓ —
Rökfræðiakademía Zimmermanns
» Gestapó   » Vísindaakademía Baggalúts
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Günther Zimmermann 16/12/05 10:54

Í fornum úníversítätum og háum skólum, tíðkuðust snarpar orðahildir sem hluti af undirbúningi Stúdenta fyrir hina miskunarlausu tilveru. Einnig var þetta liður í latínunámi Stúdenta, þar sem að sjálfsögðu fóru þessar orrustur fram á þeirri eðla tungu *. Bestu vinir gátu barist sem hundur og köttur í þessum leikjum en gengið frá enn hinir bestu vinir.

Það er ósk mín að eftir skarpar orðasennur í RAZ geti gestir hér betur mótað rök sín og rætt erfið málefni á borð við trúmál án þess að sökkva niður á stig ærumeiðinga, saurkasts og ofbeldis.

Til glöggvunar bendi ég á skemmtilegan leik mín og Heiðglyrnis hér: http://www.baggalutur.is/viewtopic.php?t=6707&postdays=0&postorder=asc&start=0
(Hefst fyrir alvöru á síðu tvö.)
Einnig áttu sér skemmtilegar rökræður stað hér ***: http://www.baggalutur.is/viewtopic.php?t=6813&postdays=0&postorder=asc&start=0
Gaman er að bera þessa þræði saman og greina muninn. Þá er spurningin, hvor leiðin er skemmtilegri og meira uppbyggjandi?

Hér skiptir innihald rökræðnanna ekki meginmáli, heldur vönduð framsetning, hið besta málfar og eiturskörp hnittni! Móðganir eiga vissulega heima hér, en með vissum formerkjum þó. Góð regla er þessi: oflof er háð.

Munið að á þessum þræði er ætlunin að skemmta sér og læra ****. Hvorki er ætlast til þess né það bannað að þátttakendur séu samkvæmir skoðunum sínum hér. Hægt er að vera dyggur stuðningsmaður framsóknarflokksins innst í hjarta, en lasta hann af öllum lífs og sálar kröftum innan veggja þessarar akademíu, til að þjóna lógíkinni, krefjist hún þess.

Þéranir eru öllum þeim frjást að brúka sem vilja. Til áminningar:
nf. þér
þf. yður
þgf. yður
ef. yðar
Ekki er þó til siðs að þéra sjálfan sig (sk. p l u r a l i s m a j e s t a t i s), nema viðkomandi sé svo vel ættaður eða embættaður að mega slíkt.

Uppbygging innleggja skal í meginatriðum fylgja eftirfarandi reglum:
№ 1. Ávarp. Hér er til siðs að ávarpa almættið (in nomini domini &c.) en ekki nauðsyn. Sett fram í nafni konungs og heilsa borin viðtakendum.
№ 2. Texti. Þessi liður er meginmálið. Þar koma rökin fram og eiginlegt innihald bréfsins tíundað.
№ 3. Lok. Hefðin er sú að hér komi fram undirskrift og dagsetning. Dagsetningin er ekki nauðsynleg hér, en undirskriftin er það svo sannarlega. Hér má einnig kasta fram velfarnaðaróskum og almennri kveðju.

Dæmi:
In nomini Domini Amen. Yður, hæstvirti lesandi, sendi ég kveðju Guðs og mína, fyrir velvilja drottningar lands okkar Margrétar Þórhildar &c.
Það hryggir mig að heyra af afstöðu yðar til þessa málefnis o.s.frv. [mótrök hrakin og önnur sett fram, á kurteisan og siðprúðan máta]
Dat. Baggalútíu 16. 10bris Ao. eftir holdgun Krists MM & V.

Munið að sýna ykkar besta mann og að aðgát skal höfð í nærveru sálar, markmið þessarar menntastofnunar er að koma í veg fyrir ljóta leiki á borð við þá sem sáust í athugasemdum við félagsrit hér fyrir nokkrum dögum.

Hér með er skólinn opinn og öllum frjálst að ræða rök eftir hjartans lyst og bestu getu!

___________________
* Ekki er þó skilyrði að tjá sig á því tungumálinu (það er trú mín að hæfni skorti á öllum vígstöðvum til þess, því miður **) enda er hér hin íslenska tunga í hávegum höfð og hún full brúkleg og meira en það til að tjá hverja þá hugsun sem fæðst hefur í mannlegum kolli.
** Mikið þyrfti að koma skólastefnu Melankthons aftur á. Það var aðalnámskrá sem bragð var að!
*** Á þessum þræði eru líka dæmi um misgóða hegðun í rökræðum.
**** Sem fer jú merkilega vel saman.

