— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Ívar Sívertsen
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skáldjöfur.
Dagbók - 10/12/05
Nú er ég reiður

Umræðan í dag og í gær hefur einkennst af pirruðum foreldrum sem tala vægast sagt illa um kennarastéttina.

Til margra ára voru grunnskólakennarar á sömu launum og framhaldsskólakennarar. Það ríkti sátt um það í þjóðfélaginu.

Síðan ákvað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að nú ættu sveitarfélögin að taka að sér grunnskólana og ekkert maus. Síðan ákvað téð ríkisstjórn að nú skyldi lofa sveitarfélögunum að þau fengju ríflega það sem farið hafði úr ríkiskassanum til rekstrar skólanna. Þetta var 1996. Sveitarfélögin fengu aldrei jafn mikið og ríkið eyddi í rekstur skólanna og samt voru skólastjórar farnir að kvarta og kveina hástöfum vegna fjárskorts. Sveitarfélögin voru aldrei spurð álits! Og í dag fá þau enn sömu smásummuna til rekstrar skólanna.

En sveitarfélögin hafa samt þurft að taka við auknum kröfum í kennslu, námsefni og öðru sem við kemur námi án aukafjárveitinga frá ríkinu. Það er búið að einsetja mjög marga ef ekki flesta skóla á landinu, án aukafjárveitingar frá ríkinu. Í staðinn hafa kennarar dregist aftur úr í launum þar sem sveitarfélögin hafa eytt í aðra þætti skólastarfsins.

En þar er ekki öll sagan sögð. Eins og vinnubrögð hafa verið varðandi þessa kjarabaráttu kennara þá verður að segjast að það hefur verið mjög margt klaufalegt! Það hefur verið allt jafn klaufalegt og síðast og þar áður o.s.frv.

Samninganefndir fóru ekki að tala saman fyrr en samningar voru lausir. Það var klúður nr. 1.

Samninganefndir ákváðu að fara í tveggja mánaða sumarfrí til að koma aftur ferskir til viðræðna að hausti en kennarar ákváðu að boða til verkfalls svona til vonar og vara nokkrum dögum eftir að hittast átti aftur. Það var klúður nr. 2 og jafnvel 3.

Kennarar fara í verkfall 20. september og fara svo að æsa sig í fjölmiðlum og hafa hátt og segjast hvergi ætla að gefa eftir. Það var klúður nr. 4 því að góðir hlutir gerast hægt en ekki í einum hvelli.

Svo kemur miðlunartillagan og í ljósi síðustu daga þá er ég steinhissa á því að kennarar skuli yfirleitt hafa mætt til vinnu, verandi svona auðsærðir.

Síðan er miðlunartillagan felld og fyrsta frétt í sjónvarpi sem og forsíðumyndir dagblaðanna sýna kennara sem fagna eins og á íþróttakappleik þegar mark hefur verið skorað. Það leit vægast sagt ekki vel út að þeir skyldu vera að fagna áframhaldandi verkfalli eins og þjóðfélagið lítur á þetta. Ég veit mæta vel að þeir voru að fagna samstöðunni en almáttugur minn að láta þetta sjást í þjóðfélagi sem hefur það fyrir sið að slíta allt úr samhengi! Það var klúður nr. 5.

Síðasta og jafnframt stærsta klúðrið var þegar lög höfðu verið sett á verkfallið að kennarar skyldu ekki mæta til vinnu sinnar. Hver svo sem vanlíðanin er þá verður bara að gera eins og í laginu „The show must go on!“ og ekkert múður. Ef ég er miður mín vegna þess hversu lítið ég fékk útborgað þá mæti ég samt í vinnuna og læt það ekki bitna á þeim sem ég á samskipti við í mínu starfi því ráðningarsamningur minn kveður á um að ég skuli mæta til vinnu á meðan ég er á launaskrá.

Í öll þau ár sem lög hafa verið sett á sjómenn þá hafa þeir mætt til vinnu daginn eftir! En kennarar kjósa að nota börnin í skólunum sem eins konar vopn í orrustunni við sveitarfélögin. Hvað ég meina með því? Jú, það sem ég er að meina er það að kennarar neita að mæta til vinnu vitandi það að börnin verða að mæta en þurfa annað hvort að fara sneypt til baka eða fá gæslu þar sem lágmarkseftirlit er haft með þeim. Börn og foreldrar eru látin hanga í lausu lofti með það hvort kennsla verði eða ekki. Foreldrar verða auðvitað pirraðir og ég vil geta þess að ég hef heyrt af mörgum foreldrum sem eru illa staddir fjárhagslega vegna þess að þeir þurftu að skerða vinnu sína vegna verkfallsins. Einnig hef ég heyrt af fólki sem hefur fengið uppsagnarbréf sem talið er að rekja megi til verkfallsins. Auðvitað verður fólk pirrað!

