— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Ívar Sívertsen
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skáldjöfur.
Pistlingur - 3/11/04
Félagsrit á jóladag

Það er hryssingslegt veður úti og fátt annað hægt að gera en að garfa í því hvaða jólagjöf maður fékk frá hverjum og líta aðeins við á Gestapó.

Ég var afskaplega hamingjusamur með þær jólagjafir sem ég fékk. Ég fékk bókina um Hannes Hafstein, peysu, myndavél (magnað atvinnumannatæki), kakópott (sem Hexia fékk með mér), kertastjaka og dagatal svo eitthvað sé nefnt. En hvað tákna þessar gjafir? Jú þær tákna hlýhug einhverra í minn garð.

En það eru til fleiri leiðir til að sýna hlýhug. Jólakort er ein leið, ég fék helling af jólakortum sem mörg hver innihéldu myndir af börnum sendenda. Mér þykir gaman að sjá hvað börn vina og ættingja braggast vel. Önnur leið til að sýna hlýhug er að hitta fólk og taka utan um það og segja því að manni þyki vænt um það.

En þetta eru bara aðferðir sem tíðkast í okkar menningarheimi. Reyndar virðast faðmlög vera notuð hvar sem er og eru því alþjóðleg tjáning á væntumþykju, sé rétt að verki staðið.

Í okkar ört stækkandi menningarheimi er hægt að nota félagsrit til að sýna bæði gremju og hlýhug. Eftir að hafa hugleitt all lengi Gestapó og fólkið sem þar eys vísdómi yfir mannskapinn eða hellir úr skálum reiði sinnar þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér þykir afskaplega vænt um flesta af þaulsetnu gestunum, óháð framkomu í minn garð. Mér hefur stundum gramist afstaða sumra gestapóa gagnvart mínum hugðarefnum og áhuga en þannig er lífið bara. Það getur ekki öllum líkað við alla. Ég ætla ekki að tíunda það hér hverjir eru í uppáhaldi hjá mér og hverjir ekki. Það er vegna þess að ég gef fólki alltaf annað tækifæri þó svo sumir hafi fengið alveg ofboðslega mörg önnur tækifæri í mínum huga.

Illindi þau sem blossað hafa upp hér á jólahátíðinni hafa sett mark sitt á skrif og framkomu okkar. Deilan stendur um félagsrit sem var að mati margra frekar lasburða. Gagnrýni á það félagsrit varð til þess að annað félagsrit var ritað sem mér þykir reyndar afskaplega lasburða líka.

Ef við lítum á þær óformlegu vinnureglur sem ritstjórn hefur sett okkur þá tókst báðum aðilum að brjóta þær allar þrjár.

Félagsrit skulu vera fræðandi, skemmtileg og innihaldsrík.
Hvorugt félagsritið uppfyllti þessi skilyrði.

Félagsrit skulu ekki innihalda blaður, orðagjálfur, tittlingaskít ellegar argaþras.
Bæði félagsritin innihéldu blaður um óþarfa leiðindi, annað innihélt orðagjálfur um aðra og framkomu þeirra sem mér finnst óttalegur tittlingaskítur og svo argaþras sem a.m.k. annað félagsritið inniheldur.

Félagsrit skulu vera höfundi sínum til sóma.
Hvorugt félagsritið er höfundum sínum til sóma.

Mér finnst þessar reglur eiga svolítið við um ummæli annara á félagsritinu. Það er fátt leiðinlegra en blaður, orðagjálfur, tittlingaskítur og argaþras sem er tilgangslaust, leiðinlegt og innihaldslaust og höfundi sínum engan veginn til sóma. Þetta á augljóslega við um félagsrit sem annað hvort orka tvímælis eða deilur kunna að rísa upp um. Sjálfur hef ég gerst sekur um brot á öllum reglunum bæði í félagsritum sem og ummælum en hef reynt að forðast það í seinni tíð. Ef menn þurfa að vera að kalla menn öllum illum nöfnum og hreyta ónotum og skít hver í annan þá vil ég benda mönnum á einkapóstkerfið. Við hin eigum ekki að þurfa að sjá þetta.

Hér á Gestapó hafa verið reyktar friðarpípur og stríðsaxir grafnar af og til. Þetta hefur gerst í félagsritum sem og í einkapósti. Það gæti orðið höfundum til sóma ef þeir létu af þessum illdeilum og sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu og friðmæltust á þessari hátíð kærleikans.

Mér hlýnaði um hjartaræturnar við að lesa ummæli félaga minna hér á Gestapó við síðasta félagsriti mínu um neyslusamfélagið. Ég kann afskaplega vel að meta klapp á bakið. Ég fór sáttur inn í jólin við menn og dýr. Það að vera í sátt við alla gefur mér afskaplega mikið.

Það að friðmælast sýnir vott um hlýhug í garð náungans. Þegar styrjöldum hefur lokið hefur maður oftar en ekki séð hermenn fallast í faðma og biðjast fyrirgefningar. Þegar andstæðingar í stjórnmálum hafa háð harða rimmu en ná loksins sáttum er ekki óalgengt að sjá þá fallast í faðma eða a.m.k. taka vinarlega í hönd hvors annars. Hlýhugur í garð náungans er það sem öllu máli skiptir svo samskiptin verði eðlileg en ekki þvinguð eða beinlínis leiðinleg.

Þeir sem ekki geta sýnt öðrum umburðarlyndi eiga ekki að vera í samfélagi með öðrum. Umburðarlyndi er grundvallaratriði í samskiptum manna, hvort sem er í hjónabandi, á vinnustað eða í netsamfélaginu. Þeir sem ekki geta farið eftir vinsamlegum tilmælum um framkomu eru oftar en ekki útskúfaðir úr samfélögum eða sagt upp starfi sínu. Þess vegna verða menn að sýna umburðarlyndi og aðlögunarhæfni. Skortur á þessum tveimur megingildum í mannlegum samskiptum skilur alltaf eftir einhver sár.

Ef þið eigið í illdeilum við einhvern eða hafið orðið ósátt á einhvern hátt þá legg ég til að þið notið jólin til að greiða úr þeim málum. Ég veit það mjög vel ef biturri reynslu að manni líður alltaf miklu betur eftir að hafa lagað til í sálartetrinu.

Já, ég ætla núna að fara í peysuna sem ég fékk, kveikja á kerti í kertastjakanum, líta á dagatalið og merkja við merkisdaga og hengja það upp á vegg. Svo ætla ég að skoða myndirnar sem ég tók í gærkveldi og taka jafnvel fleiri. Ég er að vonast til að Hexia útbúi jólakakó handa okkur og þegar það er tilbúið ætla ég að setjast niður með kakóbolla og bókina um Hannes Hafstein og gleyma mér yfir henni.

Megið þið eiga friðsæl og gleðileg jól.

   (154 af 287)  
3/11/04 01:01

Herbjörn Hafralóns

Fínt félagsrit og ekkert út á það að setja. Ég held svei mér þá að þú sért efni í góðan prest, Ívar.
GLEÐILEG JÓL!

3/11/04 01:01

Ívar Sívertsen

Gleðileg jól Herbjörn minn... ég mæti í messu á eftir... [flissar]

3/11/04 01:01

Heiðglyrnir

Kæri Ívar minn. Þetta félagsrit er þér til sóma og allir ættu að sýna sóma sinn, með því að lesa það og setja hér inn staðfestingu á því.
.
Riddarinn vill til öryggis biðja alla afsökunar, á öllu sem því sem hann hefur gert og gæti hafa komið við einn eða alla gestapóa.
.
Það er gott að lesa þennan jólalega pistil hans Ívars, við erum nefnilega ekki alltaf sammála og okkur hættir til að stökkva upp á nef okkar, svona endrum og eins.
.
En við leysum okkar mál og leggjum í það vinnu að finna til þess leiðir. Riddarinn leyfir sér að fullyrða að þetta hefur með tímanum skapað gagnkvæma virðingu, væntumþyggju og vinarþel á milli okkar. [Skálar við Ívar í huganum með kakó í bolla]
.
Það að fremja alteregó sjálfsmorð, skrifa dramatískt félagsrit og smella svo á jarðarför í síðasta skipti, með tárin í augunum, er ótrúlega algengt hér á Gestapó. þennan ósið mætti svo sannanlega leggja af og fáir myndu hans sakna.
.
Leysum okkar mál eins og sæmir Gestapóum, tökum langvarandi drama og fíluköst úr umferð og göngum heil til leiks.
.
Gleðileg Jól.

3/11/04 01:01

Offari

Gleðileg Jól. Ívar vinur þakka þér fyrir glæsilegt félagsrit. Þó svo að ég sé ekki hrifinn af öllum félagsritum þeim er rituð eru hér getur verið að ritarinn sé stoltur af sínum skrifum, líkt og við erum stoltir af okkar skrifum. Hér ritar fólk á öllum aldri og því eru félagsritin mis þroskuð, sum jafnvel betri en okkar.
Ætli þeim finnist okkar rit ekki vera asnaleg?
Takk fyrir.

3/11/04 01:01

Þarfagreinir

Mæl þú allra manna heillastur, Ívar Sívertsen. Mér þótti mjög miður að sjá það aurkast sem þú reifar hér, og það bætti sannarlega gráu ofan á svart að það skyldi hafa átt sér stað um jólin.

Ég tek undir þá áskorun að fólk íhugi nú sinn eigin gang og framkomu í garð annarra.

Gleðileg jól.

3/11/04 01:01

Galdrameistarinn

Þakka þér fyrir frábært félagsrit Ívar og megir þú halda áfram að skrifa af slíkri visku til að miðla okkur fávísum almúga Baggalúts.

3/11/04 01:01

Jóakim Aðalönd

Þetta voru orð að sönnu Ívar. Ég reyndi að friðmælast í mínu síðasta félaxriti og vona að það hafi tekið það til sín sem eiga. Ég vil endurtaka ósk mína að þú og fjölskylda eigið gleðilega hátíð og farsæld á nýju ári.

Skál!

3/11/04 01:01

Jóakim Aðalönd

Ég vil einnig nefna að hlewagastiR er alls ekki jafn slæmur og hann virðist vera. Bak við óhrjálegan skráp blundar skarpgáfaður mál- og kvæðasnillingur sem hefur a.m.k. virðingu mína fyrir það. Hinn sótsvarti húmor og hryðjuverkastarfsemi sem fram kemur er þessi óhrjálegi lápur, skrápur, leppur, skreppur og leiðindaskjóða sem allir ættu að hunsa.

3/11/04 01:02

Kondensatorinn

Þakka fyrir þennan pistil. Stundum stekkur fólk upp á nef sér og situr þar sem fastast. Það er bara þroskamerki ef fólk kann að draga í land og sættast, biðjast afsökunar og vera gott við hvort annað.
Bestu jólakveðjur !

3/11/04 01:02

Rattati

Þetta er glæsilega ritað Ívar. Gleðilega miðsvetrarhátíð öllsömul og munið:
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir!

3/11/04 02:00

hlewagastiR

Ég er allra vinur!

3/11/04 02:01

Ívar Sívertsen

Það er gott að heyra Hlebbi... ég er nefnilega að reyna það líka.

Ívar Sívertsen:
  • Fæðing hér: 11/8/03 12:21
  • Síðast á ferli: 22/6/23 12:25
  • Innlegg: 12356
Eðli:
Ákaflega fagur ungur maður með mikinn metnað og kann sig á allan hátt. (hann lærði það á kvöldnámskeiði hjá Bréfaskóla SÍS)
Fræðasvið:
Ég veit allt, get allt og kann allt en fer rosalega leynt með það og kann að fela það vel.
Æviágrip:
[i]Fæddur að handraðanesi á sóðbrókarströnd í Ristilfirði. Lést skömmu síðar. Reis upp frá dauðum eftir korter og bað um brauð. Eftir það var ekki aftur snúið. Hann hefur síðan verið ánetjaður Baggalúti og virðist ekkert vera að skána.Hann fékk sér fæðingarblett á kinnina skömmu áður en hann lét taka hann af sér. Hann hló skömmu eftir það. Ívar hefur nú hafið búskap á Eyðibýli á Auðkúluheiði. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur en hann er all oft kenndur. Sívertsenættin hefur lýst hann útlægan og krafist þess að hann afsali sér ættarnafninu og taki upp nafnið Nestrevís en hann hefur margsinnis hafnað því. Ef þú ert að lesa þetta ennþá þá ert þú líklega jafn skemmdur og Ívar... ef ekki skemmdari barasta. Ertu enn að lesa? Nei nú læt ég leggja þig inn á geðdeild! Það er ekki heilbrigt að lesa svona langt! Viltu hætta þessu! HÆTTU SEGI ÉG!!! Ef þú ert enn að lesa og finnur ekki fyrri vott af þreytu þá skal því bætt við að þegar Gestapó var opnað í árdaga þá gerðist Ívar fastagestur hið snarasta. Hann hefur æ síðan verið einn virkasti gestapóinn og ritað mikið. Hins vegar er ljóst að hann kemur til með að auka viðveru sína á Gestapó á komandi árum því nú hefur hann komið sér í innivinnu við tölvu. Ertu enn að lesa þetta? ÉG held svei mér að þú ættir í alvöru að leita þér hjálpar. Ég er löngu hættur að lesa þetta... ég veit ekki einu sinni hvað stendur eftir línu þrjú. En hvað um það. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og eiginlega svo mikið að það er ekkert salt eftir í sjónum, það lagði á flótta upp í ár og stöðuvötn þannig að nú er sjórinn pakkfullur af ferskvatnsfiskum og ferskvatnshvölum. En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Megasi keisara, að skrásetja skyldi alla drykkina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Gylfi Ægisson var blandstjóri í Stúdjó Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta stjaksetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Rúnar Þór úr Litlu Hraunum frá Hótel Borg upp í Morgunblaðshús, til borgar Davíðs, sem heitir Hádegismóar, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu hjákonu sinni, sem var þung. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Ældi hún þá bjór sinn frumdrukkinn, sagði hann vondan og lagði hann í fötu, af því að eigi var romm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru barþjónar úti í haga og gættu um nóttina drykkja sinna.Og vörður laganna stóð hjá þeim, og dýrð Áfengis ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög fullir, en löggimann sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag afréttari færður, sem er Hristur og hrærðu, í Mogga Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna gubb vont, lagt í fötu. Og í sömu svipan var með löggumanninum fjöldi himneskra hljómsveita, sem lofuðu stuð og sögðu: Dýrð sé stuði í Hádegismóum, og fiður á Davíð og mönnum sem hann hefur velþóknun á. Þannig hljóðar hið heilaga stuðspjall. Og þegiðu svo!