Antiqvarius Imperii BACCALVTII - Vörzlumaður Fjársjóðskammers forsetaembættisins.
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Isak Dinesen 16/12/05 11:13

Kæru Zimmermann og aðrir lesendur, nær og fjær.*

Ég hef hreinlega ekki séð jafn stórkostlegan þráð hér á Baggalút(i)*. Jafn göfuglyndur maður og þú ert vanfundinn, hvílíkt hugarflug, hvílík snilld. Konurnar vilja eignast börnin þín, karlarnir vilja skíra (þ.e. nefna) börnin í höfuðið á þér (Zimmermädchen - myndi það ganga upp?)

~~~ Með kveðju og þökkum - Isak Dinesen, sá íslenski ~~~

* Ég fer leið fyrri kanslara trésmiðsins og lofa almættið eigi - ólíkt núverandi kanslaranum.
** Beyging fer eftir því hvort þú treystir Háskóla Íslands eða ei. Á þessum þræði hlýtur að vera eðlilegt að treysta þeirri stofnun.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Sæmi Fróði 16/12/05 12:02

Kæri Isak Dinesen, herra Zimmerman og háæruverðuga ritstjórn Baggalúts, sem og aðrir auðvirðilegir lesendur.

Ég er því miður ósammála ykkur báðum (afsakið að ég þéra ekki en sú leiða athöfn er mér fyrir löngu ótöm). Þessi þráður er mein á samfélagi Gestapó og vil ég nefna eftirfarandi rök, mínu máli til stuðnings:

Í fyrsta lagi, þá er upphafsinnleggið gegnsýrt af dönskum áhrifum og latínuskotið og skil ég ekki hví við Íslendingar ættum að blanda okkar yndislega mál með útlensku sem er í besta falli slæm og í versta falli óskiljanleg.

Í öðru lagi, þá hef ég hvergi séð lélegar rökræður hér á Gestapó (en þar gæti verið um slæma sjón að ræða).

Í þriðja lagi, þá er ég ósammála því sem ég er að skrifa hér á þessum þræði sem gerir þennan þráð enn verri fyrir vikið, því hvaða heilvita maður getur verið ósammála sjálfum sér.

Með virðingu og (ó)þökk fyrir þennan þráð.

Sæmundur fróði Sigfússon.

Skall þar hurð nærri hælum
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Skabbi skrumari 16/12/05 14:07

Séra Sæmi Fróði, Kölski og aðrir fylgisveinar.

Ég verð því miður að vera yður hjartanlega ósammála... þér vaðið hér inn á skítugum (en jafnframt ansi fallegum bleikdoppóttum) skónum og ætlast til að einhver taki mark á yðar innleggi, því og ver og miður, ég get ekki tekið undir það að yður sé alvarlega með að vera ósammála um ágæti þessa þráðar... ekki ætla ég að orðlengja það neitt frekar... en jafnframt lýsa yfir ánægju minni með yðar gullfallega kjól sem þér berið svo glæsilega...

Skál... ykkar Skarpmon Skrumfjörð.

P.S. tókst mér að þéra rétt?

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
bauv 16/12/05 14:47

xT

Hvað, hver, hvur
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Vladimir Fuckov 16/12/05 17:02

Ágætu Bagglýtingar nær og fjær

Í undanfarandi innleggi gefur að líta sjerlega gott dæmi um tilgangslaust innlegg þar eð sje skilingur vor á upphafsinnleggi þráðarins rjettur var ætlunin að rökræða hjer um ýmislegt, m.a. eðli rökræðna, en eigi að skála. Þýðir þetta að undanfarandi innlegg er bæði merkingar- og tilgangslaust í þessum þræði þó það kunni að falla vel að umræðum í öðrum, ótilteknum þráðum.

Að þessum orðum sögðum verðum vjer að koma því á framfæri að þráður þessi finnst oss afar góð hugmynd þó framsetning hugmyndarinnar sje að áliti voru á köflum fram úr hófi flókin er þó kann að stafa af lítilsháttar skorti á notkun feitletrana í 'fyrirsögnum', hugsanlegum skorti (þó eigi miklum) á greinaskilum, svo og þeirri staðreynd að sökum þess hvernig á stendur hjá oss nú er þetta er ritað og þeirri staðreynd að eigi munum vjer kynna oss innihald upphafsinnleggsins til hlítar fyrr en í kvöld.

Ritað á aðventu 2005,
Vladimir Fuckov