Á öllum vinnustöðum þar sem starfsmenn koma svona fram er hafist handa við að leita að nýju fólki og þeim sem koma svona fram er sagt upp. Kennarar vita hins vegar að það verður ekki gert við þá.

Ég ítreka það að ég styð heils hugar baráttuna en þegar kennarar eru farnir að nota barnið mitt sem eins konar vopn þá segi ég stopp!

Ég átti spjall við kennara í dag. Sá kennari hafði ekki mætt til kennslu og var ekkert á þeim buxunum að gera það meðan ósamið væri. Þessum kennara er orðið alveg sama um allt varðandi kennsluna og sagðist vera að íhuga uppsögn Ég spurði þá hvort viðkomandi væri þá alveg sama um börnin og þá kom hik á kennarann. Það var eins og kennarinn áttaði sig á því að það var um meira að tefla en [pardon my french] rassgatið á kennurunum sjálfum. Þarna er um að ræða 10 árganga af skólakrökkum sem verða fyrir varanlegum námsskaða.

Ef kennarar halda áfram að brjóta þau lög sem sett voru gegn verkfallinu, þ.e.a.s. halda áfram að taka lögin í sínar hendur þá má búast við því að foreldrar fari að gera það líka og þá má búast við því að eitthvað ljótt gerist. Ég er ósáttur við lagasetninguna upp að vissu marki. En um leið og búið er að setja lög þá á að fara eftir þeim!

Settu þig í spor fólks sem á alla sína ættingja úti á landi, bæði vinna 100% dagvinnu og lenda svo í þessu og þar af leiðandi engin úrræði í dagvistun á meðan. Ég er nokkuð viss um að þú myndir sturlast út í kennarastéttina. Mér eru a.m.k. 3 kennarar nákomnir og mín orð til þeirra hafa verið FARIÐ AFTUR AÐ VINNA, ÞAÐ ER VERIÐ AÐ VINNA Í ÞESSU!!! Já, kennarar eiga erfitt með að mæta til vinnu en við hin eigum það líka því að börnin okkar eru ein taugahrúga og svo verðum við að koma þeim fyrir einhvers staðar meðan við erum að vinna. En ég vil taka það fram að ég á svo gott að eiga samastað fyrir barnið mitt á meðan þessum ósköpum stendur.

En svo skulum við átta okkur á einu, það hafa verið samninganefndir sem setið hafa fundi sem staðið hafa í kjarabaráttunni en ekki hinn almenni kennari sem hjáróma mætir með banana við Alþingishúsið og einhver skilti. Og það sem meira er að þeir sem sitja í samninganefndunum fá fína peninga fyrir það. Og enn fremur að Eiríkur Jónsson þarf ekki að hafa áhyggjur, hann fær útborgað um hver mánaðarmót.

Það sem meira er að í öllum samfélögum í kringum okkur þá er það regla og jafnvel lög að ef samninganefndir ná ekki samningum og málið er komið eins langt og hér þá er skipt um samninganefndir. Það ætti að gera hér. Ég veit það að formaður samninganefndar sveitarfélaganna kann bara eitt orð og það er NEI. Og þegar það NEI kemur móti Eiríki Jónssyni sem er eitt NEI þá er ekki við góðu að búast..

Ábyrgðin er nr. 1 hjá Ríkisstjórninni og sveitarfélögunum. En kennarar verða að vera samvinnuþýðir og koma sér til vinnu til þess að það séu meiri möguleikar á því að samningar náist og að ríkið fari að setja meiri peninga vegna reksturs skólanna.

Ég get og hef sett mig í spor kennara og veit alveg mæta vel hvað um er að vera. Samt er ég reiður! Ég kæri mig ekki um að ég eða börnin mín séu notuð sem vopn. Ég kæri mig ekki um að láta draga mig á asnaeyrunum af því að kennurum finnst þeir vera dregnir á asnaeyrunum.

En á hinn bóginn réttlætir ekkert símtöl, greinar, blogg, viðtöl og tölvupósta þar sem verið er að níðast á kennurunum og bera þá persónulega sökum. Það ber vott um að fólk hafi ekki hugsað málið til enda. Ég finn til mikillar samúðar með kennurum á þeim vettvangi.

Ég skora á alla sem lesa þetta að setja sig í spor foreldra 6 ára barns sem spyr látlaust hvort það verði verkfall á morgun og líka hvort það verði einhvern tímann aftur verkfall.

   (255 af 287)  
1/11/03 17:00

Galdrameistarinn

Glæsileg skrif og hverju orði sannara. Lifðu vel og lengi fyrir þessi orð.

1/11/03 17:00

Vímus

Öll mín samúð með kennurum er fyrir löngu farin fjandans til. Kennarar eru þeir aðilar sem koma foreldrum næst hvað uppeldi barna varðar. Ég get ekki með nokkru móti séð hvernig þeir ætla sér að mæta aftur til vinnu og horfa framan í nemendur sína, hvað þá að hefja störf á eðlilegan hátt. Mér flökraði við vælinu í einhverri kerlingarálku í sjónvarpinu sem sagðist ekki fær um að mæta í vinnu vegna þess hve illa væri búið að fara með þessa viðkvæmu vesalinga. Henni leið eins og nánustu ættingjar lægju fyrir dauðanum, ( minnir mig) Já það er sem ég heyrði sjómenn láta þessi orð út úr sér.
Kennarar! Drullið ykkur til vinnu áður enn þið valdið meira tjóni. Nóg er það samt.

1/11/03 17:00

Jóakim Aðalönd

Góður pistill hjá þér Ívar. Þetta er eitt alsherjar klúður. Ekki kæmist Andrés upp með að mæta ekki í vinnuna hjá mér. Ég myndi bara plaffa af honum stélfjaðrirnar með byssunni góðu.

1/11/03 17:00

Skabbi skrumari

Ég er hvorki kennari, í sveitastjórn, þingmaður, foreldri né nemandi... en sem hlutlaus aðili, eins og það er hægt í þessu þjóðfélagi, þá er ég hjartanlega sammála þér. Las þó einhversstaðar að í upphafi, þ.e. áður en samningar voru lausir, hafi kennarar verið tilbúnir að setjast við samningaborðið en samninganefnd sveitafélaga hafi hundsað það. Hegðun kennara hefur þó verið alherjar klúður eftir það, sérstaklega að mæta ekki til vinnu eftir að lögin voru sett. Ég endurtek það sem ég hef sagt áður, skiljanlegt að vera "veikur" í einn dag... allt meira en það er vitleysa.

1/11/03 17:00

Von Strandir

Kennarar voru líka tilbúnir til þess að gera stuttan samning út þetta skólaár, til að sleppa við verkfall. Í mínum huga þá voru þeir þvingaðir í verkfall og haldið í því þetta lengi. Launanefnd sveitarfélaganna hefur ekki boðið neitt nýtt síðan í mars, bara endurreiknað sömu heildasummu fram og til baka. Þetta lyktar allt frekar illa og satt að segja held ég að sveitarstjórnamenn hafi verið farnir að stóla á lög sem yrðu þeim hagstæð. Sem síðar kom á daginn.

Mér finnst viðbrögð kennara skiljanleg og þessi hysteria sem gripið hefur um sig í þjóðfélaginu út af því fáránleg. Það er búið að vera 7 vikna verkfall, hvað máli skipta þessir 2 dagar til viðbótar ef það hjálpar kennurum að koma til skila sínu sjónarmiði. Veit ekki betur en að það sé ágætis mæting í dag.

Það er líka varhugavert að enda vinnudeilu með lagasetningu.

Eitt enn. Ríkið var að enda við að leggja 1.5 milljarð í laun sjómanna með því að viðhalda sjómannaafslætti. Þetta upphæðin sem vantar í til að mæta lágmarkskröfum kennara. Hefðu þeir ekki verið betur að þessum peningum komnir?

1/11/03 17:00

Barbie

Snilldarpistill Ívar og tekur þetta vel saman.

1/11/03 17:00

Nafni

Þetta skróp kennara fannst mér ríma fullkomlega við tregðu við synjanir undanþágubeiðna vegna fatlaðra og þroskahefra barna í upphafi verkfalls.
Ég hef samúð með og skilning á sjónarmiðum kennara en heimska í þessum dúr er kennurum ekki til framdráttar.

1/11/03 17:01

feministi

Ég er líka reið!

1/11/03 17:01

voff

Kennaraverkfall, smerkfall. Er fólk að fara á taugum? Krakkar læra ekkert nytsamlegt í skólum, bara eitthvað kjaftæði. Algebra, hefur aldrei nýst mér neitt. Kristinfræði, upplognar sögur af meintum kraftaverkadraugum suður í löndum fyrir 2000 árum. Danska, Onkel Joakim spiser pølse med flødeskum ... þvílíkt hrognamál. Kvíslgreining, það á nú bara að skjóta þann sem fann hana upp. Hljóðbreyting au og ey, eiga íslenskufræðingar ekkert líf?Samfélagsfræði, tilgangslaus tímaeyðsla par exellence. Börn læra allt það sem nýtist þeim annars staðar en í skólum. Hnúta læra börnin hjá skátunum. Að beita hníf læra börnin líka hjá skátunum. Að nota áttavita og kort, líka hjá skátunum. Að bölva læra þau í íþróttahreyfingunni. Að beita lúalegum brögðum læra þau líka í íþróttahreyfingunni. Ef þau vilja læra að afgreiða setja þau upp tombólu eða fá sér vinnu í videoleigu. Umferðarreglurnar, Lúlli löggubangsi kennir þær. Að læra ensku, stillið bara á Skjá 1. Hvern fjandann erum við eiginlega að gera með því að moka peningum í skóla?

