— GESTAPÓ —
Lopi
Heiðursgestur.
Saga - 9/12/07
Tvær flugur í einu höggi

Hér fer saga um baráttu mína við húsflugur.

Í svefnherberginu mínu voru í sumar að meðaltali ca. 5-7 flugur á sveimi. Líklegast voru þær fleiri. Þetta voru mjög skipulagðar flugur. Þegar ég var að fara að sofa var ein að troða sér í nefið á mér önnur að traðka á vörurunum mínum og sú þriðja var að sveima í kringum höfuðið á mér eins og hún væri að bíða eftir að röðin væri komið að henni. Svo sá maður aðrar þrjár til fjórar á veggjunum. Þær voru á biðlista.

Sólríku sumri fylgja flugur og ég var ákaflega umburðarlyndur gagnvart þeim lengst framan af. Hinsvegar þegar sumarlok nálguðust var farið að styttast allverulega í pirrurnar á mér. Síðustu 2 -3 vikur hef ég gefið mér allnokkrar mínútur áður en ég lagðist í svefngrúfu til að kála þessum litlu greyjum. Ef mér tókst það var það sama sagan. Það væri eins og fæðst hefði fluga á stundinni í stað þeirrar er lét lífið.

Síðustu tvö kvöld voru mér sem mér væri nóg boðið og ég lagði mikla stund á að kála þeim sem eftir voru. Þó sá ég auman á tveim flugum á vegg sem voru að stunda kynlíf. Þarna var gullið tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi en nei ekki þegar svona stendur á. Ég er ekki algjör sadisti.

Núna rétt áðan gerðist þó svoldið magnað. Enn voru einhverjar 2 -3 flugur að flögra í kringum mig. Ég rétti út báðar hendur. Ein fluga settist á framhandlegg vinstri handar. Ég færði hægri hendina rólega að vinstri hendi og bjó mig undir að slá. Allt í einu lendir önnur fluga ca 5 cm frá þeirri fyrri. Ég hugsaði mig ekki tvistvar um og lét höggið falla. Mér tókst að slá tvær flugur í einu höggi.

Aðeins ein fluga var eftir í herberginu. Hún flögraði út um gluggann.

   (7 af 18)  
9/12/07 04:00

Útvarpsstjóri

Fáðu þér bút af sedrusviði og settu einhvers staðar í herbergið, þá hverfa allar flugur.

9/12/07 04:01

Regína

Þú ættir að rækta tómata.

9/12/07 04:01

krossgata

B-vítamín hafa sumir sagt að fæli flugur. Sel það ekki dýrar en ég keypti það.

9/12/07 04:01

Garbo

Já, þetta er hvimleiður fylgifiskur sumarsins en mér sýnist þú hafa fundið ráð sem dugir. Ætla að prófa þetta næst.

9/12/07 04:01

kolfinnur Kvaran

Kveiktu bara í öllu draslinu.

9/12/07 04:01

Jóakim Aðalönd

Það er líka hægt að hafa hitastig í herberginu mjög lágt, eða hreinlega hafa ljós logandi.

9/12/07 04:01

Skabbi skrumari

Svo er ágætt að hafa eitthvað girnilegt í einu horninu fyrir flugurnar, sviðakjamma (ósoðinn) eða jafnvel glas með gómsætum gambra (ekki það að maður tími því)...

9/12/07 04:01

Huxi

Fáðu þér góða krosskönguló til að gera vef fyrir opnanlega glugga herbergisins og hún mun éta flugurnar um leið og þær far út að fá sér frískt loft...

9/12/07 04:01

Günther Zimmermann

Þarna hafðirðu af turtilflugunum hinn bezta mögulega dauðdaga!

9/12/07 06:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ég sem hélt að þú gerðir ekki flugu mein . . .

Lopi:
  • Fæðing hér: 26/12/03 17:27
  • Síðast á ferli: 17/3/24 01:02
  • Innlegg: 3973
Eðli:
Vermandi og stingandi
Fræðasvið:
Einangrunafræði og er hljóðkerfisfræðingur.
Æviágrip:
Ævi mín er orðin svo löng og þéttprjónuð að hún verður ekki rakin upp hér. Þó vil ég nefna að ég er ógæfumaður og alloft verið rúinn inn að skinni. En góða daga hef ég líka átt því ósjaldan hafa fagrar kvenmanshendur leikið um líkama minn.