— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Ívar Sívertsen
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skáldjöfur.
Pistlingur - 5/12/09
Eurovision söngvakeppnin 2010

Gagnrýni á lögin.

1. Moldova. Sunstroke Project & Olia Tira með Run away. Lag sem byrjar á þessum endalausa umfh umfh umfh takti sem því miður allt of margir nota. Og viti menn... Eurovision 2010 byrjar á fiðlu. Kjánalegur saxófónn í upphafinu. Sæmilegasta lag en ekkert mikið meira en það. Það er tvísýnt um það hvort það fari áfram upp í aðalkeppni.

2. Rússland. Peter Nalitch & Friends flytja Lost and forgotten. HVAÐ Í FJÁRANUM? Náungi sem ræður illa við að syngja í þeim stíl sem hann notast við. Verstu bakraddir í sögu mannkyns. Lag sem gerir nákvæmlega ekkert fyrir mann. Svo eru þeir klæddir eins og þvottavélin þeirra hafi bilað. Að lokum vil ég segja að þetta hljómar eiginlega eins og léleg stæling á lögum og flutningi Mikis Theodarakis hinum gríska. Rússar féllu líklega niður um deild ef það væri hægt með þessu lagi! Megi þetta lag týnast og gleymast um alla tíð!

3. Eistland. Malcolm Lincoln flytur lagið Siren. Hér er komið lag sem er ólíkt öllu því sem ég hef heyrt í Eurovision söngvakeppninni og hef ég þó marga fjöruna sopið í þeim efnum. Þetta lag er dálítið eins og blanda af lögum frá Depeche Mode, David Sylvian, Dexy‘s Midnight Runners og fleirum ættuðum af nýrómantíska tímabilinu. En það er samt eitthvað ferskt við þetta. ÉG spái þessu áfram.

4. Slóvakía. Kristina Pelakova syngur Horehronie. Sæt flautubyrjun og dálítið þjóðlegur taktur og þjóðlagalegt undirspil. Takturinn reyndar er umfh umfh skotinn en maður fyrirgefur það þar sem lagið er alveg bærilegt. Það skilur hins vegar ekki eftir sig neitt sem maður getur sönglað. Kannski spila þeir inn á að senda þjóðlegt lag með sætri stelpu... hver veit. Þetta rennur upp.

5. Finnland. Työlki Ellää skella á okkur laginu Kuunkuiskaajat. Eftir þó nokkur metal og diskó ár þá smella þeir sér í þjóðlagagírinn. Finnsk þjóðlagatónlist finnst mér mjög skemmtileg og því get ég ekki annað en sagt að hér sé alveg hreint dásamlegt lag. Tvær þrælvanar þjóðlagasöngkonur sem eitt sinn voru í sönghópnum Värtinä. Þetta er kannski engin dans hittari en þetta er einimtt fyrir okkur hin sem viljum heyra svona skemmtun. Upp fer það að mínu mati.

6. Lettland. Aisha syngur What for? Þetta lag er í raun lítið sætt lag. En í gegnum erindin á laginu heyrist alltaf í „the machine that goes BING“, mjög hvimleitt. Þetta er líklega blaðra sem fer upp úr forkeppni en ekki mikið lengra en það.

7. Serbía. Milan Stanković syngur lag Goran Bregović Ovo je Balkan. Nú verð ég að segja að ég er alls ekki hlutlaus því ég held mikið upp á Goran Bregovic. En þetta lag finnst mér alveg frábært og líklegt til afreka. Dr. Gunni vildi meina að ferðamálaráð Serbíu hafi hannað þetta lag. Það má vel vera en þetta er lag byggir á þessari dásamlegu lúðrahefð sem Balkanlöndin eiga og í raun nota þeir flest trompin úr þjóðlagatónlist Serbíu. Ég held að þetta lag fari ekki bara upp úr forkeppni heldur lendi í TOP 3.

8. Bosnía-Herzegóvína. Vukašin Brajić flytur lagið Thunder and Lightning. Þetta lag byrjar á strengjum og óöruggum söng. Það fer að hvarfla að manni að þetta verði eitthvað skelfilegt. En svo þéttast strengirnir og þetta leiðist út í rifinn gítar og power trommur. Þetta er eiginlega eðal hetjurokk frá Bosníu. Það eina sem truflar mig er röddin í gaurnum, hann hefur ekki nægilega þétta og örugga rödd í þetta. En það sem ég fíla í tætlur við þetta lag er vissulega metal-skírskotunin og síðan að það eru tvær hækkanir í því... Upp úr forkeppni og verður um miðbik í aðalkeppninni.

9. Pólland. Marcin Mroziński flytur Legenda. Vá! Þetta lag byrjar á einhverju sem mætti líkja við þjóðlagasöng en leiðir svo út í eitthvað sem hinn venjulegi blöðruhlustandi á mjög erfitt með að hlusta á. Mjög flott finnst mér. Viðlagið er síðan blanda af þjóðlagasöng og kraftmiklum söng, mjög grípandi. ÉG spái þessu lagi upp úr forkeppni og í TOP 3 í aðalkeppninni!

10. Belgía. Tom Dice flytur Me and my guitar. Þetta lag er dálítið eins og Damien Rice að syngja lag eftir Seal. Mér finnst þetta eiginlega hvorki fugl né fiskur. Þetta er eiginlega bara útþynnt blaðra því að Damien Rice er ágætur á sínu sviði og Seal er frábær á sínu sviði en þegar þessu er skellt saman þá fara mann út af sviðinu. Ég býst við því að þetta fari því miður upp úr forkeppninni en svo floppar þetta í aðalkeppninni.

11. Malta. Thea Garret syngur My Dream. Hvers vegna í fjáranum þurfa Maltverjar alltaf að senda einhverjar miðaldra konur sem allar langar til að vera Celine Dion? Lagið finnst mér hræðilegt. Ég held að það geti eingöngu virkað í draumi þeirra að komast upp úr forkeppninni. Útsetningin er hræðileg því það er svo augljóst að strengjasveitin er spiluð bara af einhverju crappy hljómborði. Og svo er verið að notast við Eurovisionformúlu frá því í kringum 1980... það er ekki að virka!

12. Albanía. Juliana Pasha syngur It‘s all about you. Lagið byrjar alveg ágætlega og vex bærilega. Svo kemur gítarsóló sem er eins og Mike Oldfield spilaður of hratt. Ég skellti upp úr þá. En lagið er grípandi og fínn kraftur í því. Aðeins rifinn gítar og talsvert um raddsetningar og skemmtilegar bakraddir. Söngkonan reyndar víbrar full mikið fyrir minn smekk og gæti það hamlað laginu í keppninni sjálfri. Upp fer það en ekki mikið eftir það.

13. Grikkland. Giorgos Alkaios & Friends flytja lagið OPA. Svartklæddir Grikkir með þjóðlegt lag í umfh umfh umfh stil og undirleikurinn er umfh. En hér er smellin blanda á ferð. Lagið skilur eftir sig dálítið OPA og þegar farið er að spila á þjóðlegt strengjahljóðfæri þá brýtur það upp lag sem var við það að verða einhæft. ÉG spái því áfram.

14. Portúgal. Filipa Azevedo syngur Há Dias Assim. Róleg ballaða með heilt fjall af smjörfiðlum. Stelpan syngur þetta vel framan af. En síðan fer hún að rembast við R‘n‘B strófur og klúðrar þeim alveg. Smjörfjallið drukknar síðan í undirspili sem líklega er fengið að láni frá Whitney Houston. Portúgal hefði betur setið heima þetta árið. Þeir fara ekki upp.

15. Makedónía. Gjoko Taneski syngur Jas Ja Imam Silata. Það er dálítið eins
og þeir hafi hlustað mikið á Í svörtum fötum og smellt síðan Blaz Roca inn í dæmið. Síðan enda þeir á því að fá Yngvie Malmsteen til að taka sóló... Power popp sem gæti svo sem alveg virkað en ég held að það nái ekki langt. Það er eitthvað sem mér finnst of cheesy við þetta lag.

16. Hvítarússland. 3+2 flytur Butterflies. Enn eitt lagið með strengjasveit. Það eru all mörg lög hér að framan búin að taka strengjasveitir og þetta virðist vera ákall um að fá hljómsveitir aftur í hljómsveitargryfjuna í Eurovision. Þarna eru líka fantablásarar. En lagið er leðja og eiginlega bara afrit af ballöðuvælupoppinu sem sullast um Vestur-Evrópu og Bandaríkin um þessar mundir. Raunar er viðlagið í anda einhverra endalausra friðarsöngva sem eru svo fullir af sigri og föðurlandsást... Eiginlega eins og lokalag í einhverri bandarískri vellu þar sem aðalhetjunni er bjargað á undursamlegan hátt og fósturjörðinni er borgið... bjakk! Þetta lag á ekkert erindi upp úr forkeppni!

17. Ísland. Hera Björk Þórhallsdóttir flytur Je ne sais quoi. Þegar ég heyri þetta lag þá sönglar í hausnum á mér This is my life og því miður verð ég að segja að þetta er allt of líkt til að virka. Hera syngur þetta alveg frábærlega reyndar en lagið finnst mér ekki neitt neitt. Ég söngla líka alltaf fyrir mér Sjonni sá hval, búrhval... En nei, því miður, ekki minn tebolli og ég held að það séu ansi margir á sama máli. Ég á því miður ekki von á okkar konu í úrslitunum.

18. Litháen. InCulto flytur Eastern European funk. Áhugaverður smellur. Þeir byrja á því að nota eingöngu raddirnar í að útbúa undirspil. Eina hjálpartækið framan af er Kazoo. Síðan byrja þeir að spila hið ágætasta ska-funk. Lúðrar, gítar, bassi, trommur og síðan umfh umfh. En ágætis blanda. Mann langar eiginlega í bjór með þessu. Upp með það. Og það verður í Top 10.

19. Armenía. Eva Rivas syngur Apricot stone. Hér er lag sem ég held að eigi alveg möguleika á að ná langt. Þetta byrjar sem ballaða en fær umfh í sig og verður eiginlega hið ágætasta popplag. En hvað er með þennan aprikósustein?!? Hljómasetiningin í laginu er ekkert ólík því sem Stevie Wonder gerði í gamla daga. Síðan þessi þjóðlega flauta sem notuð er í byrjun og síðan í hækkuninni finnst mér alveg gera lagið. Það fer langt!

20. Ísrael. Harel Skaat flytur Milim. Þetta lag byrjar hægt, fer leiðinlega af stað og verður svo að leiðinlegu dinner væli. Ekkert meira um það að segja. Út með þá!

21. Danmörk. Chanée & N'evergreen syngja In a moment like this.Hér tefla Danir fram Abba lagi. Wanna know wanna know wanna know... Raddanir Abbalegar. Allt eiginlega eins og Abba hefði gert það í dag. Ágætis lag en full miklar skírskotanir í Abba fyrir minn smekk. Ekki svo að skilja að mér þyki Abba leiðinleg hljómsveit, þvert á móti. Þessir danir eru bara ekki með snefil af einhverju frumlegu í þessu lagi. Takk fyrir og út með þá!

22. Sviss. Michael von der Heide raular Il Pleut de L‘Or. Þunnt lag með frekar lélegum söngvara. Hins vegar er smá stef sem fær mann til að tralla með, eitt af þessum ralllararallararall stefjum. ÉG býst við að þetta rétt skríði upp en lendi síðan neðst í aðalkeppninni. Það fyndna er að gaurinn lítur út fyrir að langa til að líta út eins og Thom Yorke, vera Páll Óskar og syngja eins og Sergé Gainsburg.

23. Svíþjóð. Anna Bergendahl syngur This is my life. HEY, ég hef séð þennan titil áður! Alveg prýðilegt lag hjá svíunum í ár. Ekkert ofboðslega mikið sótt til Abba og útsetningin vel ígrunduð og vel heppnuð. Ef þessi stelpa sleppti því að skríkja á háu tónunum eins og Maryah Carey þá væri þetta æði. Reyndar stela þeir svolítið áferðinni úr Is this true, og þá sérstaklega í bakröddunum. En ég held að þetta geti gert fína hluti.

24. Azerbajan. Satura syngur Drip Drop. Þetta er pínulítið eins og Sigur-Rós og Beyoncé eða Shakira myndu slá saman í lag. Áhugaverð blanda en lagið er lélegt finnst mér. Það er flakkað úr einum stíl í annan og útsetningin er ekki hæfandi þessu lagi. Tveggja daga vinna í laginu sjálfu hefði líklega skilað sér í góðu verki en nei, þetta er ekki þess legt að fara neitt. Klárlega pissupása!

25. Úkraína. Alyosha flytur Sweet people. Blús? Jú, ég held það bara. Eitthvað í ætt við það sem Janis Joplin hefði gert ef hún hefði verið á ferli í dag. Þetta er svo sem sæmilegt lag sem minnir reyndar um margt á það sem Emiliana Torrini hefur verið að gera í bland við pínu Zeppelin. Þetta lag er þess legt að vera fílað af rokkhundunum, blúshundunum og powerballóðufíklunum en falla því miður dautt hjá umfh umfh fólkinu. Ég spái því upp en ekkert lengra.

26. Holland. Sieneke syngur Ik ben verliefd (Sha-la-lie). Ef ég vissi ekki betur þá myndi maður halda að hér væri Geirmundur Valtýsson mættur enn á ný. Hollendingar ætla að stóla á Skagfirsku sveifluna. Lagið er svo sem bærilegt í þeirri kategoríu en á mælikvarða Eurovision er það eiginlega skelfilegt. Mér liggur við að halda að hér sé verið að gera grín að Eurovision. Kommonn! Hollendingar verða neðstir af öllum neðstum!

27. Rúmenía. Paula Seling og Ovi flytja Playing with Fire. Lag um fólk sem er að tala saman... Þetta lag hefur eitthvað grúv sem ég fíla. Lagið sjálft er hins vegar aumt og lítið við það. Síðan þegar aðalsöngkonan brestur í einhvern hátónahávaða þá keyrir um þverbak. Þetta verður pissupása... löööng.

28. Slovenía. Ansambel Žlindra & Kalamari flytja Narodnozabavni Rock. Nei andskotinn... er verið endanlega að djóka í okkur? Status Quo, Oktoberfestbandið og félagar?!? Ég reyndar sprakk úr hlátri þegar helvítis októberfestliðið byrjaði. En lagið er stef sem maður hefur heyrt milljónsinnum og mér finnst þetta eiginlega í besta falli bjánalegt og hananú!

29. Írland. Niamh Kavanagh syngur It‘s for you. Þessi söngkona hefur áður keppt í Eurovision og gerði góða hluti þá. Hún söng einnig inn á lög úr myndinni Commitments hér um árið. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég heyri í þessari söngkonu. Lagið er dæmigerð írsk powerballaða en svei mér ef hún er ekki bara flott. Glæsileg útsetning og alveg stórbrotinn söngur. Þetta verður klárlega á TOP 10.

30. Búlgaría. Miro syngur Angel Si Ti. Búlgarskur smjörvi syngur hér lag sem er fullt af krafti og ágætis pródúksjón. Lagið er einhæft en nothæft. Stór galli á því er að það er rúma mínútu að koma sér af stað... það eru 33,3% af laginu. Svo skilur lagið mann eftir í einhverri óvissu því það er eins og það hafi ekki verið klárað. Þetta fer áfram en ég veit svei mér ekki með framhaldið.

31. Kýpur. Jon Lilygreen and the Islanders flytja Life looks better in spring. Það mætti halda að Take That væru komnir aftur. Robbie Williams effektinn er á fullu þarna. Svo má greina áhrif frá Justin Timberlake og öllum þessum strákaböndum. Lagið er þunn vella og óttalega leiðinlegt. Mætti ég þá biðja um umfh umfh eða metal!

32. Króatía. Feminnem flytja Lako Je Sve. Þrjár stelpur rembast við að reyna að vera Celina Dion og allar stelpnasveitir sem til eru. Lagið er dálítið hetju lag og svo sem ágætis lag í það heila en flutningurinn finnst mér slappur. Ég held þær fari áfram út á útlitið.

33. Georgía. Sofia Nizharadze syngur Shine. Þetta lag byrjar fallega og er með sellói. ÉG er alger sökker fyrir selló í popp og rokklögum. Þetta lag er ágætis ballaða sem myndi passa vel í Disneymynd til dæmis. Mér finnst þetta lag eiginlega alveg ágætt og vil að það komist áfram. En ég er hins vegar ekkert viss um það því minn smekkur rímar ekki við það sem fer upp úr undankeppnunum yfirleitt og því held ég að það sitji eftir...

34. Tyrkland. maNga flytur We could be the same. Tyrkir hafa alltaf verið innundir hjá mér. Mér hefur oft fundist það sem kemur frá Tyrklandi vera algert konfekt. Nú senda þeir skemmtilegt rokklag sem minnir um margt á Linkin Park. En samt hafa þeir ákveðið tyrkneskt element við sig. Ég held að þetta lag fari pottþétt áfram upp og taki TOP 5, klárlega.

35. Frakkland. Jessy Matador flytur Alllez Olla Olé. Frakkar láta yfirleitt aldrei neitt stjórna sér og þeim er bara andskotans sama þó fólki finnist lögin skrýrin... eða hvað? Núna senda þeir lag sem er finnst mér afríkuskotið umfh popp. Mér hins vegar líkar þetta lag. Það er stuð í því og mikið af grípandi línum sem hægt er að syngja með. Þetta verður í baráttunni!

36. Þýskaland. Lena syngur Satellite. Þjóðverjar hafa mjög oft, eiginlega allt of oft verið með alveg ræpuhallærisleg og leiðinleg lög. En nú ber annað við. Nú hafa Þjóðverjar tromp uppi í erminni og eru með bráðsmellið lag sem þrátt fyrir nokkuð hraðan takt þá er það afslappað og skemmtilegt. Þjóðverjar eiga möguleika núna.

37. Noregur. Didrik Solli-Tangen syngur My heart is yours. Norðmenn ætla að spila inn á unga sæta strákinn aftur. Þetta er eiginlega eins og Garðar Thor Cortes þegar hann gaf út poppballöðurnar. Fullt af smjöri og vellu. Það er greinilega verið að reyna að gera eitthvað eins og Who wants to live forever eftir Queen. En það tekst ekki. Þetta verður enn eitt sigurfagnaðardisneylagið í þessari keppni. Strákurinn syngur ágætlega og lagið er sætt en ég held að það fari ekkert hátt .

38. Spánn. Daniel Diges syngur Algo Pequeñito. Eftir að spánverjar sendu Rodolfo hér um árið þá get ég ekki tekið spánverja alvarlega. En þetta lag er sætur vals frá Spáni. Allur flutningur alveg hreint ágætur og ég held að gömlu frænkurnar í rókókóstólunum kjósi þennan pilt í stórum stíl.