Forseti Baggalútíu & kóbalt- & hergagnaframleiðsluráðherra o.fl. Baggalútíu • Staðfestur erkilaumupúki • Óvinur óvina ríkisins #1 • Virðulegasti Gestapóinn, krúttleysingi og EIGI krútt • Óafvitandi aðili ósamhverfra vensla
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Hakuchi 16/12/05 21:44

Í nafni hins kærasta höldar himnabústaða vörpum vér fram auðmjúkri kveðju til handa þeim ærlegu dátum mannlegrar visku er þennan þráð sitja.

Vér viljum koma á framfæri þakkarbæn til handa þess allra náðugasta skósveins, Günter Zimmermanns, fyrir að hafa með pompusi og praktík galdrað fram þennan silkiþráð örlaganorna sem svo miklu lofar um dásemdartíð.

Að prísingum loknum höfum vér hug á að koma oss að efni samræðunnar. Vér viljum gerast svo djarfir að mótmæla báðum viðhorfum þeim er fram hafa komið um meint gæði þráðar þess er vér stafþrykkjar ástundum. Vort innsæi hefur vélað fram þeim grunsemdum í vorum huga að hér hafi illa verið sáð til rökræðu í upphafi. Vor rök eru af þeim meiði að rökræða um gæði þráðar sem þegar er á frumglæðisstigi sé eigi fallin til frjósamra samræðna. Hvorki meðmælendur né andmælendur hafa frammi fyrir sjálfum sér empírískar staðreyningar um gæði þráðarins á þessu stigi þroskaferils hans. Grýttur er því jarðvegurinn fyrir áframhaldandi vöxt þráðar. Ef vér leitumst við að dæma af sanngirni getum vér einvörðungu leyft oss að álykta að þráðssnifti þetta gefi oss forsendur til að vonar um að hér hafi oss verið gjört heyrinkunnugt um gjöful mið rökræðu. Hér er því enn sýnd veiði, en eigi gefin.

Vér leyfum oss að sýna þá djörfung að dirfast í nafni eigin áræðis að leggja til þá auðvirðilegu bón um að vér leitum að nýjum kaleik sem vænni þykir til skapandi skrifta og frekari hugarins rannsókna.

Megi náð himnadróttins fylgja sálum yðar kæru andans bræður,
Hakuchi
Allranáðugastur og dýrðlegastur hilmir hins baggalútíska heimsveldis

GESTUR
 • Svara • Vitna í • 
Afbæjarmaður 17/12/05 13:31

Háu herrar! Ágætu frúr! Ærubestu eðla höfðingjar! Fyrir Guðs náð og mildi ávarpa ég Yður með von um jákvæð viðbrögð. Ég, lágur almúgamaður, beygi mig og lofa yður vegna hinna fögru orða sem hér hafa fallið.
Konungur Baggalútíu hefur rétt fyrir sér, að vanda. Þér greinið vandann með eldskarpri rökhyggju og innblásinni hyggni hins réttláta og af Guði útvalda konungs. Ekki er hægt að rökræða, ef ekkert er til að rökræða um! Því set ég, sem auðmjúkur og óverðskuldaður rektor þessarar minnar lágu menntastofnunar, eftirfarandi tillögur fram:

In primo: Hverjum þeim, sem eitthvað krassandi fram hefur að færa, er frjálst téð mál fram að færa, fylgi viðkomandi settum reglum og algildum viðmiðum um almenna kurteisi.

In secundo: Sú kurteisi skal sýnd, að tæma málefnaskrá áður en nýtt mál er lagt fram.

Með þessar tvær meginreglur að leiðarljósi, held ég að hér geti skapast frjór jarðvegur fyrir vitsmunalega umræðu af öllum toga.

Til að koma umræðum hér af stað, set ég eftirfarandi fram:
Það er mín réttláta sannfæring, að styttings náms til stúdentsprófs er ákvörðun tekin í samráði við hinn illa sjálfan! Ein afleiðing þessarar örgu ákvörðunar er sú, að ekki verður skylda að nema þriðja erlenda tungumál. Hvernig getur hæstvirtur Íþróttamálaráðherra lifað með það á samviskunni að hefta, loka inni, binda og tjóðra íslensk ungmenni við hinn enskumælandi heim? Sé einhver mér ósammála, stigi sá hinn sami fram og beri rök sín á borð.

Skráð með vinsemd, virðingu og auðmýkt, hér undir sett nafn og vottað manu propria, dat. Baggalútíu 17. 10bris Ao. post Christi navitatem þúsund tvö og fimm til.