1/11/03 17:01

Sprellikarlinn

Heyr, heyr!

1/11/03 17:01

Jóakim Aðalönd

Já, ég man vel eftir því þegar ég borðaði pylsuna með þeytta rjómanum í Danaveldi. Hún var ljúffeng. (Og ódýr).

1/11/03 17:01

Nornin

Gó Ívar!! Góð grein

1/11/03 17:01

Glúmur

Ég var reyndar farinn að halda að verkfallið myndi aldrei leysast og að kirkjum yrði breytt í skóla - svona til að blessaðir prestarnir fengju eitthvað að gera.

1/11/03 17:01

Ívar Sívertsen

ég þakka hlý orð í minn garð. Ég vil bæta því við hér að blessaðir kennararnir mættu í skólann hjá dóttur minni í morgun. Hún var alsæl. En nú er bara að sjá hvort þeir mæta á morgun!

Ívar Sívertsen:
  • Fæðing hér: 11/8/03 12:21
  • Síðast á ferli: 22/6/23 12:25
  • Innlegg: 12356
Eðli:
Ákaflega fagur ungur maður með mikinn metnað og kann sig á allan hátt. (hann lærði það á kvöldnámskeiði hjá Bréfaskóla SÍS)
Fræðasvið:
Ég veit allt, get allt og kann allt en fer rosalega leynt með það og kann að fela það vel.
Æviágrip:
[i]Fæddur að handraðanesi á sóðbrókarströnd í Ristilfirði. Lést skömmu síðar. Reis upp frá dauðum eftir korter og bað um brauð. Eftir það var ekki aftur snúið. Hann hefur síðan verið ánetjaður Baggalúti og virðist ekkert vera að skána.Hann fékk sér fæðingarblett á kinnina skömmu áður en hann lét taka hann af sér. Hann hló skömmu eftir það. Ívar hefur nú hafið búskap á Eyðibýli á Auðkúluheiði. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur en hann er all oft kenndur. Sívertsenættin hefur lýst hann útlægan og krafist þess að hann afsali sér ættarnafninu og taki upp nafnið Nestrevís en hann hefur margsinnis hafnað því. Ef þú ert að lesa þetta ennþá þá ert þú líklega jafn skemmdur og Ívar... ef ekki skemmdari barasta. Ertu enn að lesa? Nei nú læt ég leggja þig inn á geðdeild! Það er ekki heilbrigt að lesa svona langt! Viltu hætta þessu! HÆTTU SEGI ÉG!!! Ef þú ert enn að lesa og finnur ekki fyrri vott af þreytu þá skal því bætt við að þegar Gestapó var opnað í árdaga þá gerðist Ívar fastagestur hið snarasta. Hann hefur æ síðan verið einn virkasti gestapóinn og ritað mikið. Hins vegar er ljóst að hann kemur til með að auka viðveru sína á Gestapó á komandi árum því nú hefur hann komið sér í innivinnu við tölvu. Ertu enn að lesa þetta? ÉG held svei mér að þú ættir í alvöru að leita þér hjálpar. Ég er löngu hættur að lesa þetta... ég veit ekki einu sinni hvað stendur eftir línu þrjú. En hvað um það. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og eiginlega svo mikið að það er ekkert salt eftir í sjónum, það lagði á flótta upp í ár og stöðuvötn þannig að nú er sjórinn pakkfullur af ferskvatnsfiskum og ferskvatnshvölum. En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Megasi keisara, að skrásetja skyldi alla drykkina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Gylfi Ægisson var blandstjóri í Stúdjó Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta stjaksetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Rúnar Þór úr Litlu Hraunum frá Hótel Borg upp í Morgunblaðshús, til borgar Davíðs, sem heitir Hádegismóar, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu hjákonu sinni, sem var þung. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Ældi hún þá bjór sinn frumdrukkinn, sagði hann vondan og lagði hann í fötu, af því að eigi var romm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru barþjónar úti í haga og gættu um nóttina drykkja sinna.Og vörður laganna stóð hjá þeim, og dýrð Áfengis ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög fullir, en löggimann sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag afréttari færður, sem er Hristur og hrærðu, í Mogga Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna gubb vont, lagt í fötu. Og í sömu svipan var með löggumanninum fjöldi himneskra hljómsveita, sem lofuðu stuð og sögðu: Dýrð sé stuði í Hádegismóum, og fiður á Davíð og mönnum sem hann hefur velþóknun á. Þannig hljóðar hið heilaga stuðspjall. Og þegiðu svo!