39. Bretland. Josh syngur That sounds good to me. Bretar hafa verið afskaplega misjafnir í þeim lögum sem þeir hafa sent í keppnina unandafin ár. Síðasta ár var þó Andew Lloyd Webber fenginn til verksins og skilaði það ágætis árangri þegar upp var staðið. Þetta sinn tefla þeir fram 19 ára stráklingi sem syngur lag eftir maskínuna sem átti poppmarkaðinn á árunum 1985 – 1995. Mennirnir sem sömdu ofan í Rick Astley og fleiri ámóta talentaða eiga lagið sem þessi Josh flytur. Lagið finnst mér ekki líklegt til afreka og eigi bara heima sem útvarpslag í einhverri sápuóperu. Þetta hljómar bara ekkert vel í mín eyru. Bretar fljúga lóðbeint á hausinn með þessu.

Nú hef ég útlistað öll lögin sem keppa þetta árið. Ég ætla ekki að spá fyrir um sigurvegara strax því ég ætla að melta þessi lög. En ég á jafnvel von á óvæntum úrslitum, t.d. Pólland eða ámóta lög.

   (17 af 287)  
5/12/09 02:00

Villimey Kalebsdóttir

Sívertsen. Ef það kemur þér á óvart. Þá er ég á móti Júróvisjon.
Til hvers erum við að taka þátt í þessari keppni ? Það kostar ÓGEÐSLEGA mikið !! Og það er ekki eins og við vinnum. og ef svo ótrúlega vildi til að við mundum vinna, hvar eigum við að halda keppnina ? Okei, segjum að okkur tækist að plata einhverja nágrannaþjóð okkar (afþví þær elska okkur svo mikið) til að halda þessa keppni fyrir okkur. Þá þyrftum við að fjármagna hana.
VÚHÚ! Afþví við erum svo rík.

sleppum þessum andskota.

5/12/09 02:00

Villimey Kalebsdóttir

Djöfulsins skítur. Fólk er svo heimskt.

5/12/09 02:00

Galdrameistarinn

Að fólk skuli nenna að fylgjast með þessu innantóma spangóli.
Keppni í lélegestu lagasmíðum og flutningi í heiminum væri frekar réttnefni.

5/12/09 02:00

Megas

Megas í Eurovision.

5/12/09 02:00

Ívar Sívertsen

Villimey og Galdri: Ef þið hafið ekki áhuga á þessu og eruð svona ofboðslega grumpy út af þessu þá skulið þið endilega láta vera að kommenta á þetta. Ég er bara að gera úttekt á lögunum sjálfum. Ég hef gaman af þessu og finnst frekar lélegt þegar áhugamál eru rökkuð svona niður í skítinn eins og þið gerið. Hvað sem sem fólki finnst um þessar lagasmíðar þá eru það yfirleitt útsetningar og flytjendur sem ná að skemma lögin. Það er vissulega rétt að sum þeirra eru hræðilega léleg en mér þykir skemmtilegt að skoða þessa hluti og pæla í þeim.

Megas: Já, Megas í Júróvisjón!

5/12/09 02:00

Álfelgur

Ég elska Júróvisíon!! Reyndar er ég sammála því að það er ekkert rosalega sniðugt að taka þátt í ár en fyrst það var ákveðið þá sé ég enga ástæðu til þess að vera með úlfúð út í það... Ég ætla að kommenta um lögin hjá þér Ívar þegar ég er búin í prófum og búin að skoða þau!

5/12/09 02:01

Villimey Kalebsdóttir

Ég var að setja útá að við tækjum þátt í júróvision afþví að það er svo dýrt! Ég var ekki að setja útá að þetta væri áhugamál þitt.
Mér finnst mikilvægara að halda heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu á lífi heldur en að taka þátt í júróvision.