Günther Zimmermann mpp.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Günther Zimmermann 17/12/05 13:34

Eðalbornu herrar og frúr!

Það er mín von og ósk að Þér sjáið Yður fært að fyrirgefa mér þessa leiðu yfirsjón, að senda hér inn innlegg í nafni réttindalauss afbæjarmanns.

Með vinsemd og virðingu &c.
Zimmermann mpp.

Antiqvarius Imperii BACCALVTII - Vörzlumaður Fjársjóðskammers forsetaembættisins.
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
voff 18/12/05 21:22

Hávelbornu hátignir, ráðsmenn og stjórnvitringar lýðveldis þess sem kennt er við Baggalútíu, hæstráðendur til sjós og lands, meistarar himins og hafdjúpa og heimsins alls, verndarar viskunnar, hertogar háloftanna, geymslumenn goðanna, lögtignir veleðla, réttbornir erfingjar krúnu og konungdæmis.

Þörfin fyrir rökræður verður síst vanmetin. Hins vegar viljum vér benda á að mikil ávörp og titlatog í upphafi innleggja geta tafið fyrir og jafnvel eyðilagt góða umræðu. Þannig er óþarft að ávarpa stjórnendur sérstaklega utan þess að setja fram stutt almennt ávarp þar sem skrúðmælgi öll hefur þann tilgang fremstan að vera viðkomandi til háðungar, sbr. orðtækið "oflof er háð". Enda er það svo að hinar meintu hátignir eru mannleg ekki síður en við hin. Margrét danadrottning er þannig bara keðjureykjandi frístundamálari eins og hundruðir annara húsmæðra í Danmörku, alveg sama hvað hún er kölluð "veleðla" eða" yðar göfgi". Kalli bretaprins er ekkert annað en misskilinn mömmustrákur með áhuga á hestaíþróttum og með óhamingjusamt hjónabanda að baki, rétt eins og hundruðir annar breta. Öll "His royal highness" ávörpin er ekkert annað en lífsins kaldhæðni að senda honum fokkmerki, þar sem hann eyðir æfi sinni í að bíða eftir að taka við af mútter sinni og svo þegar hún geyspar golunni þá verður Vilhjálmur sonur hans tekinn fram fyrir hann en konungdæmið ella aflagt. Já jafnvel sjálf Ingibjörg Sólrún, sóldrottningin af Íslandi, þarf að sætta sig við það að hafa ekkert fram að færa í íslenskum stjórnmálum, þrátt fyrir að stuðningsfólk hennar tali um hana sem "sólina sjálfa".

Varist því titlatog, vinir góðir. Ávörpum oss öll jafnt með kveðjunni sem Frelsarinn kenndi okkur við Gestemane-vatnið; "Yo, wassup niggaz!".

Gert í Lýðveldinu Baggalútíu að kveldi hins 18. desembris á hinu 2005 ári frá hingaðkomu meistara Jesú Krists, sem fæddur var á dögum Pontíusar Pílatusar, sem kvaðst vera Messías og var krossfestur fyrir syndir sínar, og, eftir að hafa verið dáinn og grafinn, reis upp til himna, þar sem hann situr við hlið föður síns, þaðan sem hann mun aftur upp rísa og til jarðar koma til að dæma lifendur og dauða.

Throughout your life advance daily, becoming more skillful than yesterday, more skillful than today. This is never-ending.
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Úlfamaðurinn 31/5/06 16:30

Lifendur: þá sem hafa virkjað merkabasvið sitt
dauða: þá sem enn hafa ekki gert það
En dæma? Veistu það, neeeeeeeeeei. Jesús dæmir nefnilega engann. Hefurðu ekki tekið eftir því Voff að einasta starfið sem Jesús vann örugglega ekki í Biblíunni, er einmitt sem dómari? Væri Jesús dómari í Hæstarétti þyrði enginn lögfræðingur að heimsækja Hæstarétt

kær kveðja,

matrixs@mi.is

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Úlfamaðurinn 31/5/06 16:32

Lifendur; þeir sem sluppu úr viðjum Matrixunnar
dauðir; þeir sem enn hafa ekki gert það

HVAÐ EF DAUÐIR MENN ERU EKKI TIL VEGNA ÞESS AÐ ÞAÐ EINA SEM FÓLKI FINNST AÐ SÉ DAUTT SÉU LÍKAMIR SEM HREYFA SIG EKKI LENGUR?

kær kveðja,

matrixs@mi.is

» Gestapó   » Vísindaakademía Baggalúts   » Hvað er nýtt?
Innskráning:
Viðurnefni:
Aðgangsorð: