— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Ívar Sívertsen
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skáldjöfur.
Pistlingur - 1/11/04
Umferðarmenning höfuðborgarsvæðisins

Pistill Gregory Maggotts um daginn kveikti hjá mér þörf til að koma frá mér mörgum orðum um umferðarmenninguna hér á höfuðborgarsvæðinu. Hér er um að ræða umferðarmenninguna frá sjónarhóli strætisvagnabílstjóra sem stundum keyrir jeppann sinn um bæinn.

Í starfi mínu þarf ég að fást við ökumenn af bókstaflega öllum stærðum og gerðum. Að keyra á álagstíma og reyna að halda áætlun strætisvagns byggir að talsverðu leiti á því að aðrir ökumenn séu liðlegir við strætóinn.

Það er misjafnt hvar maður er staddur á höfuðborgarsvæðinu hversu liðlegir menn eru.
Hafnarfjörður: Í Hafnarfirði eru menn mjög liðlegir að hleypa strætó fram fyrir og eru ekki með neinn derring. Vissulega eru undantekningar þar á en í flestum tilvikum fáum við að komast greiðlega út úr biðstöðvunum. Bílstjórum Hafnarfjarðar er ekki hægt að skipta eins mikið í flokka eins og ég kem nánar að á eftir. Það kunna margir að segja að ég segi þetta þar sem ég bý í Hafnarfirði en ég hef heyrt álit fleiri strætókalla og kellinga á þessu og allir eru sammála.
Garðabær: Garðabær skiptist í tvennt. Meginhluti Garðabæjar og svo Arnarnesið. Á Arnarnesinu gildir frumskógarlögmálið og enginn vill víkja til að hleypa öðrum inn í röðina, hvort sem er strætó eða einkabíll. Hvort sem um framkvæmdir er að ræða eða ekki. Það er afskaplega hvimleitt að sjá rándýra og nýbónaða ríkukallabílana koma á blússandi ferð frá Arnarnesinu í veg fyrir allt sem hreyfist því þeir eiga réttinn og enginn skal traðka á þeim, þeir vilja sko sýna að þeir eiga peninga og vilja ráða. Auðvitað er þetta ekki algilt en því miður allt of algengt. Hinn hlutinn af Garðabæ er allt öðru vísi. Meira í ætt við Hafnarfjörð en samt svolítið egósentrískur þannig að menn liðka til ef umferð er ekki mikil en ef hún er mikil þá þarf hver að passa sitt pláss í röðinni og má ekki færast aftar.
Kópavogur: Kópavogsbúar eru erfiðir. Þeir hleypa manni ekki neins staðar. Fyrir það fyrsta þá er sá hluti Kópavogs sem kallast austur- og vesturbær svo ruglingslegur að það er best að nota frumskógarlögmálið. En í hverfum sem kallast Smárar, Lindir, Salir og Kórar þá er allt frekar vel skipulagt en þar vilja menn alls ekki missa sitt pláss í röðinni þó svo að það sé engin röð. Sem dæmi á Fífuhvammsveginum inni í miðju Lindahverfi (þar sem er biðstöð strætó sem afmarkast með lítilli umferðareyju) þá er alveg sama hversu mikil umferð er þá eru ekki til liðlegheit í vegfarendum þar. Ég hef lent margoft í því að vera næstum því lentur í hörku árekstri þar sem ökumenn koma niður brekkuna og gefa í þegar þeir sjá að strætó ætlar sér inn á götuna. Kópavogsbúar eru einnig lang mestu bílflautuleikarar sem ég hef kynnst. Svo flýgur það manni í hug að kennd sé ákveðin gerð táknmáls í ökuskólum sem kenna Kópavogsbúum.
Reykjavík: Maður skyldi ætla að verst væri að keyra í Reykjavík. En, nei. Í Reykjavík víkja menn greiðlega oft á tíðum og til dæmis má nefna að á Miklubraut er sérstök akrein fyrir Strætó sem er rauð. Ökumenn virða það í flestum tilvikum að þetta sé einkabraut Strætó. Þegar komið er niður að Lönguhlíð skiptir það máli hvers konar einstaklingur er að keyra. Reyndar gæti maður hafa lent á Kópavogsbúa sem hleypir ekki eða Arnarnesbúanum sem vill sýna nýbónaða ríkrakallabílinn sinn. Þrír þjóðflokkareru þó hættulegastir í umferðinni gagnvart þeirri hugsjón að víkja og liðka til, ekki bara fyrir strætó heldur alla umferð. Fyrsti þjóðflokkurinn er strákar á aldrinum 17 - 23 ára. Þeir keyra eins og þeir eigi lífið að leysa á milli rauðu ljósanna og keppast við að sviga á milli bíla bara til að vera fremstir í röðinni. Stundum hugsar maður með sér að það ættu að vera flögg á götunni til að þeir hefðu þó einhverja svigbraut til að keyra eftir svona eins og skíðamenn hafa í brekkunum. Þessir ökumenn eru stundum með húfu ofan í augum eða dökk sólgleraugu, þó svo að komið sé kvöld. En eins og ég hef sagt áður, þá er þetta ekki algilt. Annar hættulegi þjóðflokkurinn eru karlar á aldrinum 45 og eldri sem hafa efni á því að kaupa sér stóran jeppa. Þeir (samkvæmt eigin hugsun) eiga götuna og enginn skal komast lengra en þeir. Meira er ekki hægt að segja um þá. Þriðji hættulegi flokkurinn eru konur frá 40 ára og upp úr. En augnablik, það eru ekki allar konur frá 40 og upp úr, heldur þær sem eru með Burberry treflana, eiga pels, eiga vínrauða leðurmittisjakka sem henta konum 10 árum yngri o.s.frv. Þær eiga ekki bara götuna og röðina, þær eiga umferðina. Sem dæmi má nefna að þær koma eftir götu, sjá strætó, verða smeykar, hægja á sér en víkja ekki, lulla fram hjá strætónum og auka svo aðeins ferðina þegar fram hjá strætónum er komið. Svo eru það konurnar í röðinni á Miklubrautinni sem eru aðeins of seinar að taka af stað þannig að strætó nær að stinga nefinu inn í röðina og þá er lagst á flautuna og farið með vikuskammt af fréttaágripi á táknmáli, fullorðinsútgáfuna. Þetta er líklega allt saman hópar sem þjást af miklu óöryggi í umferðinni. En það eru til einstaklingar í þessum hópum sem eru undantekningar.
Seltjarnarnes: Það er þægilegt að keyra á Seltjarnarnesi. Það er mjög svipað Hafnarfirði nema hvað þegar Seltirningar komast á aðalbrautina norðan á nesinu fá þeir annað hvort stífkrampa í bensínfótinn og keyra á þreföldum hámarkshraða og valda með því usla eða þá að þeir verða eins og letidýr á rítalíni.
Mosfellsbær: Þar keyrir maður að mestu í gegn, enda hef ég nú ekki strætóreynslu þar. En sem almennur ökumaður þá finnst mér Mosóliðið mjög afslappað í umferðinni og jafnvel full afslappað. Það er eins og einhver hafi stundum dreift maríúana á línuna.
Álftanes: Á Álftanesi er lítið um flautukonserta og táknmálsfréttir því þar búa svo fáir. En umferðin þar einkennist af hraða og tillitsleysi. Enn fremur er mikið af alls konar traktorum og skrýtnum apparötum á ferðinni þar á götunum. Ég hef keyrt strætó þar í einn dag en á oft einkaerindi á Álftanesið og þeim tekst oft og iðulega að koma mér á óvart með umferðinni.

Hraðahindranir, þrengingar og hringtorg
Þegar horft er til hluta á borð við hraðahindranir, þrengingar og hringtorg þá hlýtur Hafnarfjörður að bera af hvað slæmsku varðar í þessum málum. Hringtorgaæði Hafnfirðinga er gengið út í tóma vitleysu. Til dæmis þá er eitt torg í Hafnarfirði sem er mikil slysagildra. FH-torgið sem er við Kaplakrikavöll. Þar eru fimm leiðir inn og út úr því, þar af ein leið tveggja akreina. Og vegna þess að ein leiðin er tveggja akreina þá verður torgið vitanlega að vera tveggja akreina líka. En það skapar vandamál og tóma vitleysu þegar aka á út úr torginu á hinum leiðunum sem eingöngu hafa eina akrein. Þessum torgum hefur verið dritað niður eins og teiknibólum í kennarastól undanfarin ár og virðist ekkert lát vera á. Hraðahindranir í Hafnarfirði held ég að séu líka að nálgast íslandsmet viðað við landrými. Ef einhver sem þetta les (og nennir að lesa svona langt) hefur ekið Setbergshverfið í Hafnarfirði þá veit viðkomandi það að þar er nánast hættulegt að keyra vegna þess hversu mismunandi hraðahindranirnar eru. Einnig er það vont fyrir bakið að hossast svona mikið yfir hraðahindranir.
Stjórnmálamaður nokkur lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að það væri gott að búa í Kópavogi. En miðað við hraðahindranaruglið þar þá verð ég að segja að það hlýtur að vera skelfilega mikið af bakveikum þar. Hraðahindranirnar eru á svipuðu plani og í Hafnarfirði nema hvað í Kópavogi er greinilegt markmið að skemma bíla og gera alla bakveika. Hraðahindranirnar eru margar hverjar svo krappar að það liggur við að um sé að ræða rétt hyrndan kassa af múrsteinum í stað trapisulaga hraðahindrunar.
Reykjavík finnst mér hafa staðið sig vel í þessum málaflokki, að mestu. Reyndar eru þrengingar í Seljahverfi í Breiðholti sem mér finnst orka tvímælis, blómakerin sem þar eru. Reyndar hef ég ekki komið þar lengi þannig að það má vera að einhver hafi tekið sig til og sprengt þau. Í langflestum tilvikum eru hraðatakmarkandi framkvæmdir í Reykjavík skynsamlega ígrundaðar og framkvæmdar en auðvitað má finna undantekningar á því eins og öðru.

Ég hef því miður ekki næga þekkingu á hraðahindranamálum Mosfellinga og Seltirninga en Álftnesingar eru með mjög kjánalegar hraðahindranir og þær þrengingar sem gerðar hafa verið eru mjög tilraunakenndar og eru fjarlægðar fljótt eftir uppsetningu. Eitt dæmi um hraðahindrum á Álftanesi var í húsagötu þar sem svona litlir niðurboltaðir kubbar voru settir fremst í götuna. Það er skemmst frá því að segja að þeim var stolið. Þá var annar skammtur settur upp og malbikað yfir boltana. Enn fremur voru settar upp tvær þrengingar á einum stað. En þegar það kom hálka og einn bíll skemmdist þá voru þær teknar niður.

Það eru þó tvö umferðarmannvirki af þessari gráðu sem ég fæ aldrei skilið. Annars vegar er það „vartan“ í Nóatúni í Reykjavík. Hringtorg sem stórir bílar geta ekki beygt fyrir og aka yfir. Og hins vegar hringtorg á Vesturbraut í Hafnarfirði sem er ekki mikið stærra. Ég ek um á MMC Pajero og þarf ég að hafa mig allan við að geta tekið beygjuna þar ef ég þarf að fara 3/4 úr torginu.

Hér hef ég stiklað á stóru í nokkrum atriðum umferðarmenningar höfuðborgarsvæðisins. En ég vil enn og aftur ítreka að hér eru á ferð mínar skoðanir og því ber ekki að taka þeim sem skilaboðum frá messíasi. Ég veit vel að þetta eru sleggjudómar en samt sú reynsla sem ég hef af umferðinni. Til eru undantekningar á öllum reglum en fyrir mér eru þær afar fáar í þessum tilvikum.

Ég er ekki yfir aðra hafinn í umferðinni en ég ætlast til þess að aðrir sýni mér þá tillitssemi sem ég sýni þeim á götum úti og er ég fjandi duglegur við það... að mínu mati.

   (165 af 287)  
1/11/04 13:01

Ísdrottningin

Ég hlýt að vera mjög tillitssöm því að ég passa ekki í þessa niðurskipan hér. En Ísdrottning er að sjálfsögðu alveg sér í flokki svo það er ekkert skrýtið...[ljómar upp]

1/11/04 13:01

voff

Mikilvæg og þörf greining á vandamáli sem snertir fjölmarga. Það er spurning hvort þeir sem hanna þessi blessuðu mannvirki hafa ekið bíl og þá hvers konar bíl. Bílar eru alltaf að stækka. Mannvirkin virðist hins vegar miðuð við Austin Mini eða eitthvað álíka.

1/11/04 13:01

Stelpið

Ég hef nú alltaf kallað ,,vörtuna" atarna Spæleggið... en fínn pistill. Get samt ekki sagt að ég hafi mikið vit á umferðinni þar sem ég keyri eiginlega aldrei.

1/11/04 13:01

Steinríkur

Fínasti pistill.
Það vantar bara nokkur orð um hringtorgaæðið í Hafnarfirði. Ef maður keyrir frá Setbergi inn í Ásland og þaðan að Kleifarvatni er hægt að fara um 10-12 hringtorg.

En hvernig eru letidýr á rítalíni? Verða þau ofvirk eða ennþá sljórri? [hringir í Vlad og fer fram á prófanir]

1/11/04 13:01

Ívar Sívertsen

Það sem ég er að vísa í er að fólk ekur á 25 - 30 km/klst á stað þar sem er 50 km/klst hámarkshraði. Þetta veldur vandræðum og slysahættu. Sem sagt þá býst ég við að letidýr verði enn sljórri af rítalíni.

1/11/04 13:01

Vímus

Fróðlegur pistill.
Ég hef sjálfur keyrt strætó og veit því hvernig það er að reyna að halda áætlun á mestu annatímum.
Það sem ergir mig mest í umferðinni í dag eru jeppahálfvitarnir sem koma óorði á alvöru jeppaeigendur sem kunna að keyra.
Bíllinn minn er dældaður allan hringinn eftir jeppahálvita sem hafa bakkað á mig á bílastæðum.

1/11/04 13:01

Nermal

Ég er nú ekki búsettur á höfuðborgarsvæðinu en það eru viðbrygði að koma í borgina. Mikklabrautinn er kapituli utaf fyrir sig, ef maður ekur undir 100 km/h þá blússa allir frammúr manni... en maður sér svo viðkomandi á næstu ljósmum

1/11/04 13:01

Galdrameistarinn

Keyrði strætódollu í Kópavogi í rúmt ár og bakið er ónýtt.

1/11/04 13:01

Vímus

Ertu að meina bakið á bílstjórastólnum Galdri minn?
Hahahahehehehíhíha!

1/11/04 13:02

B. Ewing

Er sammála þessum pistli, gott framtak Ívar. Sjálfum finnst mér algerlega tilgangslaust að keyra áætlunarbíl fram og tilbaka um höfuðborgina. Þessvegna fékk ég mér (auka)starf á rútubíl. Var að koma úr 2 ferðum þessa helgi sem báðar lágu til Stokkseyrar. Þurfti í bæði skiptin að fara yfir allar 3 hraðahindranirnar á Stokkseyri og það á afar mjúkum bíl. Ég sendi öllum strætóstjórum samúðarkveðjur varðandi bakverkina.

1/11/04 14:00

Sæmi Fróði

Fínasti pistill, taki það til sín sem eiga.
Þeir sem eru að keyra í öðru hverfi en þeir búa, ætli þeir séu verri í öðru hverfi en sínu eigin?

1/11/04 14:01

Texi Everto

Hraðahindranir eru engin hindrun - þegar þú ert á hrossi! [Ljómar upp!] Hvað eru annars margar hraðahindranir í Rofabænum núna? 10?

1/11/04 14:01

Ívar Sívertsen

Rofabærinn er ein órofa hraðahindrun

1/11/04 15:00

Heiðglyrnir

Vandað félagsrit, sem er hreinlega í þeirri hættu að verða söguleg heimild.

Ívar Sívertsen:
  • Fæðing hér: 11/8/03 12:21
  • Síðast á ferli: 22/6/23 12:25
  • Innlegg: 12356
Eðli:
Ákaflega fagur ungur maður með mikinn metnað og kann sig á allan hátt. (hann lærði það á kvöldnámskeiði hjá Bréfaskóla SÍS)
Fræðasvið:
Ég veit allt, get allt og kann allt en fer rosalega leynt með það og kann að fela það vel.
Æviágrip:
[i]Fæddur að handraðanesi á sóðbrókarströnd í Ristilfirði. Lést skömmu síðar. Reis upp frá dauðum eftir korter og bað um brauð. Eftir það var ekki aftur snúið. Hann hefur síðan verið ánetjaður Baggalúti og virðist ekkert vera að skána.Hann fékk sér fæðingarblett á kinnina skömmu áður en hann lét taka hann af sér. Hann hló skömmu eftir það. Ívar hefur nú hafið búskap á Eyðibýli á Auðkúluheiði. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur en hann er all oft kenndur. Sívertsenættin hefur lýst hann útlægan og krafist þess að hann afsali sér ættarnafninu og taki upp nafnið Nestrevís en hann hefur margsinnis hafnað því. Ef þú ert að lesa þetta ennþá þá ert þú líklega jafn skemmdur og Ívar... ef ekki skemmdari barasta. Ertu enn að lesa? Nei nú læt ég leggja þig inn á geðdeild! Það er ekki heilbrigt að lesa svona langt! Viltu hætta þessu! HÆTTU SEGI ÉG!!! Ef þú ert enn að lesa og finnur ekki fyrri vott af þreytu þá skal því bætt við að þegar Gestapó var opnað í árdaga þá gerðist Ívar fastagestur hið snarasta. Hann hefur æ síðan verið einn virkasti gestapóinn og ritað mikið. Hins vegar er ljóst að hann kemur til með að auka viðveru sína á Gestapó á komandi árum því nú hefur hann komið sér í innivinnu við tölvu. Ertu enn að lesa þetta? ÉG held svei mér að þú ættir í alvöru að leita þér hjálpar. Ég er löngu hættur að lesa þetta... ég veit ekki einu sinni hvað stendur eftir línu þrjú. En hvað um það. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og eiginlega svo mikið að það er ekkert salt eftir í sjónum, það lagði á flótta upp í ár og stöðuvötn þannig að nú er sjórinn pakkfullur af ferskvatnsfiskum og ferskvatnshvölum. En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Megasi keisara, að skrásetja skyldi alla drykkina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Gylfi Ægisson var blandstjóri í Stúdjó Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta stjaksetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Rúnar Þór úr Litlu Hraunum frá Hótel Borg upp í Morgunblaðshús, til borgar Davíðs, sem heitir Hádegismóar, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu hjákonu sinni, sem var þung. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Ældi hún þá bjór sinn frumdrukkinn, sagði hann vondan og lagði hann í fötu, af því að eigi var romm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru barþjónar úti í haga og gættu um nóttina drykkja sinna.Og vörður laganna stóð hjá þeim, og dýrð Áfengis ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög fullir, en löggimann sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag afréttari færður, sem er Hristur og hrærðu, í Mogga Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna gubb vont, lagt í fötu. Og í sömu svipan var með löggumanninum fjöldi himneskra hljómsveita, sem lofuðu stuð og sögðu: Dýrð sé stuði í Hádegismóum, og fiður á Davíð og mönnum sem hann hefur velþóknun á. Þannig hljóðar hið heilaga stuðspjall. Og þegiðu svo!