Ég horfi alveg á júróvision og það hefur komið fyrir (sárasjaldan þó) að það hafa komið fram góð lög í þessari keppni.

En mer finnst þetta of dýrt! Það er mitt innlegg í þessar samræður!

5/12/09 02:01

krossgata

Eistland: Það var eitthvað kunnuglegt þarna sem ég kem ekki alveg fyrir mig. Kannski er eitthvað þarna sem minnir á Depeche Mode en ég heyri bara ekkert sem nálgast Dexy's.

Rússland: Mér varð bara hugsað til: Trolololololololo.

Finnland: Ég hef mjööög oft verið hrifin af því sem finnar senda. Líka þegar þeir hafa fengið 0 stig. Ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum með þeirra framlag... fyrr en nú. Eitt orð: hörmung. Kannski voru það þessar gervistelpur sem sungu gegnum nefið - veit ekki. A.mk. ég er í rusli yfir að geta ekki haldið finnum.

Lettland: Hunangsuppskrift. Ómerkilegt en upp fer það líklega. Jólakaka með glassúr gerir það alltaf. En þessi Jói frændi í textanum - það var bara pínlegt. Úff.

Serbía: Greip mig ekki. Satt best að segja verð ég að vera sammála Dr. Gunna - ferðamálaráðsbragur á því.

Ekki búin að vera svona dugleg eins og þú og hlusta á allt. Kannski hef ég það af á endanum. Það er satt að það sem kemur í þessa keppni er ekki alltaf stórvirki í tónlist. En ég hef nú lúmskt gaman af þessu samt.

5/12/09 02:01

krossgata

Jamm - nú hef ég komið þessu fyrir mig. Eistlenska lagið minnir mig á Talking heads.

5/12/09 02:01

Huxi

Takk fyrir þessa stórgóðu úttekt. Fínt að hafa þetta við hendina þegar maður horfir á þáttinn hans Palla. Flott framtak og svo verður gaman að sjá hversu sannspár þú ert. Takk fyrir mig.

5/12/09 02:02

Lopi

Dugnaður er þetta.

5/12/09 02:02

Isak Dinesen

Þetta er einhver ótrúlegasta tímaeyðsla sem ég hef orðið vitni að.

5/12/09 04:00

Lopi

Engin gítarsóló takk. Bara fiðlusóló.

5/12/09 04:00

Grágrímur

Ég hef aldrei haft mikið þol né vit á þessu og hef bara heyrt íslanska lagið ... hálft... slökkti því það er alveg ferlega lélegt.

Sorglegt eons og Hera var nú efnileg söngkona að hún láti hafa sig út í að syngja svona hörmulegheit.

5/12/09 01:00

Garbo

Þú ert svo duglegur Ívar.

5/12/09 01:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ég er svosem ekki mótfallinn Júróvísíón per se; tel margt í veröldinni skaðlegra.

Í ár finnst mér að hefði verið upplagt að senda Hvanndalsbræður fyrir Íslands hönd - ekki útaf fiðluspilinu nótabene, heldur vegna glaðlegs kæruleysis þeirra bræðra.

´Sjö-nö-sei-kva´ er alltof mikið winner-wannabe, miðað við hvað lagið er í raun fátæklega endurunnið – einsog Ívar bendir réttilega á. Frumgerðin, ´Ðis is mæ læf´, fúnkeraði reyndar ágætlega á sínum tíma & gerði góða hluti – en þarsem Ísland náði silfursæti í fyrra með stórfínum performans JG á ´Is sjitt trú?´, þá hefði klárlega verið sterkari leikur að taka aðeins afslappaðri pól í hæðina á þessum tímapunkti.

Jamm.

5/12/09 06:01

Gizur Sigurz

Við hefðum átt að senda strengjakvartett með verk eftir Hauk Tómasson!

5/12/09 08:02

Billi bilaði

18. Litháen: Var að heyra þetta í þættinum hjá PÓH rétt áðan, og þetta er bezta júgrasýnarlag síðan danska parið kom með "ég mun aldrey sleppa þér".

Vonandi vinnur þetta lag!

6/12/09 02:00

Gizur Sigurz

Jæja... þú ert bara ógeðslega EKKI sannspár!

Ívar Sívertsen:
  • Fæðing hér: 11/8/03 12:21
  • Síðast á ferli: 22/6/23 12:25
  • Innlegg: 12356
Eðli:
Ákaflega fagur ungur maður með mikinn metnað og kann sig á allan hátt. (hann lærði það á kvöldnámskeiði hjá Bréfaskóla SÍS)
Fræðasvið:
Ég veit allt, get allt og kann allt en fer rosalega leynt með það og kann að fela það vel.
Æviágrip:
[i]Fæddur að handraðanesi á sóðbrókarströnd í Ristilfirði. Lést skömmu síðar. Reis upp frá dauðum eftir korter og bað um brauð. Eftir það var ekki aftur snúið. Hann hefur síðan verið ánetjaður Baggalúti og virðist ekkert vera að skána.Hann fékk sér fæðingarblett á kinnina skömmu áður en hann lét taka hann af sér. Hann hló skömmu eftir það. Ívar hefur nú hafið búskap á Eyðibýli á Auðkúluheiði. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur en hann er all oft kenndur. Sívertsenættin hefur lýst hann útlægan og krafist þess að hann afsali sér ættarnafninu og taki upp nafnið Nestrevís en hann hefur margsinnis hafnað því. Ef þú ert að lesa þetta ennþá þá ert þú líklega jafn skemmdur og Ívar... ef ekki skemmdari barasta. Ertu enn að lesa? Nei nú læt ég leggja þig inn á geðdeild! Það er ekki heilbrigt að lesa svona langt! Viltu hætta þessu! HÆTTU SEGI ÉG!!! Ef þú ert enn að lesa og finnur ekki fyrri vott af þreytu þá skal því bætt við að þegar Gestapó var opnað í árdaga þá gerðist Ívar fastagestur hið snarasta. Hann hefur æ síðan verið einn virkasti gestapóinn og ritað mikið. Hins vegar er ljóst að hann kemur til með að auka viðveru sína á Gestapó á komandi árum því nú hefur hann komið sér í innivinnu við tölvu. Ertu enn að lesa þetta? ÉG held svei mér að þú ættir í alvöru að leita þér hjálpar. Ég er löngu hættur að lesa þetta... ég veit ekki einu sinni hvað stendur eftir línu þrjú. En hvað um það. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og eiginlega svo mikið að það er ekkert salt eftir í sjónum, það lagði á flótta upp í ár og stöðuvötn þannig að nú er sjórinn pakkfullur af ferskvatnsfiskum og ferskvatnshvölum. En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Megasi keisara, að skrásetja skyldi alla drykkina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Gylfi Ægisson var blandstjóri í Stúdjó Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta stjaksetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Rúnar Þór úr Litlu Hraunum frá Hótel Borg upp í Morgunblaðshús, til borgar Davíðs, sem heitir Hádegismóar, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu hjákonu sinni, sem var þung. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Ældi hún þá bjór sinn frumdrukkinn, sagði hann vondan og lagði hann í fötu, af því að eigi var romm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru barþjónar úti í haga og gættu um nóttina drykkja sinna.Og vörður laganna stóð hjá þeim, og dýrð Áfengis ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög fullir, en löggimann sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag afréttari færður, sem er Hristur og hrærðu, í Mogga Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna gubb vont, lagt í fötu. Og í sömu svipan var með löggumanninum fjöldi himneskra hljómsveita, sem lofuðu stuð og sögðu: Dýrð sé stuði í Hádegismóum, og fiður á Davíð og mönnum sem hann hefur velþóknun á. Þannig hljóðar hið heilaga stuðspjall. Og þegiðu svo!